Sjómannadagur í nagandi óvissu

Í dag fögnum við sjómannadegi. Þökkum þeim sem færa heim þau auðæfi sem í auðlindum sjávarins búa fyrir starf sitt og minnumst fórna þeirra og forvera þeirra í gegnum tíðina. Sjómannadagurinn í ár er hins vegar haldinn í skugga nagandi óvissu um framtíðarfyrirkomulag atvinnugreinarinnar. Óvissu sem er tilkomin vegna glannalegrar framkomu stjórnvalda og vanhugsaðrar þjóðnýtingarstefnu samfylkingar og vinstri grænna í sjávarútvegsmálum.

Í dag fögnum við sjómannadegi. Þökkum þeim sem færa heim þau auðæfi sem í auðlindum sjávarins búa fyrir starf sitt og minnumst fórna þeirra og forvera þeirra í gegnum tíðina. Dagurinn hefur undanfarin ár tekið á sig aðra og fjölskylduvænni mynd heldur en oft áður. Vissulega eru sjómannadagsböllin fjölmenn og vænleg til skemmtunar en sá hluti dagskrár hátíðarhaldanna um land allt sem helgaður er börnum og fjölskylduvænni hlutum hefur aukist jafnt og þétt. Er þetta vel.

Sjómannadagurinn í ár er hins vegar haldinn í skugga nagandi óvissu um framtíðarfyrirkomulag atvinnugreinarinnar. Óvissu sem er tilkomin vegna glannalegrar framkomu stjórnvalda og vanhugsaðrar þjóðnýtingarstefnu samfylkingar og vinstri grænna í sjávarútvegsmálum. Viðbrögðin hafa enda ekki látið á sér standa. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, frá útvegsmönnum til sveitarstjórna í sjávarbyggðum hringinn í kringum landið, hafa hafnað þessum hugmyndum og talið þær stefna framtíðarhorfum atvinnugreinarinnar í voða.

I gærkvöldi kynnti fréttastofa Stöðvar 2 síðan fyrir okkur drög að skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur unnið fyrir LÍÚ um fyrirhugaða fyrningarleið stjórnvalda. Skýrslan er afdráttarlaus og spáir því að nánast öll fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi fari í þrot á fimm árum. Í kjölfarið muni bankakerfið fara á hliðina öðru sinni enda fá 400 milljarða skuldir í fangið. Þetta geta tæplegast talið meðmæli með hugmyndum stjórnvalda.

Í bakgrunni þessa alls blaktir síðan grunnfáni vonarinnar í augum sumra, gulur stjörnukrans á bláum fleti. Sá fáni stendur fyrir stórfelld mistök í sjávarútvegsmálum líkt og kom glöggt fram í grænbók sem sambandið gaf út fyrir skömmu um sjávarútvegsstefnu sína. Sú stefna sætir endurskoðun um þessar mundir og er ógjörningur að segja hvar sú endurskoðun endar og hvað út úr henni kemur.

Óvissa ofan í óvissu eru því skilaboðin frá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar á sjómannadegi 2009. Hafa menn kveinkað sér af minna tilefni heldur en það.

Það felast talsverð tækifæri í íslenskum sjávarútvegi til framtíðar litið og vonarljós eru á lofti varðandi ýmis atriði. Til þess að tækifærin verði nýtt til framtíðar verður hins vegar að vera ákveðin festa í því kerfi sem atvinnugreininni er smíðað en umfram allt þarf það að byggja á skynsemi í hugsun og framkvæmd. Öll óvissa er til þess fallin að þvælast fyrir í þessu sambandi.

Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sjómannadags og vona að framtíð íslensks sjávarútvegs verði björt.