Nýtt líf í lífeyrissjóðina

Það er fagnaðarefni að Pétur H. Blöndal, alþingismaður, vinni nú að tillögum um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Tillögur hans miða að því að skilgreina eignir sjóðanna sem eign sjóðsfélaga, að sjóðsfélagar kjósi stjórn lífeyrissjóðanna og fái upplýst hve verðmæt eign þeirra er í lífeyrissjóðunum.

Íslendingar hafa löngum státað sig af því að eiga eitt besta lífeyrisssjóðskerfi í heiminum. Það hefur þó enginn farið varhluta af því að Lífeyrissjóðirnir töpuðu gríðarlegum fjárhæðum við fall bankanna og vegna fjárfestinga í innlendum fyrirtækjum sem nú eru ýmist gjaldþrota eða nær verðlaus.

Þrátt fyrir afleita raunávöxtun á síðasta ári þá eru Lífeyrissjóðirnir enn einhverjar valdamestu stofnanir landsins í krafti þess fjármagns sem þeir ráða yfir og ljóst að lífeyrissjóðirnir munu skipa stórt hlutverk í þeirri enduruppbyggingu efnahagslífsins sem þarf að eiga sér á næstunni.

Hugmyndir um Fjárfestingasjóð Íslands og aðkomu lífeyrissjóðanna að öllum stærstu framkvæmdum hér á landi á næstu árum bera þess sterklega merki að þeir munu hafa sitt hvað um það að segja hvaða innlendu fyrirtæki munu lifa af og í hvaða framkvæmdir verður ráðist.

Það felast því mikil völd í því að sitja í stjórn lífeyrissjóðs nú til dags – jafnvel meiri en fyrir hrun. Þar dansa atvinnurekendur og forysta verkalýðsfélaganna órjúfa dans og hleypa ekki hinu sönnu eigendum fjársins, sjóðsfélögunum að borðinu.

Það er vissulega góð hugmynd að allir hafi trygga framfærslu á sínum efri árum þegar starfsorka og geta fer minnkandi. Þó væri óskandi að fólk hefði fullt val um það hvaða leiðir það nýtir til að tryggja fjárhagslegt öryggi sitt. En á meðan allir launþegar eru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóði þá er það í hæsta máta óeðlilegt að þeir hafi nánast ekkert um stjórn þeirra og fjárfestingastefnu að segja.

Það er því fagnaðarefni að heyra af því að Pétur H. Blöndal, alþingismaður, vinni nú enn og aftur að tillögum um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Tillögur hans miða að því að skilgreina eignir sjóðanna sem eign sjóðsfélaga, að sjóðsfélagar kjósi stjórn lífeyrissjóðanna og fái upplýst hve verðmæt eign þeirra er í lífeyrissjóðunum.

Þetta er í anda þess að það er hlutverk stjórna lífeyrissjóða að gæta fyrst og fremst hagsmuna sjóðsfélaganna og því er rétt að þeir fái einhverju um það ráðið hverjir skipa stjórnir þeirra.

Vonandi er nú meiri hljómgrunnur fyrir því en áður meðal alþingismanna að tillögur Péturs Blöndal verði að frumvarpi sem meirihluti þingmanna treystir sér til að styðja og tryggja þar með eðlilegt lýðræði innan lífeyrissjóðanna og þessi sjálfsögðu réttindi sjóðsfélaga.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.