Áfram Ísland

Nú er rétt rúmlega mánuður þar til að Evrópumót kvenna í fótbolta hefst í Finnlandi. Ljóst er að þetta verður ein stærsta stund íslenskrar íþróttasögu en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland keppir á stórmóti í fótbolta.

Nú er rétt rúmlega mánuður þar til að Evrópumót kvenna í fótbolta hefst í Finnlandi. Ljóst er að þetta verður ein stærsta stund íslenskrar íþróttasögu en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland keppir á stórmóti í fótbolta.

Árangur íslenska landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins var frábær. Liðið var í erfiðum riðli með Frakklandi, Slóveníu, Serbíu og Grikklandi. En með snilldar spilamennsku vann íslenska landsliði sex af átta leikjum og tryggði sér annað sæti í riðlinum. Sá árangur tryggði liðinu umspilssæti um að komast á Evrópumótið. Í umspilinu tryggði íslenska landsliðið sér sæti á lokamóti Evrópukeppnarinnar með því að vinna Írland samanlagt 4-1 í tveimur leikjum.

Ljóst er að Ísland á erfitt verkefni framundan á Evrópumótinu. Ísland er í firnasterkum riðli með Þýskalandi, Frakklandi og Noregi. Þýska landsliðið eru tvöfaldir heimsmeistarar, sexfaldir Evrópumeistarar og hafa einu sinni orðið ólympíumeistarar. Liðið er í þriðja sæti á styrkleikalista FIFA, hæst Evrópuliða. Franska landsliðið er líka gríðarlega sterkt en hefur samt aldrei unnið sigur á stórmóti. Liðið er í dag í áttunda sæti á styrkleikalistanum og fjórða hæsta Evrópuliðið. Norska landsliðið er einnig gríðarlega sterkt en það er í tíunda sæti á styrkleikalistanum. Liðið hefur unnið heimsmeistaramótið og Evrópumótið ásamt því að hafa orðið ólympíumeistarar.

Fyrirfram má búast við því að það verði íslenska landsliðinu nær ómögulegt að komast áfram upp úr þessum erfiða riðli. En ekkert má útiloka fyrirfram, stelpurnar eru gríðarlega öflugar og geta á góðum degi spilað góðan fótbolta. Þótt það sé hægt að nefna nokkra einstaka lykilleikmenn í liðinu eins og Margréti Láru Viðarsdóttur, Eddu Garðarsdóttur, Dóru Maríu Lárusdóttur og Katrínu Jónsdóttur, þá er það fyrst og fremst sterk liðsheild, leikgleði og mikill baráttuvilji sem hefur einkennt spil íslenska landsliðsins. Á þeim eiginleikum getur íslenska landsliðin unnið hvaða mótherja sem er.

Þátttaka íslenska landsliðsins á Evrópumótinu er rúsínan í pylsuendanum á þeim mikla uppgangi sem hefur orðið í kvennaknattspyrnunni á Íslandi á undanförnum árum. Íslenska deildin hefur verið að styrkjast ár frá ári og íslensk knattspyrnulið hafa aldrei komist jafn langt í Evrópukeppni félagsliða. Aldrei hafa jafn margar íslenskar konur verið í atvinnumennsku erlendis, en langstærsti hluti landsliðsins spilar nú með félagsliðum í Svíþjóð.

Undirbúningur stelpnanna er nú farinn á fullt, en hinn frábæri þjálfari íslenska landsliðsins, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, valdi á dögunum landsliðshóp sem mætir Englendingum og Dönum í vináttuleikjum sem eru fyrirhugaðir til þess að undirbúa liðið til að mæta bestu liðum Evrópu.

Svo er bara að vona að íslenskir fjölmiðlar skili vel af sér þeim merka íþróttaviðburði sem framundan er. Stelpurnar eiga það skilið og þurfa að finna fyrir stuðningi íslensku þjóðarinnar. Áfram Ísland.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)