Samstaða um Evrópumál

Hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki er mörgum Íslendingum mikið hjartansmál. Flestir eru á þeirri skoðun að sækja beri um aðild og taka svo afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort gengið verði í sambandið eða ekki.

Hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki er mörgum Íslendingum mikið hjartansmál. Flestir eru á þeirri skoðun að sækja beri um aðild og taka svo afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort gengið verði í sambandið eða ekki.

Þingmeirihluti er nú fyrir því að gengið verði til viðræðna um aðild miðað við yfirlýsingar flokkana. Samfylkingin, Framsókn, Borgarahreyfingin og einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru því fylgjandi. Ég leyfi mér hins vegar að efast um að nokkur þessara flokka kæri sig um að afhenda Samfylkingunni eða ríkisstjórninni umboð til þess að stýra aðildarviðræðum. Samfylkingin er of hlynnt Evrópusambandinu til að henni verið einni treyst fyrir aðildarviðræðum og Vinstri grænir eru eini flokkurinn sem er harður í andstöðu sinni við Evrópuaðild og því vandséð hvernig hann mundi ganga til slíkra viðræðna.

Þar sem verðandi ríkisstjórn virðist eiga í mesta basli með að ná samkomulagi um þetta mál væri hér kjörið tækifæri fyrir hana að höfða til annarra flokka um samstarf. Slíkt væri í anda þess sem allir flokkar hafa rætt, um að styrkja beri stöðu þingsins og vinna á grundvelli lýðræðis og upplýstrar umræðu.

Komi til þess að Íslendingar taki afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu í Evrópusambandið er ljóst að það verða ein mikilvægasta ákvörðun sem þjóðin hefur tekið. Ég teldi eðililegt að samningaviðræður um svo viðurhlutamikið mál færu fram á sem breiðustum grunni og þyldu jafnvel að til kosninga eða stjórnarslita kæmi á meðan á þeim stæði. Aðkoma allra flokka mundi tryggja að út kæmi samningur þar sem tekið hefði verið tillit til allra mögulegra sjónarmiða, samningur þar sem stjórnmálaflokkar gætu sagt „við höfum gert okkar besta í umboði þjóðarinnar, nú verður hún að velja“.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.