Hver er tilgangur lífsins?

Bresk kona vann nú fyrir helgi mál er hún rak fyrir dómstólum þess efnis að læknar tækju öndunarvél hennar úr sambandi. Á hvers valdi á vitjunartími okkar að vera; Guðs, náttúrunnar, þingmanna, dómstóla eða okkar sjálfra?

Meðal erfiðustu málaflokka er teljast til heilbrigðismála eru án efa líknardráp. Þau hafa skotið upp kollinum af og til og alltaf hefur verið hart deilt. Síðast voru þessi mál í brennidepli fyrir um ári síðan er Hollendingar samþykktu lög sem heimiluðu líknardráp. Við það tilefni birtist einmitt pistill um málið hér á Deiglunni.

Bresk kona vann nú fyrir helgi mál er hún rak fyrir dómstólum þess efnis að læknar tækju öndunarvél hennar úr sambandi. Hún er lömuð neðan við háls og getur ekki andað af sjálfsdáðum. Líkurnar á bata hennar eru hverfandi og þótt hún sé ekki dauðvona er henni haldið á lífi af önduarvél.

Læknar hennar neituðu ósk hennar um að taka öndunarvélina úr sambandi. Hún leitaði því til dómstóla sem úrskurðuðu henni í hag. Hún mun því fá ósk sína uppfyllta um að deyja frekar en að lifa sem fangi fötlunar sinnar.

Segja má að hvert einasta mál af þessu tagi sé einstakt. Þó eru tvö tilvik algengust. Annars vegar þeir sem ekki eiga von um bata og er haldið á lífi af vélum, oftast eru þessir einstaklingar ekki með meðvitund. Hins vegar eru það þeir sem líða miklar kvalir af ólæknandi sjúkdómi, sem oftast er banvænn. Þar sem þetta fólk hefur nægilega líkamsstarfsemi til að lifa án hjálpar véla þarf að gefa því banvæn lyf til að deyða það. Skilningur á líknardrápum í fyrrnefndu tilvikunum er nokkuð almennur en um þau síðari er hart deilt.

Röksemdir lækna konunnar fyrrnefndu voru m.a. þær að hún væri ekki dauðvona og hefði óskerta andlega heilsu og því væri þeim ekki stætt á að binda endi á líf hennar. Hún vildi aftur á móti ekki fremja sjálfsmorð af tillitssemi við fjölskyldu sína.

Segja má að þetta snúist að nokkru leyti um rétt fólks til að fremja sjálfsmorð. Getur einhver ákveðið að hans tími sé kominn? Er það ekki á valdi Guðs, náttúrunnar eða örlaganna? Erum við algjörlega okkar eigin herrar þannig að ef við viljum ekki taka þátt í samfélagi manna í þessu jarðlífi þá geti enginn tekið af okkur réttinn til að segja okkur úr því, hvort sem við erum heilbrigð eður ei? Eða er þarna einhver millivegur, flest höllumst við líklega að því.

Svörin við þessum spurningum felst algjörlega í viðhorfum einstaklinga til einnar af grundvallarspurningum okkar mannanna. Hver er tilgangur lífsins? Ég er viss um að stjórnmálamenn hér á landi munu veigra sér við að leggja út í þessa umræðu enn um sinn og líklegt að slík mál muni fyrr fara fyrir dómstóla hér en í atkvæðagreiðslu í Alþingi. En eitt er víst, að við hin þreytumst seint á rökræðum um þessar grundvallarspurningar samfélagsins.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)