Oddvitaskipti Sjálfsstæðismanna

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur tekið við sem oddviti Sjálfsstæðisflokksins í Reykjavík. Hönnu Birnu bíður mikið verk að endurvekja traust borgarbúa á Sjálfsstæðisflokknum í borginni.

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur tekið við sem oddviti Sjálfsstæðisflokksins í Reykjavík. Hönnu Birnu bíður mikið verk að endurvekja traust borgarbúa á Sjálfsstæðisflokknum í borginni.

Tími Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í stjórnmálum rann sitt skeið síðasta haust. Embættisfærslur hans sem Borgarstjóra voru svo umdeildar að Samband Ungra Sjálfsstæðismanna bókaði sérstaklega á landsfundi sínum í haust að færslurnar samræmdust ekki Sjálfsstæðisstefnunni. Ballið var þá varla byrjað.

Dansinn, sem kenndur hefur verið við REI, reyndist Vilhjálmi of djarfur. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar tróð hann á tær dansfélaga sinna og tók ákvarðanir í mjög umdeildum málum á sínar eigin spýtur, öllum að óvörum.

Góður leiðtogi gætir þess að hafa fullt traust heima fyrir áður en hann leggur í erfið verkefni. Í REI málinu vantaði allt samráð á milli leiðtogans og heimamanna. Tillitsleysi leiddi til þess að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði völdum í borginni.

Það varð Sjálfstæðismönnum í borginni til happs að REI listinn sem tók völdin af þeim hafði hvorki kjark né þor til þess að taka staka ákvörðun á þeim 100 dögum sem þeir voru við völd. Yfirlæti, jafnvel tillitsleysi; nú gagnvart Ólafi F. Magnússyni, leiddi aftur til stjórnarskipta.

Við stjórnarskiptin hin síðari hafði Vilhjálmur ekki enn áttað sig á vitjunartíma sínum og lagði til að hann myndi jafnvel taka aftur við sem borgarstjóri á næsta ári. Kjósendur voru orðnir langþreyttir á vandræðagangi við stjórn borgarinnar og löngu búnir að tengja hann beint við Vilhjálm. Fylgi flokksins féll.

Það kom fljótt í ljós að vilji almennings var að Hanna Birna Kristjánsdóttir myndi taka við sem Oddviti. Auk niðurstaða skoðanakannana er hún næsti maður á lista á eftir Vilhjálmi og því eðlilegast að ef hann stigi til hliðar myndi hún taka við.

Hefði einhver annar en Hanna Birna verið valinn í ljósi þessa hefði almenningur líklegast enn látið gremju sína í ljós og fylgi flokksins í borginni farið enn niður. Það er alveg kristaltært að rétt ákvörðun var tekin.

Hönnu Birnu bíður nú það erfiða verkefni að sameina borgastjórnarflokk Sjálfstæðismanna undir sinni forystu og að endurvekja traust Reykjavíkurbúa á Sjálfstæðisflokknum.

Verk hennar verður ærið en engin ástæða er til að ætla annars en að hún muni sigla því skipi í höfn með glæsibrag.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.