Aðgerðir til aðstoðar við heimilin í landinu

Ríkisstjórn Íslands hefur birt aðgerðaáætlun til að létta undir með fjölskyldum næstu misseri. Þó nokkur þrýstingur er fyrir því að ganga lengra. Lykilatriði er þó að allir geri sér grein fyrir hvaða afleiðingar yfirgripsmiklar aðgerðir hafa og hvernig sé best að þeim staðið til þess að hinn hái kostnaður sem þeim óhjákvæmilega fylgir nái markmiðum aðgerðanna. Hér eru mismunandi leiðir skoðaðar og greindar.

Ríkisstjórn Íslands hefur lagt fram aðgerðaáætlun til aðstoðar heimilunum í landinu, og þá helst að koma í veg fyrir að fólk missi heimili sín. Helstu atriði áætlunarinnar eru að greiðslubyrði skuldara verður takmörkuð næstu misserin og þá verður aðgangshörku kröfuhafa settar meiri skorður. Bæði þessi atriði hljóta að teljast jákvæð. Margir munu lenda í greiðsluerfiðleikum næstu mánuðina og eðlilegt að draga tímabundið úr óþarflega skaðlegum afleiðingum þess með hörðum innheimtuaðgerðum. Þá er frestun lánaafborgana með tímabundinni lækkun greiðslubyrði fyllilega réttlætanleg þar sem helsta markmið allra aðgerða hlýtur að vera að koma fjölskyldum í gegnum tímabundinn ólgusjó. Þessi aðferð er mjög svipuð því að lengja í lánum og tímabundin lækkun greiðslna þýðir því að eftirstöðvar lána hækka og þær koma til greiðslu síðar. Fram hafa komið ýmsar hugmyndir sem ganga lengra til að hjálpa heimilum enn frekar, misgóðar og misábyrgar þó. Áður hefur verið fjallað hér um þessi mál en í þessum pistli er leitast við að skýra betur á tölur og kostnað vegna aðgerða.

Hvað kosta aðgerðir sem lagðar hafa verið til?

Það að gefa eftir lán til heimila er eignatilfærsla og þess vegna lendir kostnaðurinn alltaf einhvers staðar. Spurningin er hverjum okkur finnst réttlætanlegt að gefa verðmæti og hvernig við ætlum að borga fyrir þau. Í flestum tilfellum mun kostnaðurinn lenda á framtíðarskattgreiðendum.

Til þess að átta sig á hvað þessar aðgerðir þýða þarf að huga að því hvað þær kosta. Heildaríbúðalán íslenskra heimila eru um 1200 milljarðar, langstærstur hluti þeirra í verðtryggðum krónum. Stærstur hluti þessara lána liggur hjá bönkunum stóru og íbúðalánasjóði, það er að segja ríkinu, og svo er líka nokkuð sem liggur hjá lífeyrissjóðum. Hver einasta króna sem gefin er eftir af íbúðalánum mun því fara úr vasa ríkissjóðs eða lífeyrissjóða.

Frysting verðtryggingar hefur oft verið nefnd upp á síðkastið. Þar sem heildarupphæðin er um 1200 milljarðar kostar hvert prósent hækkunar neysluverðsvísitölu sem er fryst á öllum íbúðalánum ríkið um 12 milljarða. Gefum okkur að frystingin verði næstu 6 mánuði og að á þeim tíma hækki verðlag um 5-10% (sem er líklega nokkuð varlega áætlað), þá kostar þessi aðgerð ríkið 60-120 milljarða. Þetta þýðir þá um 200-400 þúsund krónur í auknar byrðar á hvert mannsbarn á Íslandi.

Önnur mun umfangsmeiri og vægast sagt óábyrg tillaga felst í því að afskrifa heilt yfir 40% af öllum íbúðalánum (þó ekki meira en 20 milljónir af hverri íbúð). Upphæði niðurfelldra lán myndi líklega vera yfir 400 milljarðar króna. Þar af myndi reyndar eitthvert útlánatap sparast. Þessi fráleita aðgerð myndi því líklega kosta ríkið yfir 300 milljarða króna sem er meiri skuldabyrði en líklegt er að hljótist af IceSave-málinu. Þessi kostnaður þýðir um eina milljón króna á Íslending. Hver fjögurra manna fjölskylda borgar fjórar milljónir!

