Hún snýst nú samt…

Sá úrskurður Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ að dæma Guðjón Þórðarson, þjálfara ÍA, í leikbann vegna gagnrýni hans á vinnubrögð KSÍ, er tákrænn fyrir hið djúpstæða getuleysi sem ríkir innan knattspyrnuforystunnar á Íslandi.

Sá úrskurður Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ að dæma Guðjón Þórðarson, þjálfara ÍA, í leikbann vegna gagnrýni hans á vinnubrögð KSÍ, er tákrænn fyrir hið djúpstæða getuleysi sem ríkir innan knattspyrnuforystunnar á Íslandi.

Með úrskurðinum sendir KSÍ þau skilaboð til aðildarfélaga sinna og allra þeirra sem starfa á þeirra vegum að sambandið mun slá þagnarmúr um vinnubrögð sín með hótunum um sektir og leikbann til allra þeirra sem voga sér að setja fram gagnrýni á það sem aflaga fer í starfsemi KSÍ.

Sú fullyrðing KSÍ að Guðjón hafi með gagnrýni sinni skaðað íslenska knattspyrnu er auðvitað ekkert annað en vitnisburður um rökþrota apparat sem svífst einskis í sjálfsbjargarviðleitni sinni.

Fullyrða má að fáir hafa lagt jafn mikið af mörkum fyrir framþróun íslenskrar knattspyrnu og Guðjón Þórðarson. Hann er einn allra sigursælasti þjálfari landsins og undir hans leiðsögn hafa komið fram fjölmargir afburðaknattspyrnumenn.

Fátt getur mögulega skaðað íslenska knattspyrnu meira en að fagaðilar í fótboltanum, þeir sem mest vit hafa á málum, þurfi að sæta leikbönnum og sektum fyrir að taka þátt í opinni og gagnrýnni umræðu um faglega þætti í íslenskri knattspyrnu.

Refsing sú sem Guðjón sætir mun í engu breyta eða bæta þær faglegu brotalamir sem eru í innviðum KSÍ. Þeir sem þar halda um stjórnartauma virðast uppteknir af einhverju allt öðru en framgangi knattspyrnunnar.

Þagnarmúr um ófagleg vinnubrögð og óstjórn í krafti hótana um leikbönn og sektir mun á endanum falla, íslenskri knattspyrnu til hagsbóta. KSÍ hefur vissulega vald sem það getur misbeitt að eigin geðþótta en eins og maðurinn sagði: „Hún snýst nú samt.“

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.