Föðurleg frjálshyggja

Á hverjum degi tekur fólk þúsundir ákvarðana sem hafa áhrif á líf þeirra. Oft eru þetta rangar ákvarðanir. Við höfum oft mjög brenglaðar upplýsingar í höndunum og förum oft eftir skyndiákvörðunum sem voru byggðar á röngum forsendum. Þarf hið opinbera að skipta sér af slæmum ákvörðunum sem menn taka sjálfir?

Á hverjum degi tekur fólk þúsundir ákvarðana sem hafa áhrif á líf þeirra. Oft eru þetta rangar ákvarðanir. Við höfum oft mjög brenglaðar upplýsingar í höndunum og förum oft eftir skyndiákvörðunum sem voru byggðar á röngum forsendum.

Dæmi um slíkar ákvarðanir er hvort maður eigi að fá sér bragðlítinn, hollan hádegismat (mjög gott fyrir þig í framtíðinni en ekkert sérstaklega gott í dag) eða að fá sér bragðmikinn, óhollan hádegismat (slæmt fyrir þig í framtíðinni, en ánægjan af neyslu matarins kemur strax). Annað svipað dæmi er hvort fólk eigi að leggja pening fyrir (fresta neyslu), eyða pening (stunda neyslu), eða jafnvel að taka lán til eyðslu (flýta neyslu), þá virkar skyndilausnin oft sem meira spennandi kostur.

Bókin Nudge eða Stjakað við, sem er skrifuð af hagfræðingnum Richard Thaler og lögfræðiprófessornum Cass R. Sunstein leitast við að rannsaka þessar röngu ákvarðanir og leita að leiðum sem leiða til þess að bæta þær.

Umræða um slæmar ákvarðanir hefur löngum skipts í tvo flokka á Íslandi. Annars vegar í samfélagsverkfræðinga sem leitast eftir því með boðum og bönnum að ná fram „betri“ ákvörðunum. Dæmi um þetta er hvernig reynt er að minnka vandamál tengd áfengi með því að loka áfengiskælum í vínbúðum. Hinn helmingurinn er stuðningsmenn frjálshyggju sem telja að fólk muni ávallt taka betri ákvörðun en ríkið og því eigi ríkið ekki að koma nálægt ákvörðunartökunni.

Cass og Sunstein leggja til málanna að þó að ákveðinn hópur fólks, homo economicus, taki mjög rökréttar og úthugsaðar ákvarðanir við frelsisskilyrði, þá sé til enn stærri hópur, homo sapiens, sem taki mjög margar stórar og mikilvægar ákvarðanir á grundvelli þumalfingursreglna sem eru stundum réttar en mun oftar rangar. Á þetta sérstaklega við varðandi flóknari ákvarðanir t.d. varðandi fjármál.

Aðgerðarleysi er eitt af einkennum mannsins og fólk situr oft uppi með þá aðgerð sem þeim stendur til boða ef ekkert er gert (e. Default). Gott dæmi um þetta er þegar fólki er boðið ókeypis áskrift að tímariti en þarf síðan sjálft að hafa samband að prufuáskriftinni lokinni til þess að slíta áskrift.

Tillaga þeirra félaga Thalers og Sunstein er sú að í þeim tilfellum þar sem ákveðnar ákvarðanir eru teknar varðandi hið opinbera, þá megi skoða hvort sjálfvirka aðgerðin verði sú sem komi viðkomandi aðila betur. Þetta er föðurlegi hluti ráða þeirra. Á hinn bóginn þá leggja þeir áherslu á að fólk hafi svo í kjölfarið fullt frelsi til þess að víkja frá sjálfvirka valinu ef það kjósi að gera svo.

Lykilhugmynd þeirra er með öðrum orðum sú að hægt sé að vísa fólki í rétta átt til leiðar sem bætir hag þeirra án þess að beita valdi. Eitt dæmi þeirra er að fólk vill almennt gefa til góðgerðarmála, en vill oft ekki gera það einmitt á þeirri stundu sem það er spurt. Þá getur það gert samning um að sjálfvirkt framlag þeirra (t.d. beingreiðsla úr banka) hækki sjálfkrafa að einhverjum tíma liðnum. Þá þarf meira átak til þess að hætta við heldur en að halda henni áfram.

Hlýtur þessi hugmynd að vera þess virði að henni sé gefinn gaumur á kostnað þeirrar hugmyndar að ríkið þurfi að beita boðum og bönnum til þess að velja rétta hegðun borgara fyrir þá.

Fyrirlestur Richard Thalers á Google Videos um bókina Nudge.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.