Er Facebook verkfæri djöfulsins?

Undanfarið hefur verið mikil umræða um tengslanetssíðuna Facebook.com,en margir hafa bent á vankanta síðunnar í fjölmiðlum undanfarið. Það sem hæst hefur farið er umræðan um hvort meðferð upplýsinga sé nægjanlega góð eða hvort hægt sé að nýta þær upplýsingar sem þar eru gegn einstaklingum.

Undanfarið hefur verið mikil umræða um tengslanetssíðuna Facebook.com,en margir hafa bent á vankanta síðunnar í fjölmiðlum undanfarið. Það sem hæst hefur farið er umræðan um hvort meðferð upplýsinga sé nægjanlega góð eða hvort hægt sé að nýta þær upplýsingar sem þar eru gegn einstaklingum.

Vefurinn Facebook var stofnaður árið 2004, og þá eingöngu með Harvard í huga, en fljótlega var vefurinn opnaður fyrir fleiri og er í dag opinn fyrir alla sem eru 13 ára og eldri. Notendur eru í dag um 100 milljónir um allan heim og á Íslandi eru notendur tugir þúsunda.

Áhyggjur af misnotkun á persónuupplýsingum eru skiljanlegar, þótt stofnandi vefsins segi að notendur þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur,
þá áskilur Facebook sér þó rétt til þess að selja upplýsingar til þriðja aðila, en þá ekki um einstaka notendur heldur upplýsingar um
söfn notenda.

Umræðan um að loka upplýsingasíðunni um sjálfan sig (prófíl síðu) á fullkomlega rétt á sér. Samt sem áður er sú hætta sem þar er lýst ofmetin. Mjög auðvelt er að finna sambærilegar upplýsingar um flesta með öðrum leiðum (Google, Íslendingabók, símaskránni eða bloggum).

Einnig hefur verið mikil umræða um tímaþjófinn Facebook, en meðal virkur notandi í Bandaríkjunum eyðir um 20 mínútum á dag á síðunni.
Þessi tími hefur farið mjög hratt vaxandi, í takt við fjölda leikja og annarra tímaþjófa sem eru í boði á síðunni. Þeir sem nota síðuna hins vegar aðeins til þess sem hún var upphaflega ætluð nota hana að meðaltali 5 mínútur á dag.

Sem tengslanetssíða er Facebook mjög gagnleg, en það er fyrst og fremst vegna þess mikla fjölda sem þar er að finna. Engin önnur tengslanetssíða býður upp á slíkan fjölda af fullorðnu fólki, en fjöldi notenda Facebook er nú meiri en MySpace sem áður var vinsælasta síðan. Með Facebook getum við haldið tengslum við félaga sem við værum annars löngu dottin úr tengslum við.

Gangrýnisraddir á tengslanetssíður benda á að þær séu líklegar til að veikja sterk vinasambönd, þar sem menn ákveði frekar að eiga samskipti á netinu frekar en að hittast í eigin persónu og að vinasambönd á Facebook séu ekki jafngóð og önnur vinasambönd. Á móti benda menn hins vegar á að Facebook geti hjálpað fólki að enduruppgötva gamlan vinskap, þar sem menn byrja á að hittast aftur á eftir að hafa ,,hist“ á Facebook og rifji svo upp gamlar minningar yfir kaffibolla.

Sjálfur tel ég að Facebook sé tvímælalaust góð leið til að halda utan um og vera í sambandi við gamla vini og kunningja. Facebook er því hvorki rót alls ills eða lausn allra vandamála. Eins og með annað þá er allt best í hófi. Þar með talin notkun á Facebook.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.