Hærra bensínverð

Þó neytendum gremjist hækkandi bensínverð og heimti að það lækki er hagfræðin ekki á sama máli.

Flestir vilja ímynda sér að það sama gildi um bensín og allar aðrar vörur
eða þjónustu. „Rétt“ virði þess verði eingöngu fundið þar sem framboð og
eftirspurn ná jafnvægi, þar sem jafn margir vilja kaupa og selja gegn sama
verði. Þannig endurspegli það í senn kostnað seljanda, og vilja kaupanda til
að bæta honum kostnaðinn upp.

Bensín hefur þó, líkt og fleiri vörur, ákveðna sérstöðu á frjálsum markaði.
Kaup, og þar með notkun, bensíns hefur ekki aðeins áhrif á kaupanda og
seljanda líkt og raunin er þegar einhver kaupir sér nammi eða bókaskáp.

Þegar bílstjóri ákveður að kaupa sér bensín til að að aka hefur hann um leið
áhrif á fjöldann allan af samborgurum sínum: Alla þá sem þurfa að aka í
umferðinni með viðkomandi, alla þá sem anda að sér útblæstri bílsins, alla
þá sem finnst bílar ljótir og svona mætti áfram telja. Það er augljóst að
vægi þessara áhrifa er mismikið. Sum verða þó seint talin léttvæg.

Sjálfur sit ég oft fastur í umferð í lengri tíma á morgnana og bölva fólkinu
í kringum mig. Þar með eru bensínkaup allra í umferðinni farin að valda mér
kostnaði í formi gremju og tímataps. Á sama hátt veld ég öðrum kostnaði með
bensínkaupum mínum. Það sama gildir svo auðvitað um alla þá sem þola
heilsutap vegna útblásturs eða hafa áhyggjur af gróðurhúsaáhrifum. Þriðji
aðili verður fyrir kostnaði vegna viðskipta kaupanda og seljanda bensíns.

Það er hins vegar enginn sem lætur sér detta í hug að rukka fyrir þann
kostnað, jafnvel þó ég myndi sjálfur greiða fúlgur fjár ef umferðin gengi
hraðar. Það eina sem skiptir máli er kostnaður seljanda.

Á meðan engum finnst þess virði að samnýta bílana sína, hanna umhverfisvænni
fararkosti, taka strætó, hjóla eða ganga, þrátt fyrir að við gætum það
hæglega, er verð á bensíni einfaldlega of lágt. Við bölsótumst kannski út í
það skarð sem höggvið er í veskið, en hugsum of sjaldan út í að það er okkur
kannski fyrir bestu að bensínið hækki. Yfirvöld ættu að íhuga enn hærri
skattlagningu á bensíni. Eitt er allavega víst; olíufélögin rukka ekki fyrir
pirringin í mér.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)