Tvær hliðar á ESB-andstöðu II

Andstaðan við aðild að Evrópusambandinu á sér tvær hliðar, eina ljósa en aðra dekkri. Sú fyrri einkennist af þeirri skoðun að hægt sé að feta í átt til frelsis hraðar og betur en „skriffiskubáknið í Brussel“, að í stað þess að læsa sig innan tollamúra ESB verði til dæmis hægt að gera fríverslunarsamninga við flest ríki heims, eða jafnvel hægt að afnema tolla einhliða. Hin hlið andstöðunnar gengur út á úrelda og gamaldags þjóðernishyggju, byggðri á þeirri óþroskuðu lífsskoðun að útlönd og útlendingar vilji okkur illt.

Andstaðan við aðild að Evrópusambandinu á sér tvær hliðar, eina ljósa en aðra dekkri. Sú fyrri einkennist af þeirri skoðun að hægt sé að feta í átt til frelsis hraðar og betur en „skriffiskubáknið í Brussel“, að í stað þess að læsa sig innan tollamúra ESB verði til dæmis hægt að gera fríverslunarsamninga við flest ríki heims, eða jafnvel hægt að afnema tolla einhliða. Hin hlið andstöðunnar gengur út á úrelda og gamaldags þjóðernishyggju, byggðri á þeirri óþroskuðu lífsskoðun að útlönd og útlendingar vilji okkur illt.

Niðurstöður landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem lauk nú um helgina, eru ósigur fyrir þá Sjálstæðismenn sem vildu að Ísland tæki skref í átt að Evrópusambandinu og sigur fyrir þá Sjálfstæðismenn sem vildu það ekki. En nei-fylkingin er auðvitað ekki einsleit. Innan hennar er þannig stór hópur fólks sem deilir með Evrópusinnum öllum grundvallarhugsjónum um frjálsa för á vörum og fólki milli landa, takmörkun ríkisafskipta í atvinnurekstri, upptöku nýs gjaldmiðils og fl. Það fólk deilir hins vegar ekki endilega þeirri skoðun evrópusinnaðra hægrimanna að ESB sé besta verkfærið ná þessum hugsjónum fram. Og nefnir gjarnan sjávarútveginn, sjálfstæðið og skrifræðið í Brussel sem ástæður.

En þessi frjálslyndi vinkill ESB-andstöðunnar vegur síst þungt í heildarorðræðu fullveldissinna. Því yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem taka þátt í umræðunni ber á borð fullyrðingar á borð við „Evrópusambandið mun koma og taka fiskinn okkar“, „Evrópusambandsaðild mun stefna fæðuöryggi þjóðarinnar í hættu“, „Evrópusambandið ásælist orkuauðlindir Íslendinga“ eða bara hið gamla góða: „Við getum gert þetta sjálf!“.

Þeim sem fylgdust með umræðum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins dylst seint hvor af þessum tveimur hliðum ESB-andstöðu hafi verið ráðandi. Þannig sagði Pétur Blöndal:

„Evrópusambandið breytist mjög hratt, og eftir 20 ár þá mun þá vanta fisk og þá munu þeir taka af okkur fiskinn. Og eftir 30 ár þá mun þá vanta orku og þá munu þeir taka af okkur orkuna. Ekki spurning!“

Björn Bjarnason tók í svipaðan streng:

„[…] og ég tel að ef við ætlum að fella okkur undir þau skilyrði sem Evrópusambandið setur í þeim efnum þá séum við að afsala okkur yfirráðum yfir okkar fiskveiðiauðlindum og kippa stoðum undan íslenskum landbúnaði.“

Af þeim sem til máls tóku beittu raunar nánast allir rökum þjóðernishyggju og hafta. Vissulega var líka klappað fyrir þeim sem vildu ekki „loka sig innan tollamúra ESB og hafa allan heiminn sem markað“ en að þeim var hlegið tveimur dögum síðar í umræðum um landbúnaðarmál. Einn stærsti hugmyndafræðilegi áfangi landsfundar var nefnilega að tekist hafi að gefa gamaldags sjálfsþurftarbúskap nýtt heiti: matvælaöryggi.

„Við getum gert þetta sjálf,“ segja menn. Það má vel vera. En samt gengum við í NATO, Schengen og EES, í stað þess að þjálfa eiginn her, annast eigin landamæragæslu og semja eigin reglugerðir um hvar og hvenær trukkabílstjórar skulu sofa. Hvers vegna? Jú, að „geta gert“ og „eiga að gera“ er ekki það sama. Reynslan af íslensku krónunni sýnir til dæmis að „við getum gert þetta sjálf“ hugmyndafræðin er oft hvorki raunhæf en sérstaklega árangursrík. Og raunar deili ég á að hún sem almenn hugmyndafræði sé sérlega falleg heldur.

Hin kreddufulla Evrópufælni Sjálfstæðisflokksins hefur vafalaust fælt frá heilmarga frjálslynda hægrimenn. Þessu fólki má Sjálfstæðisflokkurinn ekki við að missa. Annars er hætta á að eini hægriflokkur landsins verði ekki að tunnu utan um sérhagsmunagæslu, verslunarhöft og útlendingahatur. Margir þeirra sem vilja standa utan við Evrópusambandið hafa sem betur fer ekkert með slíkt að gera. En því miður þá sýndi liðin helgi að hugmyndin um Ísland sem land frelsis en ekki land hafta á sér stuðningsmenn í liði fullveldissinna.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.