Samfylkingin lamar Fjármálaeftirlitið

Þann 25.1 s.l. sagði Björgvin G. Sigurðsson af sér sem viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Björgvin kynnti formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins þessa ákvörðun sína sem ákvað þá að segja af sér. Björgvin beindi þeim tilmælum til stjórnar Fjármálaeftirlitsins að hún gengi frá starfslokum við Jónas Fr. Jónsson og segði síðan af sér, sem hún og gerði í heild sinni. Þótt enginn efist um að þetta útspil Björgvins hafi verið ætlað til að setja pressu á Sjálfstæðisflokkinn svo að upp úr stjórnarsamstarfi gæti slitnað, verður að virða það við hann að með þessu axlaði hann ábyrgð, þótt að það væri um 100 dögum of seint. Það er þó ekki allt sem sýnist.

Þann 25.1 s.l. sagði Björgvin G. Sigurðsson af sér sem viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Björgvin kynnti formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins þessa ákvörðun sína sem ákvað þá að segja af sér. Björgvin beindi þeim tilmælum til stjórnar Fjármálaeftirlitsins að hún gengi frá starfslokum við Jónas Fr. Jónsson og segði síðan af sér, sem hún og gerði í heild sinni. Þótt enginn efist um að þetta útspil Björgvins hafi verið ætlað til að setja pressu á Sjálfstæðisflokkinn svo að upp úr stjórnarsamstarfi gæti slitnað, verður að virða það við hann að með þessu axlaði hann ábyrgð, þótt að það væri um 100 dögum of seint. Það er þó ekki allt sem sýnist.

Fjármálaeftirlitið er stofnun sem sinnir eftirliti á fjármálamarkaði og lýtur sérstakri stjórn. Sú stjórn er skipuð af viðskiptaráðherra auk fulltrúa sem skipaður er af Seðlabanka Íslands. Fjármálaeftirlitið nýtur töluvert meiri sjálfstæðis en hefðbundnar stofnanir ríkisins og starfar samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ákveðnar ákvarðanir eru bundnar við stjórn Fjármálaeftirlitsins og verða ekki teknar af öðrum aðilum þótt stjórnin hverfi frá. Nú hefur forstjóra stofnunarinnar jafnframt verið sagt upp störfum og vakna þá spurningar um hver raunveruleg staða eftirlits með fjármálastarfsemi er hér á landi. Til að mynda fæst ekki séð að mögulegt sé að afturkalla starfsleyfi fjármálafyrirtækis á meðan þetta ástand varir eða samþykkja viðbætur við slíkt leyfi. Það má vel hugsa sér að í dag séu starfandi fjármálafyrirtæki sem standa mjög tæpt og gæti eftirlitið þurft að svipta þau starfsleyfi.

Aðeins stjórn Fjármálaeftirlitsins er heimilt að leggja á aðila dagsektir og févíti. Það þýðir að á meðan núverandi ástand varir geta starfsmenn eftirlitsins ekki krafist gagna úr hendi aðila með hótunum um dagsektir eða févíti. Eflaust eru til aðilar sem vilja halda gögnum frá Fjármálaeftirlitinu og munu þeir væntanlega nýta sér þetta ástand.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur heimild til að bjóða fram sátt í minniháttar málum er snerta brot á lögum. Þegar um er að ræða lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 verða mál aðeins rannsökuð af lögreglu að undangenginni kæru frá Fjármálaeftirlitinu. Þetta þýðir að varði brot á lögum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Hér verður að athuga að það er stjórn Fjármálaeftirlitsins sem þarf að meta sjálfstætt hvort meint brot falli undir valdheimildir þess til að leggja á stjórnvaldssektir eða ekki. Að því gefnu verður málum ekki með vísað til lögreglu fyrr en sett hefur verið á fót ný stjórn Fjármálaeftirlitsins sem getur tekið þessa ákvörðun. Af umræðu og fréttum undanfarna daga má ráða að sjaldan hafi verið jafn mikil þörf á því að teknar séu ákvarðanir af Fjármálaeftirlitinu um hvort leggja eigi á aðila stjórnvaldssekt eða kæra umrædda háttsemi til lögreglu.

Þótt starfandi sé einstaklingur sem taki ákvarðanir forstjóra er það staðreynd að samkvæmt lögum er að stjórn Fjármálaeftirlitsins sem verður að samþykkja eða synja meiriháttar ákvörðunum eftirlitsins. Þetta þýðir í raun að fráfarandi viðskiptaráðherra hefur lamað þá eftirlitsstofnun sem mest mæðir á hér á landi í dag. Það út af fyrir sig hlýtur að teljast hans stærsta axarskaft til þessa.

Nú virðist ætlunin vera að taka til hendinni, gott og vel, en væri ekki nær að halda þó þeirri einingu sem er að rannsaka möguleg brot á fjármálamarkaði að minnsta kosti starfhæfri áður en lengra er haldið?

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)