Pólitísk diskókeila

Í dag er Alþingi sett í 128. sinn. Þinghaldið mun einkennast nokkuð af því að kosið verður í vor. Gamlir þingmenn poppa sig upp og reyna að ganga í augun á nýjum kjósendum og þeir yngri kanna sóknarfæri til að auka málefnalega vigt sína.

Alþingi verður sett í dag og fjárlagafrumvarp lagt fram. Að lokinni æsispennandi athöfn í Dómkirkjunni verður kjörið í fastanefndir og til forseta Alþingis. Þetta 128. löggjafarþing verður fremur stutt vegna kosninga næsta vor, þó er von til þess að það verði nokkuð líflegt af einmitt sömu ástæðu.

Á þinginu í vetur verða línur lagðar fyrir kosningarnar, flokkar og einstakir þingmenn munu sýna hvað í þeim býr og fyrir hvað þeir standa. Útlit er fyrir að nokkur prófkjör verði haldin í nóvember og því líklegt að þeir þingmenn sem ætla sér stóra hluti í þeim verði áberandi á fyrstu dögum þingsins. Þannig munu þeir væntanlega reyna að höfða til kjósenda í eigin kjördæmi.

Mjög áhugavert verður að fylgjast með tilburðum þingmanna fyrir prófkjörin, ekki síst vegna hinnar nýju kjördæmaskipunar. Einnig heyrast sögur um að einstaka þingmenn hugsi sér til hreyfings milli kjördæma. Það er sök sér ef um leiðtoga flokksins er að ræða og þegar þingmenn ætla sér að flytja til Reykjavíkur, því þeir búa þar náttúrulega lungann úr árinu. Hitt er annað mál þegar þingmenn ætla sér að flytja út á land til að eiga meiri möguleika á frama þar eða jafnvel ráðherrasæti, en mér virðist sem flestum mislíki slíkir tilburðir og þyki þeir jafnvel hallærislegir.

Að loknum prófkjörum og uppstillingum geta flokkarnir svo stillt strengi sína og hafið kosningabaráttuna fyrir alvöru á þinginu. Líklegt er að stjórnarandstaðan muni hjóla af meiri krafti en áður í ríkisstjórnina. Líklegt er að það verði sérstaklega áberandi innan Samfylkingarinnar og þingmenn hennar reyni að nýta sér veika stöðu formannsins.

Svo má ekki gleyma yngstu kynslóðinni, því nýir kjósendur skipta þúsundum. Á síðasta þingi fyrir kosningar er því líklegast að fram komi mál sem höfða til þeirra. Fróðlegt verður að fylgjast með hvaða þingmenn ætla að stíga fram sem fulltrúar þeirra, því enginn þingmanna er yngri en 35 ára, en það er hámarksaldur til þátttöku í starfi ungliðahreyfinga flestra flokkanna. Auk þess eru aðeins um 17% þeirra undir 45 ára aldri.

Það eru því nokkrar líkur á því að 128. löggjafarþingið einkennist af framapoti einstakra þingmanna og nokkru lýðskrumi frekar en lýðræðisást og hagsmunum skattgreiðenda. Í því ljósi er vert að hugleiða þær hugmyndir sem hafa komið fram um að kjósa að hausti. Þannig er hægt að hafa þinghald lengra auk þess sem það myndi ekki einkennast jafnmikið af poppmálum einstakra þingmanna til að slá keilur og vinna nokkur aukaatkvæði.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)