Icesave ofbeldið samræmist ekki Evrópuhugsjóninni

Áhugi á því að lúta í gras í Icesave málinu og trú á að ESB aðild muni leysa flestan vanda virðist fara saman hjá mörgum. En hvernig getur það samræmst „Evrópuhugsjóninni“ að lítil og herlaus þjóð sé barinn til uppgjafar án dóms, laga eða sanngjarnra samninga?

Pólitík er ekki alltaf sérstaklega lógísk. Stundum er gerð sú krafa til stjórnmálamanna að þeir séu miklir og sjálfstæðir hugsuðir sem láti ekki annað en eigin samvisku ráða orðum sínum og gjörðum. En oftar er ætlast til þess að þeir séu fulltrúar fyrir umbjóðendur og skoðanasystkin og þurfi að beita völdum sínum og áhrifum til þess að tryggja framgang ýmissa mála – og er skiptir þá litlu hvort mikil raunveruleg sannfæring fylgir máli. Afleiðing hatrammrar flokkapólitíkur er því oftast sú að flokksmenn þurfa að aðlaga sig að skoðunum flokksins í ýmsu til þess að þeim sé vært innan hópsins. Stundum verður þetta til þess að fólk þarf að gerast talsmenn fyrir sjónarmið í málum sem erfitt er að samræma. Raunveruleikinn er sá að allir stjórnmálamenn þurfa að treysta á aðra til að styðja sín mikilvægustu mál og því verða stundum til furðuleg bandalög hagsmuna og hugsjóna. Sá sem hefur gríðarlega mikinn áhuga á tilteknu máli, til dæmis málfrelsi, og trúir jafnframt á eignarréttinn, gæti þurft að tala gegn eignarréttinum til þess að fá harða andstæðinga eignarréttarins til þess að styðja málfrelsið. Þannig gerast kaupin á eyrinni og niðurstaða svona hrossakaupa er sú pólitík sem blasir við kjósendum. Það er því alvanalegt að sá sem trúir á eina tegund mannréttinda og láti sem þau séu mjög mikilvæg geti látið eins og náskyld réttindi skipti engu máli. Fyrir vikið getur oft verið erfitt fyrir mikið rökhyggjufólk að skilja stjórnmálamenn.

Íhaldsmenn í Bandaríkjunum eru til dæmis eru víðast hvar mjög trúaðir á rétt manna til þess að haga fjármálum sínum og fyrirtækjarekstri nánast eftir eigin höfði en hafa jafnframt mikla áhyggjur af ýmsu sem menn gera í eigin svefnherbergi. Vinstri menn þurfa víðast hvar að reyna að samræma þá skoðun að minnihlutahópar séu fullfærir um að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra en þurfi jafnframt sérstaka vernd frá vel meinandi og upplýstum einstaklingum úr hópi forréttindastéttanna. Þeir þurfa að trúa því að minnihlutahópar geti bæði notið virðingar og meðaumkunar á sama tíma.

En það eru ekki bara pólitískir flokkadrættir sem valda því að fólk gerist málsvarar fyrir ólík sjónarmið sem erfitt er að samræma. Stór álitamál eins og aðild að Evrópusambandinu virðast geta haft nákvæmlega sömu áhrif. Þar er trúarofsinn gjarnan svo mikill að talsmenn ESB þurfa máli sínu til stuðnings að grípa til röksemda sem í raun ganga þvert á tilverugrundvöll Evrópusambandsins sjálfs.

Hvernig gengur það til dæmis saman að vera annars vegar talsmaður þeirrar fríverslunar sem er hornsteinn Evrópusambandsins en halda því þó fram að íslenskur landbúnaður geti áfram „notið þess“ að vera einhver mest niðurgreiddi matvælaiðnaður í heimi?

Og hvernig getur það gengið upp í málflutningi að halda því annars vegar fram að Ísland muni njóta góðs af því ganga í ESB – en í hina röndina að skammast yfir því að Ísland sé að fleyta rjómann af Evrópusamstarfinu án þess að axla sína ábyrgð?

Og hvað skal þá segja um Icesave?