Einnig hafa verið nefndar hugmyndir um að íbúðalánasjóður eða ríkið kaupi hluta í íbúðum einstaklinga, og leyfi þeim að búa áfram í þeim en njóti síðar ágóða af sölu síðar. Pistlahöfundur er ekki mjög hrifinn af slíkum hugmyndum þar sem erfitt er að sjá annað en að ríkið muni ofgreiða íbúðaeigendum og fjárfesta á mjög óarðbæran hátt. Þetta yrði væntanlega talsvert kostnaðarsamt þótt erfitt sé að áætla kostnaðinn, enda líklegt að allt í svona ferli yrði mjög ógagnsætt. Þá myndi þessi aðgerð væntanlega einnig nýtast þeim best sem skulda mest og búa í stærstu og dýrustu íbúðunum.

Skárri aðgerðir

Þessar aðgerðir miðast allar að því að aðstoða þá sem skulda mest en ekki þá sem hafa minnst. Þær munu gagnast best þeim sem keyptu sér stór einbýlishús, ekki þeim tekjulægstu sem höfðu ekki efni á útborgun í íbúð og urðu að leigja, þeir munu borga einbýlishúsin. Þá væri mun sanngjarnara að ríkið tæki sig bara til, sendi öllum Íslendingum jafnháa ávísun, annaðhvort einu sinni eða mánaðarlega næstu 12 mánuði. Það mætti jafnvel gefa þeim meira sem hafa verið með lægri tekjur síðasta árið. En að gefa fólki pening í hlutfalli við lífsgæðin sem það leyfði sér að fjármagna með lánsfé er bara út í hött.

Hugmyndir um að gefa fólki möguleika á að taka út séreignarsparnað til þess að greiða inn á lán eru ágætar. Það ætti reyndar að hvetja sem flesta til að gera það ekki ef mögulegt er en fyrir þá, sem aukalífeyrissparnaðurinn getur hjálpað til að komast í gegnum erfiðleikana sem framundan eru, er það alveg sjálfsagt.

Til að benda frekar á það hversu ósanngjörn hlutfallsleg niðurfelling lána (sem verðbólgufrystingin og 40% leiðin eru bæði) fylgja hér að lokum nokkur dæmi um hvernig niðurfellingin nýtast mismunandi fjölskyldum.

Dæmi um hlutfallslega niðurfellingu lána

Tökum dæmi um fjórar kjarnafjölskyldur, par með tvö börn. Sjáum hvernig 100 milljarðar úr sameiginlegum sjóðum nýtast, þ.e. hvernig 1,3 milljónir frá hverri kjarnafjölskyldu dreifast til styrkþega.

1) Fyrsta fjölskyldan hefur verið með hóflegar tekjur, 500 þúsund á mánuði (400 þúsund eftir skatt) og á 90 fermetra íbúð sem hún skuldar 18 milljónir í, greiðslubyrði 86.400 kr.

Með hlutfallslegri niðurfærslu skulda fengi þessi fjölskylda felldar niður 1,5 milljónir af láni sínu og greiðslubyrðin myndi lækka varanlega um 7 þúsund krónur á mánuði.

2) Næsta fjölskylda hafði ekki efni á útborgun og varð að leigja. Hún er með sömu tekjur og sú fyrsta, 500 þúsund á mánuði og leigir jafnstóra íbúð sem kostar 120 þúsund krónur á mánuði.

Með hlutfallslegri niðurfærslu skulda fær þessi fjölskylda enga sérstaka aðstoð og verður því bara að taka á sig auknar skattbyrðar vegna útgjaldanna til hinna skuldsettu.

3) Þriðja fjölskyldan er með aðeins hærri tekjur, 600 þúsund á mánuði (460 þús eftir skatt) en splæsti í 160 fm íbúð sem hún skuldar 32 milljónir í, greiðslubyrði 153.600 kr.

Með hlutfallslegri niðurfærslu skulda fengi þessi fjölskylda felldar niður 2,7 milljónir af láni sínu og greiðslubyrðin myndi lækka varanlega um 13 þúsund krónur á mánuði.

4) Fjórða fjölskyldan samanstóð af meira efnafólki, annar aðilinn var með hóflegar tekjur 300 þúsund en hinn var með 1500 þúsund krónur á mánuði (1.240 þúsund eftir skatt) . Þau gátu leyft sér ýmislegt og keyptu 250 fermetra hús sem þau skulda 50 milljónir í, greiðslubyrði 240 þúsund krónur á mánuði.

Með hlutfallslegri niðurfærslu skulda fengi þessi fjölskylda felldar niður 4,2 milljónir af láni sínu og greiðslubyrðin myndi lækka varanlega um 20 þúsund krónur á mánuði.