Sjávarútvegnum stefnt í óvissu

Í nýjum sáttmála vinstristjórnarinnar er talsvert fjallað um sjávarútvegsmál. Það er í sjálfu sér vel, enda málaflokkurinn mikilvægur. Innihaldið er hins vegar með þeim hætti að það fer um mann ónotatilfinning.

Í nýjum sáttmála vinstristjórnarinnar er talsvert fjallað um sjávarútvegsmál. Það er í sjálfu sér vel, enda málaflokkurinn mikilvægur. Innihaldið er hins vegar með þeim hætti að það fer um mann ónotatilfinning.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári nam 181 milljarði króna. Þetta eru talsverðir peningar, peningar sem þjóðfélagið þarf sárlega á að halda nú um stundir.
Sjávarútvegurinn hefur lengi verið einn af burðarásum verðmætasköpunar í landinu og hefur mikilvægi hans aðeins aukist ef eitthvað er nú þegar bankakerfið er skugginn af sjálfu sér og fjöldamörg önnur fyrirtæki standa illa eða hafa þegar lagst á hliðina.

Það er því einkennilegt að lesa sér til um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem virðist hafa þá framtíðarsýn eina til handa þessari atvinnugrein að beygja hana í duftið og þjóðnýta verðmætin sem í henni felast.

Innihald sáttmálans
Í texta stjórnarsáttmálans segir m.a.: “Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem framundan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.”

Þessi orð geta allir tekið undir. Hlutverk sjávarútvegsins við uppbyggingu samfélagsins verður stórt og ennfremur er nauðsynlegt að leita leiða til þess að skapa meiri sátt um atvinnugreinina enda er ekki hægt að líta fram hjá því að um hana standa talsverðar deilur. Hugmyndir um frekari takmarkanir á framsali eru í takt við þann sáttahug sem m.a. hefur verið að finna hjá LÍÚ hvað þetta atriði varðar, en þær eru teknar upp í sáttmálanum og eru allrar athygli verðar.

Þegar lengra er lesið verður hins vegar lítið úr þeim bjarta tóni sem sleginn er í upphafi. Þessi atriði eru þau helstu sem kveðið er á um:

1. Ákvæði um sameign þjóðarinnar verður bundið í stjórnarskrá
2. Handfæraveiðar verða gefnar frjálsar yfir sumarmánuðina
3. Knúið verður á um frekari fullvinnslu afla innanlands t.d. með útflutningsálagi á óunninn afla
4. Heildarendurskoðun á lögum um fiskveiðar mun fara fram
5. Þjóðnýting aflaheimilda mun hefjast 1. september 2010 eftir að hagsmunaaðilar hafa verið kallaðir til skrafs og ráðagerða.
6. Auðlindasjóður verður stofnaður til þess að fara með ráðstöfun fiskveiðiréttindanna. Verður arðurinn af slíkum sjóði nýttur til atvinnuuppbyggingar

Þjóðnýting aflaheimilda
Ég ætla í framhaldi af þessu að fjalla lítilega um sjötta atriðið í þessari upptalningu -þjóðnýtingu aflaheimildanna. Flokkarnir vinstra megin við miðju hafa lengi talað um þetta og telja nauðsynlegan undanfara sátta um fiskveiðistjórnunarkerfið, og jafnvel einhvers konar leiðréttingu á óréttlátu fyrirkomulagi. Fram til þessa hefur umræðan sprottið upp reglubundið í aðdraganda kosninga en jafnan sofnað að nýju strax í kjölfar þeirra og aðeins fengið útrás í málflutningi einstaka þingmanna flokkanna.

Núna er annað uppi á teningnum og hyggjast Vinstri Grænir og Samfylking knýja þessa aðgerð í gegnum þingið í krafti nýfengis meirihlutavalds þar inni. Þó er rétt að halda því til haga að umræðan hefur hægt og bítandi mildast eftir því sem liðið hefur á þann tíma sem aðferðirnar hafa verið í umræðunni og eru í stjórnarsáttmálanum slegnir nokkrir varnaglar og gálgafrestur veittur fram til fiskveiðiársins 2010-2011.

Það er í sjálfu sér ekki skrítið enda hafa viðbrögðin við hugmyndum ríkisstjórnarflokkanna verið nokkuð afgerandi svo vægt sé til orða tekið. Útvegsmenn og forstjórar sjávarútvegsfyrirtækja vara undantekningarlaust við þessari aðför ríkisstjórnarinnar og benda á að fyrirtæki þeirra verði á tiltölulega skömmum tíma knúin í þrot með þessum hætti. Þá hafa sveitarfélög allt í kringum landið sem treysta á sjávarútveg og afkomu hans fordæmt hugmyndirnar undanfarna daga og átalið þær vegna þess óstöðugleika sem þær hafa óhjákvæmilega í för með sér og þá óvissu sem atvinnugreininni yrði búin.

Þetta hafa samningamenn flokkanna tekið til sín og nú er að finna ákveðna varnagla varðandi samráð við hagsmunaaðila í textanum auk þess sem menn taka sér tíma til 1. september 2010 til þess að útfæra hugmyndir sínar um þjóðnýtingu enn frekar. Reyndar er talað um “innköllun” og “endurráðstöfun” en í nafni skírleika og gegnsæis er rétt að notast við orðið “þjóðnýting” þegar rætt er um þessar hugmyndir enda fela þær í sér nákvæmlega þá merkingu.

Hin almenna hugsun
Í texta stjórnarsáttmálans má einnig greina ákveðna tilhneigingu sem gengur líkt og rauður þráður í gegnum hann allann. Er það sú hugsun að fingur ríkisvaldsins læsist um sem flesta þræði íslensks sjávarútvegs. Þarna rís áðurnefnd þjóðnýting aflaheimilda vissulega hæst en fleiri atriði má týna til.

Þá hugsun sem þarna birtist má síðan setja í enn stærra samhengi nefninlega þá framtíðarsýn sem birtist svo glöggt í orðum fjármálaráðherra um fyrirhugað eignaumsýslufélag hins opinbera sem hann lét falla á framboðsfundi austur á Egilsstöðum fyrir nokkrum vikum síðan. Í gegnum ummæli hans á þeim fundi skein það viðhorf að ekkert væri athugavert við opinber afskipti af atvinnulífinu. Slíkur hugsanaháttur er í hæsta máta varasamur nú um stundir þegar ástand all flestra fyrirtækja er viðkvæmt.

Við höfum státað okkur af því og litið til þess með nokkru stolti að hér á landi hefur sjávarútvegur staðið einn og óstuddur og tekið á sig mikla hagræðingu án styrkja frá hinu opinbera, hagræðingu sem aftur hefur leitt til þess að fyrirtækin standa þó þetta keik eftir öll þau áföll sem dunið hafa á þeim undanfarin ár. Í stað þess að færa okkur í fjötra enn frekari hafta og ríkisafskipta ætti hið opinbera að nota tækifærið og auka enn frekar á frelsi útgerðanna þannig að þær fái aukið frjálsræði til þess að vinna sig út úr þeim vanda sem að þeim steðjar líkt og öðrum fyrirtækjum í landinu á sama tíma og unnið væri náið með hagsmunaaðilum að því markmiði að skapa víðtækari sátt um umgjörð atvinnuvegarins. Atvinnusköpun verður aðeins með þeim hætti að hugmyndaauðgi og útsjónarsemi einstaklingsins fái svigrúm til þess að njóta sín. Það á ekki síður við í sjávarútvegi en á öðrum sviðum atvinnulífsins.