Það er undantekningarlítið í opinberri umræðu að saman fari þrá til þess að ganga inn í Evrópusambandið og vilji til þess að skrifa undir þá samninga sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi um Icesave. Einhvers konar alþjóðahyggja hlýtur að búa að baki þeirri trú að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Með þeirri skoðun hlýtur að fylgja einhver sannfæring um að meira réttlæti sé fólgið í því að ábyrgð á áföllum eins og bankahruni dreifist, sérstaklega þegar um er að ræða banka sem starfa innan alls Evrópska efnahagssvæðisins. Það er enda hugsunin á bak við sameiginlegt efnahagssvæði að með því að fella niður viðskiptamúra njóti allir ábata af frjálsri verslun – væri þá ekki eðlilegt að allir taki á sig áföllin?

Þeir sem trúa hvað heitast á Evrópusamvinnuna og Evrópusambandið ættu í raun að vera í sjokki yfir því hvernig hagsmunir Íslands hafa verið virtir að vettugi á þeim vettvangi og hnefaréttur verið látin ráða umfram réttlæti, rök – svo ekki sé talað um bræðralag Evrópuþjóða. Það að áhugamenn um aðild finni sig knúna til að gerast málsvarar þess ofbeldis sem Ísland hefur verið beitt er dæmi um það þegar rökrétt hugsun er látin víkja fyrir óskhyggju eða pólitískum trúarofsa. Í stað þess að tala fyrir því að Ísland njóti góðs af því að vera aðili að Evrópska efnahagssvæðinu þá er látið eins og ekkert sé sjálfsagðara en að okkur sé refsað fyrir að vera ekki fullgildur hluti af sambandinu.

Og hvernig getur það samrýmst hugsjóninni um sameinaða Evrópu að fámenn og herlaus þjóð sé barin til undirgefni við stjórþjóðir? Eða var ekki hugmyndin að menn leystu úr málum sínum eftir leikreglum alþjóðalaga og í friðsemd?

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu var samþykktum með litlum mun á Alþingi og ekki verður séð að mikil stemmning eða sátt sé um málið nema meðal Samfylkingarmanna á Alþingi. Málið mun hins vegar tröllríða allri umræðu á Íslandi á næstu misserum, embættismannakerfið verður undirlagt í umsóknina og fólk og fyrirtæki mun bíða í ofvæni eftir því að fá svar frá höfðingjunum í ESB um hvort Ísland sé „hæft“ til inngöngu. Þar að auki hafa stjórnvöld hingað til ekki staðið sig vel í að standast þrýsting stórþjóða um uppgjöf í Icesave málinu (og hugsanlega fylgja fleiri mál sem tengjast skuldum bankana) – og engar líkur eru til þess að núverandi stjórnvöld standi sig betur eftir að hafa sent inn þessar tvær aðildarumsóknir til Svíþjóðar.

En svörin koma ekki að utan. Icesave málið í núverandi mynd þarf að fella og helst þarf að tefja það mál þar til nýir stjórnarherrar taka við völdum í Bretlandi. Hraðmeðferð á þessari ESB umsókn er ekki forgangsatriði – enda eru litlar líkur á því að þjóðin samþykki umsókn á meðan samskipti okkar við valdaþjóðir Evrópu eru svona slæm. Það væri ömurlegt ef Ísland fer inn í Evrópusambandið sem sigruð þjóð á hnjánum eftir að hafa gefið eftir allan sinn rétt í von um að vera upp á náð og miskunn annarra komið. Þess vegna þurfum við að sýna sjálfstæði í Icesave málinu og láta ekki ESB umsóknina verða eins og snöru sem við bindum um okkar eigin háls.

* Höfundur starfaði í Landsbankanum, meðal annars við markaðsmál og markaðsrannsóknir vegna Icesave og hefur þá skoðun að það sé órökrétt, ósannagjarnt og óeðlilegt að íslenskir skattgreiðendur beri tjónið af því að erlend útibú Landsbankans, sem stunduð inn- og útlánastarfsemi í öðrum löndum, hafi farið á hausinn. En það er önnur saga.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.