17 blaðsíður af hverju?

Í gær tók við ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Starf ríkisstjórnarinnar á þessum erfiðu tímum er ekki öfundsvert. Eftir að hafa lesið yfir bæði 100 daga áætlunina og yfirlýsinguna þá er að finna marga góða hluti en ekki nógu mikið af skýrum lausnum.

Í gær tók við ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þessi nýja stjórn vill láta kalla sig norrænu velferðarstjórnina og hafa nú birt bæði 100 daga áætlun sem og samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Starf ríkisstjórnarinnar á þessum erfiðu tímum er ekki öfundsvert. Eftir að hafa lesið yfir bæði 100 daga áætlunina og yfirlýsinguna þá er að finna marga góða hluti en ekki nógu mikið af skýrum lausnum.

Stóra málið samkvæmt Jóhönnu er ESB umsókn. Þingið mun strax á næstu dögum fá á borð til sín þingsályktunartillögu vegna umsóknarinnar. Steingrími finnst þetta aftur á móti ekki jafn stórt og mikilvægt mál og áréttaði á blaðamannafundinum í gær að þegar inn á þingið væri komið kysu þingmenn hver með sinni sannfæringu. Í sáttmálanum er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum og einnig kemur fram orðrétt: „Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu út í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína“. Það er greinilegt að Steingrímur og þingflokkur VG hafa hér með algjörlega brugðist sínum kjósendum með því að gefa eftir ESB, það verður fróðlegt að sjá hvernig meðferð málið fær á þinginu og stórfurðulegt að stærsta kosningamál Samfylkingarinnar skuli sett á þennan hátt til þingsins eftir margítrekaðar yfirlýsingar frá formönnum stjórnarflokkanna að þeir finni lausn á málinu. Í staðinn er málinu hent í þingið og treyst á að stjórnarandstaðan leysi það. Einnig er kómískt að fyrsta setningin í kaflanum um utanríkis- og Evrópumál skuli vera „Ríkisstjórnin leggur áherslu á sjálfstæða íslenska utanríkisstefnu“ þegar Samfylkingin vill selja okkur til Evrópu.

Athygli vekur að í 17 blaðsíðna samstarfsyfirlýsingu sé aðeins rúm blaðsíða um ríkisfjármál. Einu sparnaðarleiðirnar sem eru kynntar snúa að niðurskurði í ferða-, risnu- og bifreiðakostnaði og að engin ríkislaun verði hærri en laun forsætisráðherra. Það er augljóst að þetta er ekki dropi í hafið enda er megináherslan lögð á aukna skattheimtu og hyggst ríkisstjórnin hin nýja síðan spara með því að færa fleiri verkefni í velferðarþjónustu yfir til sveitarfélagana. Því sveitarfélögin eru jú svo rík að þau geta auðveldlega tekið við fleiri verkefnum í einum dýrasta þætti ríkisrekstursins. Góð sparnaðarleið hjá ríkisstjórninni þar á ferð.

Ýmis góð mál er að finna í yfirlýsingunni, svo sem fækkun ráðuneyta, sem þó er ekki að finna í 100 daga áætluninni, og vekur furðu að ráðherrunum sé fjölgað aftur um tvo frá minnihlutastjórninni, þó ekki sé nema tímabundið. Á næstu 100 dögum á að klára framtíðareignarhald bankanna, draga úr gjaldeyrishöftum og efla Alþingi. Þó vantar sárlega ákvæði um að ráðherrar gegni ekki þingmennsku, því það er augljóslega einfaldasta aðferðin til að efla þingið. Ríkisstjórnin ætlar síðan skv. sáttmálanum að skapa skilyrði svo hraða megi lækkun vaxta, stuðla að erlendum fjárfestingum, kynna betur þau úrræði sem eru í boði fyrir fólkið í landinu, stuðla að breytingum á kosningalögum með það að markmiði að jafna vægi atkvæða og fá samþykkt ein hjúskaparlög á kjörtímabilinu.

Þessum málum er ríkisstjórninni vel hrósandi fyrir en einnig er að finna í sáttmálanum allt of mikið af óljósum markmiðum og lítið af raunhæfum lausnum til að koma fyrirtækjunum og heimilunum af stað aftur. Greinahöfundi þykir hættulegt hversu mikið ríkisstjórnin ætlar sjálf að skapa störfin og vera með puttana ofan í öllu, t.d. á að endurskoða fyrri ráðstafanir í átt til markaðs- og einkavæðingar opinberra verkefna og hyggst stjórnin íhlutast um kynjahlutfall á öllum sviðum samfélagsins með sértækum aðgerðum.

Vekur það athygli en þó ekki undrun, hversu mikill hluti yfirlýsingarinnar felur í sér aukin ríkisútgjöld en engar lausnir sem snúa að sparnaði í ríkisrekstrinum. Greinahöfundur gerir sér fulla grein fyrir að það þarf að eyða einhverjum fjármunum í að koma hjólunum af stað en því þarf einnig að koma með markverðar lausnir í hvernig spara skuli á móti, og vel það. Auknir skattar og álögur á almenning virðast eiga að borga brúsann að öllu leyti, það er ógnvekjandi tilhugsun.

100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)