Stórveldið Kína

Á undanförnum árum hafa Kínverjar verið að styrkja stöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Uppgangur Kínverja í efnahags- og hermálum gæti leitt til þess að brátt verði Kína að einu mesta stórveldi heimsins.

Kínverjar hafa mikinn hug á því að skipa stærri sess í alþjóðasamfélaginu en þeir gera í dag. Þeir hafa hug á því að vera eitt af ráðandi ríkjum heimsins og þá ekki síst í Asíu. Þeir vita þó að til þess þurfa þeir að styrkja sig verulega pólitískt, efnahags- og hernaðarlega. Þróunin í Kína bendir til þess að sá draumur gæti ræst á næstu áratugum ef Kínverjar halda rétt á spöðunum.

Kína hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum. Breytingarnar eiga flestar rætur sínar að rekja til aukins hagvaxtar. Ekkert annað land í heiminum hefur upplifað jafn mikla aukningu í hagvexti sínum og Kína á undanförnum árum. Raunin er sú að flest önnur ríki heimsins hafa verið að staðna í hagvexti síðastliðin ár, á meðan Kína hefur verið að auka sinn. Þessi aukni hagvöxtur hefur gefið Kínverjum tækifæri til þess að endurskoða og bæta stöðu sína í alþjóðasamfélaginu og efla tengsl sín við önnur þjóðríki heimsins.

Kínverjar hafa verið duglegir að styrkja stöðu sína í alþjóðasamfélaginu með bættum tengslum við önnur þjóðríki heimsins. Bæði hafa Kínverjar verið duglegir að mynda bandalög út frá pólitískum og/eða efnahagslegum forsendum. Athyglisverðustu samskiptin eru á milli Kínverja og Rússa en þar hefur myndast sterkt bandalag í efnahags-, stjórn- og hermálum. Kína hefur einnig verið að auka samskipti sín við Indland, Víetnam og Pakistan ásamt því að auka tengslin við sínar helstu nágrannaþjóðir í Asíu.

Nútímavæðing kínverska hersins hefur einnig vakið athygli. Kínverjar hafa aukið fjármagn sitt verulega til hermála síðastliðin ár. En þrátt fyrir aukin útgjöld í þeim málaflokki þá er ýmislegu ábótavant í kínverska hernum. Léleg herþjálfun og úrelt tækni loðir við kínverska herinn og er hann heldur langt á eftir herjum stærstu ríkja heimsins. En Kínverjar eru ákveðnir í að bæta her sinn verulega, eins og sönnu stórveldi sæmir. Búið er að gera áætlanir um að styrkja kínverska herinn verulega í sjó og í lofti en ásamt því er búið að setja í gang umfangsmikla kjarnorkuáætlun. Samskipti Kína við Rússland gríðarlega mikilvæg í þessum efnum en Rússland gæti átt stóran þátt í því að efla kínverska herinn.

Kínverjar hafa ágæta möguleika á því að styrkja stöðu sína verulega í alþjóðasamfélaginu ef þróunin heldur áfram á þessari leið. Þróunin gæti jafnvel leitt til þess að innan nokkurra áratuga verði Kína eitt af ráðandi ríkjum heimsins. Það er þróun sem að Bandaríkin og fleiri þjóðríki heimsins eru ekki ýkja hrifin af, að minnsta kosti ekki eins og staðan er núna. Því óvissan sem fylgir því ef Kínverjar fá meiri völd í alþjóðasamfélaginu hræðir. Hræðslan um að valdajafnvægi muni raksast og að alþjóðasamfélagið muni aftur þróast í átt að tvípóla kerfi eins og var í kalda stríðinu á milli Sovétríkjanna sálugu og Bandaríkjanna.

Þessi hræðsla er ekki af tilefnislausu ef afstaða Kínverja til pólitískra deilumála eru skoðuð. Oftar en ekki eru skoðanir Kínverja í mótvægi við skoðanir annarra þjóðríkja. Þetta sést best í þátttöku þeirra í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Þar hafa Kínverjar, ásamt Rússum, notað neitunarvald sitt í pólitískum deilumálum. Nýleg dæmi er meðal annars um tillögur öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna um viðskiptaþvinganir gagnvart Íran og Zimbabwe en Rússar og Kínverjar hafa verið mótfallnir slíkum aðgerðum og notað neitunarvald sitt þar. Því má spyrja sig, hvernig mundi Kína nota vald sitt ef áhrif þeirra í alþjóðasamfélaginu verða meiri en þau eru í dag.

Helstu sérfræðingar í málefnum Kína eru þó á þeirri skoðun á Kína eigi þó nokkuð langt í land að verða að stórveldi. Kínverska hagkerfið eigi enn eftir að sanna sig og athyglisvert verði að sjá hvað gerist þegar uppgangur kínverska hagkerfisins hægir á sér. Einnig er talið að Kínverjar eigi líka enn eftir að vinna sér inn traust meðal þjóðríkja heimsins og setja margir upp stórt spurningarmerki um hvernig samskipti Rússlands og Kína eigi eftir að þróast. En möguleikarnir séu vissulega til staðar fyrir Kínverja og að framtíð þeirra höndum. Kína séu til alls líklegir í framtíðinni.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)