Þú getur haft áhrif

Á þessu ári á ABC barnahjálp 20 ára starfsafmæli. Í tilefni afmælisins voru settir á svið stórglæsilegir útitónleikar á Víðistaðatúni í Hafnarfirði síðastliðið laugardagskvöld. Fram komu landsþekktir tónlistarmenn, en markmiðið var að fagna tímamótunum sem og vekja athygli á starfsemi samtakanna.

Á þessu ári á ABC barnahjálp 20 ára starfsafmæli. Í tilefni afmælisins voru settir á svið stórglæsilegir útitónleikar á Víðistaðatúni í Hafnarfirði síðastliðið laugardagskvöld. Fram komu landsþekktir tónlistarmenn, en markmiðið var að fagna tímamótunum sem og vekja athygli á starfsemi samtakanna.

Starfsemi ABC barnahjálpar á Íslandi er aðdáunarverð. Þetta er samkirkjulegt hjálparstarf sem hefur það að markmiði að veita nauðstöddum börnum varanlega hjálp. Hjálpin felst meðal annars í læknisaðstoð, framfærslu, húsaskjóli og menntun. Megin áhersla samtakanna er að bjóða upp á menntun fyrir alla aldurshópa.

Í þeim löndum sem ABC barnahjálp er með starfsemi sína er ástandið oft erfitt og eiga fátæk börn erfitt með að öðlast menntun. Í sumum löndum er ekki skólaskylda og hafa foreldrar oft ekki efni á því að borga skólagjöld fyrir börnin sín. Án menntunar eiga börnin erfitt með að brjóta sig úr klóm fátæktarinnar. Með því að tryggja börnunum menntun er verið að gefa þeim tækifæri til þess að eiga framtíð þar sem þau geta ráðið örlögum sínum sjálf.

Starfsemi ABC barnahjálpar byggist upp á því að einstaklingar taki að sér að vera stuðningsaðilar barns og borgi með því ákveðna upphæð á mánuði. Greiðslan fer síðan óskipt til þess að tryggja barninu þá aðstoð sem það þarf og þar á meðal aðgengi að menntun. Reglulega fær síðan stuðningsaðilinn fregnir af barninu, hvernig því gengur í skóla og fregnir af ástandinu heima fyrir. Í dag eru um 8000 börn, aðallega á Indlandi, Úganda, Filippseyjum, Pakistan og Kenía, sem fá aðstoð frá ABC barnahjálp. Meirihluti stuðningsaðila er frá Íslandi en hluti er þó búsettur erlendis. Framtíðarmarkmið ABC barnahjálpar eru háleit en við lok þessa árs er stefnt að því að 20.000 börn njóti stuðning frá samtökunum.

Það þarf heldur ekki mikið til. Fyrir þann pening sem við á Íslandi notum til þess að panta okkur pizzu eða að fara í bíó getum við tryggt fæði, húsaskjól, læknisaðstoð og menntun í heilan mánuð fyrir barn á vegum ABC barnahjálpar. Ég vil því hvetja alla til þess að kynna sér starfsemi ABC barnahjálpar. Samtökin hafa sýnt það á þeim tuttugu árum sem þau hafa verið starfandi að þetta er þróunaraðstoð sem skilar árangri.

Það þarf svo lítið til þess að láta gott af sér leiða. Þú getur haft áhrif.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)