Geta flóttamenn ekki verið Skagamenn?

Ég er skagamaður búsettur í Reykjavík. Fyrir mig og eflaust fleiri hefur verið furðulegt að fylgjast með fréttum undanfarið og sjá að helsta áhyggjuefni sumra virðist vera að komast ekki á djammið fyrir flóttamönnum og Pólverjum á Akranesi. Sjálfur var ég á 10 ára árgangsmóti á laugardag og gat alveg skemmt mér konunglega þrátt fyrir að í bænum búi ekki bara innfæddir skagamenn.

Ég er skagamaður búsettur í Reykjavík. Fyrir mig og eflaust fleiri hefur verið furðulegt að fylgjast með fréttum undanfarið og sjá að helsta áhyggjuefni sumra virðist vera að komast ekki á djammið fyrir flóttamönnum og Pólverjum á Akranesi. Sjálfur var ég á 10 ára árgangsmóti á laugardag og gat alveg skemmt mér konunglega þrátt fyrir að í bænum búi ekki bara innfæddir skagamenn.

Ég ætla ekki að elta ólar við að svara svonefndri greinargerð Magnúsar Þórs sem hann lét senda á öll heimili á Akranesi. Hans málflutningur og útvarps Sögu hópsins er þess eðlis að það nálgast það að menn séu að „berja Íslendinga“, að minnsta kosti vitsmunalega.

Fyrir mér er spurning um móttöku flóttamanna frá Írak mjög einföld. Á rólegt og gott sveitarfélag í landi sem býr við ein bestu lífskjör í heimi að hjálpa sínum minnstu bræðrum? Svarið er stutt og einfalt: Já.

Það væri fínt fyrir brottflutta skagamenn að vita hversu ótrúlega slæm staðan á Akranesi er, ef það er ekki hægt að bjóða fólki sem búið hefur við stríðsátök í tjaldi undanfarin ár sæmilegar aðstæður. Ef einhverjir brottfluttir skagamenn væru að hugsa um að flytja aftur til baka, þá er eins gott að vita þetta strax.

Ef við gefum okkur það að Akranes ráði ekki við komu 30 manns í bæjarfélagið má ætla að málin þar séu í slæmum farvegi. Það er hins vegar ekkert sem bendir til að svo sé fyrir þá sem þangað koma eða heyra fregnir frá fjölskyldu og vinum. Þeir sem hafa yfirgripsmikla þekkingu á opinbera kerfinu á Akranesi ættu að minnsta kosti að geta sagt hvað Akranes ræður við að taka við mörgum flóttamönnum. Auðvitað gera þeir það ekki, skortur á félagslegum leiguíbúðum og annað eins er fyrirsláttur.

Það hefur verið leiðinlegt fyrir marga skagamenn að hlusta á og lesa skrif þeirra sem telja að skagamenn almennt vilji ekki hjálpa flóttafólki. Það er ekki rétt. Það er fámennur hópur í kringum umboðslausan sveitarstjórnarmann sem heldur þessum sjónarmiðum fram og hefur með mjög svo hæpnum fullyrðingum fengið einhverja bæjarbúa með sér í lið. Þessi andstaða er það lítil að móttaka flóttamannanna var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í bæjarstjórn.

Skagamönnum hefur fjölgað undanfarin ár og hefur bæjarfélagið færst mjög í átt að því að vera úthverfi Reykjavíkur eða hluti af höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi fólks á Akranesi sækir vinnu eða nám til Reykjavíkur eða annarra nærliggjandi sveitarfélaga. Það hefur ekki þótt vandamál hingað til að fólk flytti í bæinn heldur jákvæð þróun. Sveitarfélög eins og Akranes ættu að fagna fjölbreytilegra mannlífi hvaðan sem það kemur. Og hver veit, kannski næst þegar KR-ingum vantar sæmilegan fótboltamann geta þeir reynt að kaupa einhvern “Mohammed Jassim Ali” af Skaganum.

Skagamenn stóðu frammi fyrir möguleikanum að breyta rétt. Þeir blessunarlega höfðu fólk við stjórnvölin sem það gerðu. Til hamingju með það skagamenn!

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)