Það besta er ókeypis

Atburðarás síðustu daga þekkjum við flest. Glamúrlífi okkar Íslendinga er lokið. Það eru vissulega erfiðir tímar framundan en þeir eru alls ekki óyfirstíganlegir.

Það eru líklega ófáir einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki sem líta svo á að veröld þeirra sé hrunin. Það þarf ekkert að fara fleiri orðum um það sem var og það sem gerðist. Atburðarás síðustu daga þekkjum við flest. Hún er ekki fögur. Margir landsmenn reyna að halda í geðheilsuna og eru hættir að fylgjast með fréttum því daglega rekur hvert áfallið annað. Glamúrlífi okkar Íslendinga er lokið.

Með nægu lausafé og auðveldri lántöku tókst okkur að koma upp fallegu heimili, skreytt með öllu því sem okkur þótti nauðsynlegt. Nútímastíllinn tröllreið öllu og gamlar innréttingar áttu ekki upp á pallborðið lengur. Hinn nýi lífstíll gaf lífi sumra okkar gildi þó sjálfsagt hafi hann verið einhverjum til trafala. Flottu jepparnir voru stöðutákn, annað hvort þeirra útrásarmanna sem sigruðu heiminn eða þeirra sem endurfjármögnuði í skjóli hækkandi fasteignaverðs.

Allir reyndu að hagnast og græða og útrásarvíkingunum var hampað og hrósað. Þeir voru klárir. Á meðan þeir gátu séð okkur fyrir lánum sem gerðu lífsgæðakapphlaupið enn harðara voru þeir flottir. Allir vildu vera eins og þeir. Allir vildu vinna hjá þeim enda var launaseðill starfsmanna orðinn feitur.

Það eru vissulega erfiðir tímar framundan. En þeir eru alls ekki óyfirstíganlegir. Hér skiptir hugur og andleg heilsa öllu máli. Hún er góð auglýsingaherferðin þar sem bent er á að það besta í lífinu er ókeypis. Það eru orð að sönnu.

Íslendingar eru fámenn þjóð sem hefur gengið í gegnum marga erfiðleika frá því fólk fór að setjast hér að. Þótt þeir tímar sem nú ganga í garð krefjist þess að fólk haldi að sér höndum er vissulega hægt að finna gleði og ánægju í lífinu. Við sem fullorðin erum þurfum að passa upp á ungu kynslóðina, þá kynslóð sem erfa mun landið. Í raun þurfum við öll að huga hvert að öðru. Líklega eru fáar þjóðir í heiminum sem geta þjappað sér saman og stutt hvert við annað með sama hætti og við.

Veröld okkar er langt frá því að vera hrunin. Við lifum í vestrænu samfélagi og hér mun engan skorta mat né húsaskjól. Ráðamenn þjóðarinnar vinna nú í nánu samstarfi við erlenda sérfræðinga að lausn vandans. Unnið er að úrræðum fyrir þá sem fara í þrot, leiksskólar og grunnskólar vinna að viðbragðsáætlunum, frændþjóðir okkar eru reiðubúnar til aðstoðar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun að öllum líkindum veita okkur lán til að komast yfir erfiðasta hjallann.

Það besta sem getum gert á þessu augnabliki er að þakka fyrir það sem við höfum, þakka fyrir að þurfa ekki að ganga 30 kílómetra á dag til að sækja vatn, þakka fyrir heilsuna og fólkið í kringum okkur. Bæði andleg og líkamleg heilsa okkar er ekki metin til fjár. Það væri synd að láta fjármálakreppu svipta okkur þeim verðmætum.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.