Skásti kosturinn í vonlausri stöðu

Bankasýsla ríkisins hefur frá því að frumvarp um hana var lagt fram síðasta vor verið hálfgerður tákngervingur alls þess sem hægrimenn hata – ríkisrekstrar og afskipta stjórnmálamanna af atvinnulífinu. Þannig eru flestir minnugir þess hvernig stjórnarandstaðan kepptist við að finna Bankasýslunni allt til foráttu – og gerir í raun enn. En er Bankasýslan vonlaus ráðstöfun? Hefði verið hægt að finna heppilegri lausn á þeim vanda sem stjórnvöldum er á höndum, eða er Bankasýslan hugsanlega skásti kosturinn í vonlausri stöðu?

Bankasýsla ríkisins hefur frá því að frumvarp um hana var lagt fram síðasta vor verið hálfgerður tákngervingur alls þess sem hægrimenn hata – ríkisrekstrar og afskipta stjórnmálamanna af atvinnulífinu. Þannig eru flestir minnugir þess hvernig stjórnarandstaðan kepptist við að finna Bankasýslunni allt til foráttu – og gerir í raun enn. En er Bankasýslan vonlaus ráðstöfun? Hefði verið hægt að finna heppilegri lausn á þeim vanda sem stjórnvöldum er á höndum, eða er Bankasýslan hugsanlega skásti kosturinn í vonlausri stöðu?

Ástæða þess að ákveðið var að setja bankasýsluna á fót er sá vandi sem hið opinbera hefur staðið frami fyrir síðan bankarnir komust í ríkiseigu: Að þegar ríkið er stærsti eigandi fjármálafyrirtækja í landinu er nánast ómögulegt að hefja starfsemi þeirra yfir allan vafa um pólitísk afskipti, og slíkt er ekki líklegt til að auka tiltrú á fjármálakerfi sem tekið hefur stóran skell.

Skref í þá átt er hins vegar að koma eigendahlutverki ríkisvaldsins fyrir eins fjarri stjórnmálamönnum og hægt er, setja fram skýra eigandastefnu og reglur um verkferla innan geirans og vinna að því að koma bönkunum aftur í einkaeigu með gegnsæjum hætti.

Síðasta vor var þannig ákveðið að stofna Bankasýslu ríkisins til að fara með eignarhlut hins opinbera í fjármálastofnunum. Með öðrum orðum að færa eigendahlutverk ríkisins í hendurnar á ýmist skipuðum eða faglega ráðnum embættismönnum í stað þjóðkjörinna stjórnmálamanna. Þannig hefur til dæmis sérstök valnefnd verið sett saman til að velja bankaráðsmenn ríkisins, og verður ekki séð að hún sé skipuð öðruvísi en á faglegum forsendum.

Auk þess að taka hefðbundnar eigendaákvarðanir fyrir hönd ríkisins er síðan helsta hlutverk Bankasýslunnar að koma bönkunum aftur í einkaeigu innan fimm ára, sem reyndar er í það lengsta, og reyna að tryggja trúverðugleika og samkeppni á markaði. Þá fer Bankasýslan einnig með eignaumsýslufélag hins opinbera, sem raunar stendur enn tómt, hamingjunni sé lof.

Til að skýra með hvaða hætti Bankasýslan vinnur að þessum lögbundnu markmiðum sínum gaf hið opinbera svo út eigandastefnu sem öllum er aðgengileg. Það er þarflaust að taka fram að líklegast hugnast fæstum allt í eigandastefnunni, en hún er þó uppi á borðum og hægt að takast á um hana.

Í ofanálag eru samningar við erlenda kröfuhafa um endurfjármögnun bankanna vonandi í höfn, og þannig búið að fara langleiðina með einkavæðingu þeirra að nýju – þó raunar eigi eftir að koma í ljós hvort samkomulagið standist.

Að þessu leytinu til hefur ríkisstjórnin hingað til gert allt rétt til að endurvekja tiltrú á bankakerfið – eins langt og hún nær. En þó ofangreindar aðgerðir séu nokkurnvegin eftir bókinni skortir enn mikið upp á traust og gegnsæi varðandi meðferðina sem fyrirtæki fá við endurskipulagningu inni í bankakerfinu. Það er ekki fyrr en stjórnvöld tryggja slíkt gagnsæi sem raunverulega verður hægt að hrósa ríkisstjórninni fyrir vel heppnaðar aðgerðir í átt að endurreisn bankakerfisins. Fyrstu skrefin eru þó sem betur fer í rétta átt.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)