Aðeins lengra…

Össur Skarphéðinsson líkti aðildarferlinu að Evrópusambandinu við maraþon. Hvað veit hann?

Þar sem ég lá í skugga eikartrjáa við fallegt breiðstræti í Zehlendorf og reyndi til skiptis að teygja á kálfunum og hvíla þá komu að mér þýsk hjón á miðjum aldri sem höfðu ákveðið að fá sér göngutúr á þessum sólríka sunnudegi:

„Er allt í lagi?“ spurðu þau í tón sem best verður lýst sem fullkominni blöndu af umhyggju og undrun.

„Nei, ég… ég er alveg góður… ég er bara aðeins að hvíla mig.“

„Ertu nokkuð að gefast upp?“

„Nei, nei, hafið ekki áhyggjur, ég er ekki að gefast upp, ég ætla aðeins að hvíla mig of svo held ég áfram,“ ítrekaði ég í heiðarlegri tilraun til að sannfæra okkur þrjú um að ég væri svo sannarlega að fara klára þetta blessaða hlaup.

„Þú ferð ekki að gefast upp núna, þú ert næstum því búinn að hlaupa þrjátíu kílómetra. Að gefast upp núna, það væri… það væri órökrétt.“

Við þessu átti stærðfræðingurinn engin svör, ég tróð mér á fætur og hóf að sniglast áfram með straumnum. Einhver fyndinn Berlínarbúi hafði búið til skilti sem á var mynd af bjórkollu og áletrun „EFTIR AÐEINS 13 KM“. „Aðeins?“ hugsaði ég „Þetta er nú meiri skítahvatningin“. En hélt þó áfram. Annað hefði verið órökrétt.

„Áfram, Pawel!“ hrópaði eituráköf húsmóðir á fimmtugsaldri sem hafði greinilega dregið unglingana nauðuga á Ku’damm til að fylgjast með hlaupinu. Sú ráðstöfun að prenta fornöfn þátttakenda á rásnúmerin hafði klárlega skemmtilegar afleiðingar í för með sér. Mér tókst að ná stuttu augnsambandi við hana. Eitthvað í fari hennar var undursamlega einlægt og hlýlegt. Mér er enn hugsað til þessarar konu. Sú tilfinning sem Pólverji fær þegar þegar bláókunnugir Þjóðverjar hvetja hann til dáða er margvíð og flókin. Svo margvíð og svo flókin að erfitt er að lýsa henni með orðum. Ég ætla að láta það vera.

Á stað sem Ronald Reagan flutti eitt sinn fræga ræðu, þar sem hár steinmúr gnæfði yfir stendur Branderborgarhlið, tákn sameiningar alls þess sem múrinn sundraði. Undir þetta hlið hlupu hlaupararnir eftir 42 kílómetra áður en við tók 200 metra endasprettur á götu sem hljómar kunnuglega í eyrum Íslendinga. Þarna var ég. Í sameinaðri höfuðborg sameinaðs ríkis á sameinuðum skaga sem gjarnan kallar sig álfu.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.