Í neikvæðum fréttum er þetta helst

Nú þegar rúmt ár er frá hruni íslensk bankakerfis virðast margir hreinlega hafa gefist upp á að fylgjast með fréttum þar sem fjölmiðlar kappkosta við að flytja sem neikvæðastar fréttir. Tilgangur fjölmiðla virðist ekki lengur vera sá að upplýsa almenning um atburði líðandi stundar heldur gefa þjóðinni sem svartasta mynd af íslensku samfélagi.

Árið 2007 bárust þær fréttir að Íslendingar væru samkvæmt svokallaðri „hamingjuvísitölu” hamingjusamasta þjóð í Evrópu. Nú, árið 2009, horfir öðruvísi við. Árið hefur einkennst af neikvæðum fréttum og toppurinn virðist vera þegar fyrirsagnirnar eru svo neikvæðar að það getur engin hugsað sér að lesa fréttina sem fylgir þeim. Svo neikvæður hefur fréttaflutningurinn verið að margir hafa hreinlega gefist upp á að fylgjast með fjölmiðlum. Maður kemst ekki hjá því að velta því fyrir sér hvernig þessi sífellt neikvæði fréttaflutningur skilar sér á hamingjuvísitölu þjóðarinnar.

Í vikunni skrifaði Guðrún Sóley Gestsdóttir pistil (http://deiglan.com/index.phpitemid=12928&catid=1=) þar sem hún kallar fjölmiðla fjórða ríkisvaldið, það séu dómstólar, löggjafi, framkvæmdarvald og fjölmiðlar. Þessi hugmynd er alls ekki fjarri lagi enda er ljóst að fjölmiðlar miðla málum líðandi stundar til samfélagsins og móta skoðanir þess. Þegar fréttaflutningur er að mestu leyti neikvæður er því ekki skrýtið að það smiti út frá sér.

Í síðustu viku sagði menntaskólanemi við mig „ég ætla í háskólanám út og ég ætla ekki að koma aftur til Íslands þar sem allir eru neikvæðir”. Undirrituð óttast að með neikvæðari umræðu, eins og þeirri sem hefur verið viðvarandi hér á landi undanfarið ár, munum við hrekja ungmenni þjóðarinnar í burtu. Það er ekki hollt fyrir börn og ungt fólk að heyra ekkert annað en samansafn af því allra neikvæðasta þann daginn og sögur af því versta í mannlegu eðli. Þegar ungt fólk hefur ekki lengur áhuga á að búa í samfélaginu okkar þá verður að grípa til einhverra ráðstafana.

Þjóðfélagsástandið er allt annað en eðlilegt um þessar mundir og margt neikvætt sem er í gangi. Undirrituð gerir sér fulla grein fyrir því að fréttamenn séu ekki ráðnir til þess að vera Pollýanna vinnustaðarins og það er auðvitað bæði eðlilegt og nauðsynlegt að fréttamenn skuli beina augum sínum að stórum og alvarlegum málum. Hinsvegar er nauðsynlegt fyrir geðheilsu þjóðarinnar að fjölmiðlar taki höndum saman og reyni að koma á einhverju jafnvægi milli neikvæðs og jákvæðs fréttaflutnings. Umræðan má ekki bara snúast um hversu svart ástandið er, enda eru fjölmargir einstaklingar að sýna frumkvæði og brydda upp á nýjungum, og eigum við ekki að gleðjast yfir því? Það er hlutverk fjölmiðla að upplýsa þjóðina, bæði um það sem miður fer en ekki síður um það sem skapar getur bjartsýni og gefur von um betri daga.