Baráttan um landgrunnið IX- Jan Mayen og Svalbarði

Mikið er masað um þróun mála á Norðurheimsskautinu. Athygli almennings og fjölmiðla verður sífellt meiri á svæðinu. Rekja má þá þróun til vaxandi mikilvægis Norðurheimsskautssins í alþjóðastjórnmálum. Þá þróun má aftur rekja til aukins aðgengi að auðlindum þar í kjölfar loftslagsbreytinga og tækniþróunar sem og opnunar siglingaleiðarinnar um Norður-Íshafið milli Kyrrahafs og Norður-Atlantshafs. Í þessum pistli verður athyglinni beint að þeim hafsvæðum sem Ísland getur gert landgrunnskröfur til í Norðurhöfum.

Mikið er masað um þróun mála á Norðurheimsskautinu. Athygli almennings og fjölmiðla verður sífellt meiri á svæðinu. Rekja má þá þróun til vaxandi mikilvægis Norðurheimsskautssins í alþjóðastjórnmálum. Þá þróun má aftur rekja til aukins aðgengi að auðlindum þar í kjölfar loftslagsbreytinga og tækniþróunar sem og opnunar siglingaleiðarinnar um Norður-Íshafið milli Kyrrahafs og Norður-Atlantshafs. Í þessum pistli verður athyglinni beint að þeim hafsvæðum sem Ísland getur gert landgrunnskröfur til í Norðurhöfum.

Ísland getur ekki gert frekari kröfu til landgrunns í norðurátt þar sem búið er að afmarka markalínu landgrunnsins (og efnahagslögsögu) á milli Íslands og Grænlands annars vegar og hins vegar Íslands og Jan Mayen/Noregs. Segja má að landgrunn (og efnahagslögsaga) Grænlands og Jan Mayen loki þannig á hafsvæði Íslands, þ.e. Ísland á ekki landsvæði að Norðurheimsskautinu. Hins vegar á Ísland viss réttindi við Jan Mayen auk þess sem Svalbarðasamningurinn frá 1920 á að tryggja Íslandi viss nýtingaréttindi.

Jan Mayen

Þann 28. maí 1980 undirrituðu fulltrúar Íslands og Noregs samkomulag um fiskveiði- og landgrunnsmál og 22. október 1981 samkomulag um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Samkomulög þessi öðluðust gildi 2. júní 1982 eftir að hafa verið fullgilt nokkru áður af ríkjunum tveimur. Þann 11. nóvember 1997 var síðan samþykkt viðbótarbókun við samkomulögin sem öðluðust gildi 27. maí ári síðar.

Samkomulagið frá 1981 kveður á um nokkurs konar sameiginlegt nýtingarsvæði beggja vegna landgrunnsmarka Íslands og Jan Mayen. Samkvæmt samningnum á Ísland rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á norska hluta svæðisins og Noregur rétt á 25% þátttöku á íslenska hluta svæðisins. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál frá því í apríl á þessu ári er stefnt að því að ganga fljótlega frá samkomulagi við Noreg á grundvelli Jan Mayen samningsins um meginreglur svonefndrar einingarnýtingar auðlinda á olíusvæðum sem liggja beggja vegna markalína.

Svalbarði

Svalbarði nýtur sérstakrar stöðu í þjóðarétti. Um landsvæðið gildir sérstakur samningur frá 1920. Samningurinn kveður á um yfirráð Noregs yfir eyjunum, en frá þeirri meginreglu eru mikilvægar undantekningar, meðal annars eiga ríkisborgarar aðildarríkja og skip þeirra skýrt og ótvírætt sama rétt og Norðmenn til auðlindanýtingar en Norðmönnum er heimilt að grípa til verndaraðgerða. Þær verða þó að koma jafnt niður á borgurum aðildarríkjanna. Ástæða þess að Noregi var falin yfirráð á eyjunum var nálægðin við eyjarnar. Með þeirri skipan mála var ekki ætlunin að veita Noregi sérstakan efnahagslegan ávinning. Þvert á móti var það annað markmið samningsins að tryggja rétt annarra ríkja til auðlindanýtingar á eyjunum.

Samkvæmt Svalbarðasamningnum geta Norðmenn því ekki einir gert tilkall til auðlinda landgrunnsins sem og annarra auðlinda á hafsvæðinu við Svalbarða. Fullveldisréttindi þeirra til auðlindanýtingar þar takmarkast af jafnræðisreglu Svalbarðasamningsins.

Í þessu samhengi verður að benda á að þann 17. ágúst 2004 samþykkti ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning að því að vísa deilu Íslendinga og Norðmanna um síldveiðar á Svalbarðasvæðinu til Alþjóðadómstólsins. Umrædd deila snýst í grunninn um heimild Norðmanna til að setja reglur sem eiga sér ekki stoð í Svalbarðasamningnum. Dómur Alþjóðadómstólsins yrði væntanlega þýðingarmikill fyrir alla auðlindanýtingu á Svalbarðasvæðinu. Ekkert er minnst á þessa fyrirhugaða málsókn Íslands á hendur Norðmönnum í fyrrnefndri skýrslu utanríkisráðherra frá því í apríl á þessu ári. Velta má vöngum yfir hvort almenningur eigi ekki rétt á að vita í hvaða farvegi málið er enda varðar það mikilvæga framtíðarhagsmuni.