Þingkosningar í Noregi

Nú er kosningabaráttan fyrir þingkosningarnar í Noregi komin á fullt enda tæpur mánuður til kosninga. Allt útlit er fyrir að kosningarnar verði mjög spennandi, en síðustu skoðanakannanir benda til þess að núverandi ríkisstjórn nái ekki að halda þingmeirihluta sínum.

Nú er kosningabaráttan fyrir þingkosningarnar í Noregi komin á fullt enda tæpur mánuður til kosninga. Allt útlit er fyrir að kosningarnar verði mjög spennandi, en síðustu skoðanakannanir benda til þess að núverandi ríkisstjórn nái ekki að halda þingmeirihluta sínum.

Núverandi stjórnarmeirihluti í Noregi samanstendur af ríkisstjórnarsamstarfi þriggja flokka. Verkamannaflokksins, Senterpartiet og Sosialistisk Venstreparti. Saman fengu þessi flokkar 48% atkvæða í þingkosningunum fyrir fjórum árum og 87 kjörna þingmenn af 169 mögulegum. Flokkarnir eru því með fimm þingmanna meirihluta. Í síðustu skoðanakönnunum missa stjórnarflokkarnir þrír samanlagt níu þingmenn og missa því þingmeirihlutann sinn.

Í kosningabaráttunni er hart tekist á í mörgum málaflokkum en stærsta kosningamálið er hvernig skuli viðhalda og bæta velferðakerfið. Sérstaklega er tekist á um hvernig eigi að nýta hin geysistóra olíusjóð Norðmanna. Framfaraflokkurinn hefur gagnrýnt núverandi ríkisstjórn mjög mikið fyrir að vera íhaldssamir á olíusjóðinn og telja að fjármagninu sé betur varið í norska velferðarkerfinu en í erlendum fjárfestingarsjóðum. Svipaðan hljómgrunn má finna í Hægri flokknum og Kristilega borgaraflokknum.

Menntamálin eru einnig ofarlega í umræðunni en Hægri flokkurinn hefur tekið skýra afstöðu í þeim málum og hefur boðað miklar breytingar ef hann kemst til valda. Flokkurinn vill meðal annars bæta menntun kennara til muna. Þeir vilja að kennarar öðlist meiri menntun en nú eru gerðar kröfur til. Einnig vilja þeir gera kröfurnar inn í Kennaraháskóla meiri ásamt því að bæta nám skólans og meiri kröfur verði gerðar til þeirra sem útskrifast. Hægri flokkurinn vill lengja skólaárið og vill auka kennslustundir á kostnað skoðanaferða og leikjanámskeiða.

Önnur mál eins og heilbrigðismál, samgöngumál og innflytjendamál eru einnig áberandi í kosningabaráttunni. Framfaraflokkurinn hefur verið, eins og undanfarin ár, sá flokkur sem tekur harðast afstöðu í innflytjendamálum. Þeirra afstaða er að það þurfi að takmarka komu innflytjenda til Noregs. Þeir benda meðal annars á að fleiri innflytjendur hafi komið til Noregs undanfarin ár, en til Danmerkur og Finnlands samanlagt. Aðrir flokkar hafa verið tregari að taka afstöðu í þessum málaflokki og má telja fullvíst að Framfaraflokkurinn græði á því.

Kosningabarátta núverandi stjórnarflokka snýst aðallega um þann árangur sem þeir hafa náð síðustu fjögur árin sem þeir hafa verið við völd. Þeir benda meðal annars á árangur sinn á sviði heilbrigðismála, jafnréttismála, umhverfismála, menntamála í því samhengi. Einnig hreykja ríkisstjórnarflokkarnir sig af því að hafa komist vel í gegnum þá erfiðleika sem hafa skekið fjármálaheiminn undanfarið ár. Olíusjóðurinn hafi náð fyrri styrk og aldrei verið jafn stór. Ríkisstjórnaflokkarnir lofa kjósendum að halda góðum árangri sínum áfram og vilja leggja sitt á vogaskálarnar til að bæta hið sterka velferðakerfi Noregs enn meira.

Það sem er sérstakt við kosningabaráttuna í Noregi í ár er að flokkarnir hafi búið til tvö kosningabandalög. Í fyrsta lagi er bandalag núverandi stjórnarflokka og í öðru lagi bandalag Hægri flokksins og Framfaraflokksins. Það hefur ekki verið venjan í Noregi að stjórnmálaflokkarnir myndi bandalög fyrir kosningar, en það minnir einna helst á aðferðir sem hafa verið notaðar í öðrum Evrópulöndum, þar á meðal í Svíþjóð og á Ítalíu.

Samkvæmt síðustu skoðanakönnunum, nær hvorugt kosningabandalagið þingmeirihluta. Flestir sérfræðingar á sviði norskra stjórnmála telja þó að líklegast sé að núverandi ríkisstjórnarflokkar muni halda samstarfi sínu áfram í minnihlutastjórn þar sem Venstre muni verja þá falli. Það sé alltof mikill skoðanaágreiningur á milli Framfaraflokksins og flestra annarra flokka til þess að það sé möguleiki að mynda aðra ríkisstjórn. Í raun og veru sé það bara einn flokkur sem getur unnið með Framfaraflokknum og það sé Hægri flokkurinn, en jafnvel þar er skoðanaágreiningurinn töluverður. Þessir tveir flokkar vanti líka töluvert upp á að fá þingmeirihluta og mjög ólíklegt að þriðji flokkurinn komi í ríkisstjórnarsamstarf með þeim.

En framundan er hörð og spennandi kosningabarátta í Noregi. Sagan sýnir að Framfaraflokkurinn muni ekki fá eins mikið fylgi í kosningunum og í skoðanakönnunum, en hann hefur þó verið að bæta verulega við sig á síðustu vikum. Pressan á Hægri flokknum er einnig mikil til að gera slíkt hið sama. Róður hægri flokkanna verður þó mjög erfiður næstu vikurnar og þeir þurfa að bæta á sig töluverðu fylgi, til þess að fella núverandi ríkisstjórn og komast til valda.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)