Stjórnmál á Íslandi skortir stefnu. Pólitísk umræða á Íslandi er viljandi eða óviljandi föst í smáatriðum og útúrsnúningum sem kemur þegar allt kemur til alls mest niður á öllum nema stjórnmálamönnum sem fitna eins og skrattinn á fjósbitanum. Aftur og aftur virðist fólk sætta sig við það að stjórnmálamenn maldi í móinn yfir smáatriðum, horfa um öxl og spá í fortíðina og hreinlega neiti að svara erfiðum spurningum.
Hér er ekki verið að beina gagnrýni sérstaklega á stjórnarflokkana, sök stjórnarandstöðuflokkana er ekki minni. Alþingi líkst helst stórum árabát þar sem alþingismenn velta því fyrir sér hvort þeir eigi að nota stórar eða litlar árar, hvort það eigi að róa stjór- og bakborðsmegin og hvort nóturnar séu tilbúnar fyrir trommuleikarann sem slær taktinn, enginn er að spyrja að því hvort við stefnum ekki örugglega í rétta átt.
Með stefnu er ekki átt við fallegar orðræður sem nýta möguleika og fjölbreytileika hins íslenska máls til hins ítrasta heldur er hér átt við skýra stefnu um hvar menn ætli sér að vera innan ákveðins tímabils og hvernig menn hyggjast ná því markmiði.
Dæmi um þetta er skýr stefna um fyrirtæki í ríkiseigu. Hvaða fyrirtæki eiga að vera um ókomna tíð í eigu hins opinbera? Hver eiga að vera seld aftur einkaaðilum? Hversu hratt ætti þetta að gerast og hver ætti að hafa umsjón með sölunni? Stjórnmálamenn forðast svona spurningar eins og heitann eldinn og neita að taka þátt í samræðu við þjóðina um það hver þessi skipting ætti að vera.
Önnur skýr stefna gæti falið í sér að svara hinni erfiðu spurningu hvar á að skera niður ríkisútgjöld?
Þegar menn setjast niður til þess að setja sér stefnu, þá jafnt einstaklingar sem þjóðir, þá er fyrsta skrefið yfirleitt að fá á hreint hver sé núverandi staða. Hér er ennþá mjög óskýrt hver staðan er varðandi atriði eins og skuldir ríkissjóðs, eignir og skuldir nýju og gömlu bankanna auk fjölda annarra atriða.
Þó óvissan sé mikil þá mega stjórnmálamenn þó ekki að fá að nota hana miklu lengur sem afsökun. Það verður að hafa það í huga að stjórnmálamenn auka einnig á óvissuna með því að leggja ekki spil sín á borðið og segja fólki hvar niðurskurðarhnífurinn muni bera niður næst og hvert sé stefnt.
Á meðan stjórnarflokkarnir halda áfram að sitja rólegir og ræða um að gera áætlanir og vinna málin, þá væri lag fyrir stjórnarandstöðuflokkana að koma með beinarharðar tillögur um hvar eigi að skera niður í útgjöldum hins opinbera og hvaða stefnu þeir telji vænlegasta varðandi sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins til þess að fólk fái skýrari sýn á það hver sé munurinn á stjórn og stjórnarandstöðu.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021