Rís gæfusól Íslands í austri?

Nú þegar sverfir að hjá okkur Íslendingum eru væntingar til olíufundar austur af Íslandi vel þegið ljós í myrkrinu.

Það er ávallt dimmast undir dögunina segir málshátturinn og nú er vissulega dimmt yfir. Næsta ár verður eitt hið erfiðasta fyrir Ísland í langan tíma en jafnframt er það árið sem Íslandi býður út fyrstu leyfin til olíuleitar í íslenskri efnahagslögsögu. Svæðið sem mestar væntingar eru gerðar til, svokallað Drekasvæði, er í norðaustur-horni íslensku efnahagslögsögunnar og nefnt eftir einni af landvættunum okkar fjórum. Gríðarmikil verðmæti geta verið í húfi fyrir Ísland ef rétt er staðið að málum.

Lykilatriði er að fá öflug erlend fyrirtæki með þekkingu og fjármagn til að leggja í kostnaðarsamar rannsóknirnar. Þetta verður vonandi gert með mjög opnu og gegnsæju útboði. Helstu tekjur Íslands af olíuvinnslu ættu að vera skattlagning á hagnað þegar olían fer að skila sér upp úr sjónum. Þennan háttinn hafa Norðmenn á með sínar olíulindir. Alls borga olíufyrirtæki 78% af hagnaði sínum í skatt til norska ríkisins. Einnig munu áhugasöm olíuleitarfyrirtæki keppa um að bjóða sem hæst fyrir að fá að rannsaka svæðið og vinna olíu síðar ef hún finnst. Þá er mikilvægt að íslenska ríkið leggi ákveðnar rannsóknarskyldur á þau fyrirtæki sem fá rannsóknaleyfi þar sem það er Íslands hagur að sem mest svæði verði kannað sem best.

Ef olía finnst munu miklar tekjur vera til skiptanna fyrir Íslendinga. Þá verður mjög mikilvægt að við völd verði stjórn sem er treystandi fyrir því að fara með þá miklu fjármuni á skynsaman hátt og er hafin yfir allan vafa varðandi spillingu og óeðlilega starfshætti. Það er skylda allra stjórnmálaflokka og þjóðarinnar að stefna hratt og örugglega að því að hefja íslensk stjórnmál upp á slíkan stall. Þá ættu stjórnmálaflokkar líka að huga að því að móta sér stefnu um hvernig fara skuli með þessa fjármuni löngu áður en þeir fara að flæða inn. Eðlilegt væri að setja upp sérstakan sjóð fyrir olíutekjurnar með mjög dreifðum fjárfestingum og smám saman nýta arðinn af þeim sjóði til að styðja við efnahag landsins með almennum skattalækkunum og styrkingu velferðarkerfisins.

Erfitt er að átta sig á því, á þessu stigi málsins, hverjar mögulegar tekjur Íslendinga gætu orðið. Í skýrslu, sem olíuleitarfyrirtækið Sagex Petrolium gerði fyrir íslenska ríkið fyrir skömmu, er velt upp einni sviðsmynd sem gerir ráð fyrir að hagnaður af olíuvinnslunni verði um 25 milljarðar USD yfir 10-15 ára tímabil. Ef gert er ráð fyrir svipaðri skattlagningu og í Noregi mætti því gera ráð fyrir að í Íslands hlut féllu um 20 milljarðar USD. Þar er miðað við olíuverð upp á $35 á fatið og ef miðað er við núverandi verð væri upphæðin líklega nær 30 milljörðum USD sem er meira en þreföld landsframleiðsla Íslands.

Þessir milljarðar eru, enn sem komið er, ekki í hendi en full ástæða er til að halda í bjartsýnina á meðan við berjumst í gegnum þrengingar næstu missera. Skynsöm og dugleg íslensk þjóð gæti uppskorið ríkulega eftir komandi erfiði.

Gleðilegan fullveldisdag!

*Skýrsla Sagex Petroleum