Við lífsins fögnuð fundum

Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Skatturinn tekur sitt og daginn tekur að stytta er veturinn nálgast. Þess vegna höfum við svo gaman af að halda upp á ljósu punktana í lífinu eins og endurgreiðslu frá skattinum, hitamet, jólin og Þjóðhátíð.

Í gær féllu allmörg hitamet á landinu. Það elsta og því það merkilegasta féll á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Fyrra met hafði staðið frá árinu 1924 sem var um margt merkilegt ár í Eyjum. Ekki aðeins var þá haldin Þjóðhátíð í fimmtugasta sinn heldur var þá í fyrsta skipti gerð fornleyfarannsókn á rústum bæjar Herjólfs Bárðarsonar, sem fyrstur byggði Eyjarnar samkvæmt Landnámu.

Ýmsir hafa haldið því fram að rústirnar séu frá því nokkuð fyrir árið 874 og sanni að landnám hafi orðið mun fyrr. Það er því svolítið skemmtilegt að í bæjarhlaði Herjólfs, sem Herjólfsdalur er nefndur eftir, skuli enn vera haldin hátíð sem á uppruna í 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar.

Þjóðhátíðin var einmitt haldin fyrst í Herjólfsdal árið 1874 og því haldin í 134. skipti nú í ár. Það þýðir að líkindum að hún er elsta hátíð á landinu sem ekki er beinlínis lögbundin. Hugsanlega vegna þess að þar var frá upphafi leyfilegt að spila ólíkt jólum og páskum fortíðar.

Það sem gerir Þjóðhátíðina svo sérstaka enn þann dag í dag og skýrir langlífi hennar er að hún snýst um að fjölskyldan geri sér glaðan dag saman. Fagni lífinu í fagurri náttúrunni. Æskan ærlsast og leikur sér, ástin blómstrar og svo syngja allir hástöfum um alltsaman.

Þessi einstaka stemmning skilar sér einmitt svo vel í mörgum Þjóðhátíðarlaganna sem hafa verið samin af þessu tilefni frá árinu 1933. En þá samdi Árni úr Eyjum eftirfarandi ljóð við lag Oddgeirs Kristjánssonar:

Setjumst að sumbli;
skyggja fer í Herjólfsdal.
Drekkum og dönsum;
dunar hátt í klettasal.

Glæstar meyjar og gumafjöld
guðinn Amor nú tigna í kvöld

Bakkus er betri,
bergjum því á dýrri veig.
Ennþá er eftir-
-út ég drekk í einum teyg.

Það er ómögulegt að segja hvað siðapostular samtímans myndu segja um svona vísu um brennivínssukk og kvennafar, en víst er að á fáum stöðum á byggðu bóli fer slíkt fram í meiri friðsemd og af meiri alúð en á Þjóðhátíð í Eyjum. Þess vegna verður Herjólfsdalur heitasti staður landsins um helgina hvað sem líður veðri og vindum.

En nóg af rausi – sjáumst í Dalnum.

Eldri pistlar um tengt efni:
Hún rís úr sumarsænum
Í silkimjúkum blænum
Með fjöll í feldi grænum
Mín fagara Heimaey
og
Undurfagra ævintýr
Þetta eina sem útaf bar

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)