Erfitt framundan

Á sama tíma fyrir ári síðan vissu ekki nema innstu koppar í búri hvað var í vændum. Þeir voru hins vegar uppteknir við að reyna að snúa þróuninni við, þróun sem á endanum þeir réðu engan veginn við og allt fór á versta veg. Vissulega voru blikur á lofti í september í fyrra, en almenna borgara gat ekki órað fyrir því sem átti eftir að gerast. Þetta vekur upp spurningar um hver sé staðan í dag og hvað gerist í vetur?

Nú þegar sumarfríum er að ljúka, skólarnir að byrja og lífið á að vera að falla í fastar skorður hjá flestum er ekki laust við að ákveðinn óhug leggi að vegna komandi vetrar.

Á sama tíma fyrir ári síðan vissu ekki nema innstu koppar í búri hvað var í vændum. Þeir voru hins vegar uppteknir við að reyna að snúa þróuninni við, þróun sem á endanum þeir réðu engan veginn við og allt fór á versta veg. Vissulega voru blikur á lofti í september í fyrra, en almenna borgara gat ekki órað fyrir því sem átti eftir að gerast.

Þetta vekur upp spurningar um hver sé staðan í dag og hvað gerist í vetur?

Við vitum að von er á gríðarlegum niðurskuði í komandi fjárlögum, en hvar mun niðurskurðahnífurinn koma harðast niður? Við sjáum nú þegar áhrifin á lögregluna en þess er að vænta að þar eigi ástandið enn eftir að versna og glæpir eftir að aukast. Væntanlega verður menntakerfið og heilbrigðiskerfið harkalega fyrir niðurskurðinum líka en með hvaða afleiðingum? Verður fjölgað í bekkjum, skólum fækkað, aðgangastakmarkanir í háskóla? Hverjar verða afleiðingarnar í heilbrigðiskerfinu? Verður hætt að kaupa ákveðin lyf, hætt að veita meðferðir við tilteknum sjúkdómum eða mun þjónustan almennt versna með færra og verr launuðu starfsfólki?

Við vitum öll að þetta er bara brot af því sem er á leiðinni en einhvern veginn er samt enginn til að segja okkur frá því hverju við megum eiga von á.

Ég held að margir Íslendingar séu búnir að sætta sig við það í huganum að ástandið verði erfitt næstu ár og eru tilbúnir að bíta í það súra epli og þræla sér í gegnum það sem koma skal. En það er vonlaust að undirbúa sig almennilega undir það sem framundan er ef við vitum ekki annað en það næstu ár verði „erfið“. Hvað þýðir það?

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.