Allt gott að frétta úr Eyjum

Nýverið kom út könnun frá Capacent þar sem kom fram að íbúar í Vestmannaeyjum eru í 4. sæti yfir ánægðustu íbúa landsins og þeir ánægðustu á Suðurlandi.

Nýverið kom út könnun frá Capacent þar sem kom fram að íbúar í Vestmannaeyjum eru í 4. sæti yfir ánægðustu íbúa landsins og þeir ánægðustu á Suðurlandi. Þetta er sérlega athyglisvert þar sem mikil fólksfækkun hefur verið frá Vestmannaeyjum frá árinu 1990, eða um það bil 1000 manns. Það er kannski orðið komið gott núna og þeir ánægðustu eftir en það gæti líka verið að frábær tíð hefur fylgt bæjarstjórn Vestmannaeyja á þessu kjörtímabili. Bjartsýni virðist vera ráðandi þessa daganna – uppgangur og uppbygging.

Á meðan bankamenn gráta í koddann sinn á hverju kvöldi fagna skipstjórar, enda frábær tíð fyrir sjómenn þessa dagana með margfalt hærra aflaverðmæti í bátunum. Iðnaðarmenn í Vestmannaeyjum hafa nóg að gera, mikil uppbyggining fer nú fram í Eyjum. Nýverið opnaði stórglæsilegur leikskóli, sameining grunnskólanna hefur gengið í gegn með tilheyrandi verkefnum, miklar framkvæmdir eru á bryggjunni, frystigeymsla hefur risið við Eiðið ásamt vatnsverksmiðju. Þá er nýtt íbúðar- og verslunarhúsnæði að rísa í miðbænum ásamt spánýju íbúðarhúsnæði við Stakkagerðistún. Síðan má ekki gleyma fyrirhugaðri knattspyrnuhöll sem senn verður komin í gagnið. Þessi upptalning er bara rjóminn af helstu framkvæmdum sem hafa verið í gangi eða eru að fara í gang í Vestmannaeyjum.

Þeir sem sóttu Vestmannaeyjar heim á síðustu þjóðhátíð komust eflaust að því að ef það er eitthvað sem Eyjamenn kunna, að þá er það að skemmta sér. Þjóðhátíðin í ár tókst gríðarlega vel og var sú fjölmennasta sem haldin hefur verið. En það er margt fleira í boði í Vestmannaeyjum en bara Þjóðhátíð. Goslokahátíðin var með stærra sniði í ár en oft áður, enda var fagnað 35 ára goslokaafmæli, Sumarstúlkukeppnin er árlegur viðburður og haldin í júní sem og íþróttakeppnir eins og peyja- og pæjumótin sem setja sterkan svip á mannlífið í Eyjum enda flykkjast fleiri hundruð krakkar og auðvitað foreldrarnir með.

Núna nýlega var svo haldið rúmlega 100 manna milliþing SUS í Vestmannaeyjum sem að allra mati lukkaðist prýðisvel. Þá er vonandi að allir hafi skemmt sér frábærlega um síðustu helgi þegar hið árlega Lundaball var haldið með pomp og pragt þar sem úteyjarmenn slútta sumrinu með veglegu balli. Í ár voru það Helliseyingar sem stóðu fyrir herlegheitunum og ef þú misstir af ballinu núna er bara um að gera að panta fyrir næsta ár.

Framundan er nóg um að vera í Eyjum. Ef þú hafðir hugsað þér að leggja land undir fót og skoða menninguna úti á landi er um að gera að skella sér út í Eyjar. Í kvöld er hið árlega Hippaball og mun hljómsveitin Paparnir leika fyrir dansi ásamt nokkrum af hetjum hippatímabilsins eins og Shady Owens og Rúnari Júlíussyni. Fimmtudaginn 9. október mun stórhljómsveitin Mezzoforte halda tónleika í Vestmannaeyjum, en þeir eru þessa dagana staddir í Eyjum að taka upp efni í nýju og stórglæsilegu upptekuveri – Island studios.

Aðra helgina í október er lokahóf ÍBV ásamt skemmtun með hljómsveitinni Sóldögg. Er nokkuð ljóst að mikið fjör verður það kvöld, þar sem ÍBV sigraði fyrstu deildina með glans í sumar og mun því á ný leika á meðal þeirra bestu í úrvalsdeildinni. 1. nóvember n.k. segir sagan að Sálin muni sækja Eyjamenn heim og ætli að slá upp dagnsleik. 29. nóvember n.k. fer síðan konukvöld fram þar sem þeir Beggi, Pacas og Páll Óskar munu halda uppi stuðinu.

Það er nú ekki hægt að koma öllu því fyrir sem framundan er í Vestmannaeyjum í svo stuttan pistil, svo ég læt hér staðar numið í bili. Þar sem undirritaður er nú eyjamaður í húð og hár er aldrei að vita nema maður láti umheiminn vita aðeins um Vestmannaeyjar. Svona af og til allavega.