Stóri Björninn felldur

Bandaríski fjárfestingabankinn Bear Stearns var seldur nauðungarsölu um síðustu helgi eins og flestir áhugamenn um viðskipti vita. Hins vegar eru enn blómleg viðskipti með hlutabréf hans.

Bandaríski fjárfestingabankinn Bear Stearns var stofnaðu árið 1923 og hefur staðið af sér ýmiss harðindi og kreppur. Hann stóðst hins vegar ekki bankakrísuna sem nú gengur yfir Bandaríkin og almennt um fjármálaheiminn. Síðasta föstudag dró markaðurinn öll lán sem hann gat frá Bear Stearns og bankinn stóð uppi aðeins fyrir tilstuðlan neyðarlána Seðlabanka Bandaríkjanna. Hlutabréf bankans hríðféllu og í dagslok á föstudaginn hafði gengið fallið um 47% frá því daginn áður.

Um helgina var stjórn bankans síðan neydd til þess að selja bankann eða fara í þrot ella. Bankinn JP Morgan var í bestri stöðu til þess að kaupa Bear Stearns hratt vegna mikilla viðskipta þeirra á milli og þekkingar á eignum Bear Stearns. Á sunnudagskvöldið var síðan tilkynnt að samkomulag hefði náðst um að JP Morgan keypti Bear Stearns á $2 á hlut sem er 93% lægra en þau voru virði í lok föstudags og 99% lægra en þau fóru hæst í janúar í fyrra.

Það sem stingur svo í stúf er sú staðreynd að frá því að salan gekk í gegn hafa verið mikil viðskipti með bréf bankans á talsvert hærra gengi en $2, hæst hefur gengið farið í $8,50 eftir helgi. Hvað veldur?

Samningurinn

Samningurinn sem gerður var um helgina felst í því að JP Morgan kaupir öll hlutabréf bankans á $2 á hlut, en seðlabankinn fjármagnar kaupin og ber einnig tapsáhættu af þeim. Stjórn Bear Stearns gerði samninginn en hluthafar þurfa að samþykkja yfirtökuna. Tilboð JP Morgan rennur hins vegar ekki út ef hluthafar hafna því, það gildir í 12 mánuði og hluthafar þurfa að kjósa um það reglulega. Eftir fyrstu höfnunina fær JP Morgan hins vegar að kaupa tæplega 20% hlut sem mun auðvelda samþykki í næstu atkvæðagreiðslu. JP Morgan (ásamt seðlabankanum) ber ábyrgð á öllu skuldbindingum Bear Stearns þá 12 mánuði sem yfirtökutilboðið gildir. Til að gera stöðu JP Morgan enn vænlegri eiga þeir kauprétt að byggingu Bear Stearns, á besta stað á Manhattan, sem þeir geta tekið og gert það sem þeim sýnist við ef tilboðið verður ekki samþykkt.

Hagsmunir hluthafa

Hluthafar Bear Stearns eru að vonum súrir, og um þriðjungur hlutafjár er í eigu starfsmanna og stjórnenda bankans. Eign þeirra hefur rýrnað gríðarlega og finnst þeim ekki mikið varið í $2 á hlut. Eftir að tilboð JP Morgan er komið fram er rekstraröryggi bankans í raun tryggt þar sem JP Morgan (ásamt seðlabankanum) bera nú ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans. Einnig eru hluthafar í raun með sölurétt á genginu $2. Í þessari stöðu vilja einhverjir freista þess að reyna að halda sjó, vona að rætist úr krísunni og að í kjölfarið komi annar aðili fram með betra tilboð. Með því að hafna yfirtökunni geta hluthafar haldið lífi í glóðunum. Einhverjir vongóðir eru því kannski tilbúnir að kaupa hluti yfir tilboðsverðinu með von um hærra tilboð.

Hagsmunir skuldunauta

Markaðsvirði útistandandi hlutafjár er hins vegar afskaplega lítið í samanburði við útgefin skuldabréf Bear Stearns. Á meðan markaðsvirði hlutabréfa í Bear Stearns er af stærðargráðunni $250-$500 milljónir eru útgefnar skuldir bankans um $250 milljarðar. Við tíðindin að Bear Stearns rambaði á barmi gjaldþrots féllu skuldabréf útgefin af þeim skiljanlega mikið. Ef yfirtaka JP Morgan gengur hins vegar eftir breytast skuldir Bear Stearns í skuldir JP Morgan sem eru mun meira virði. Hagnaður skuldabréfaeigenda af yfirtökunni getur því auðveldlega verið af stærðargráðunni tugir milljarða dollara. Því getur það vel verið þess virði fyrir stóra eigendur skuldabréfa Bear Stearns að kaupa mikið magn af hlutabréfum bankans á yfirverði, til þess eins að tryggja yfirtökuna, selja hlutabréfin með tapi en sjá mikla hækkun skuldabréfastöðu sinnar. Sérstaklega á þetta við um vogunarsjóði sem eru mjög skuldsettir og þola ekki mikla lækkun á skuldabréfaeign sinni til viðbótar.

Hagsmunir „vondra spákaupmanna“

Þá eru þeir einnig til sem hafa tekið gagnstæða stöðu við skuldunauta Bear Stearns, þ.e. þeir sem hafa skortselt skuldabréf eða keypt skuldatryggingu. Ef samruninn fer ekki í gegn, óvissa verður áfram um bankann eða ef hann verður keyrður í gjaldþrot falla skuldabréfin í verði og þá hagnast þessir aðilar. Þessir aðilar gætu því viljað kaupa hlutabréf til þess eins að reyna að koma í veg fyrir samrunann og halda óvissu Bear Stearns gangandi.

Hagsmunir Seðlabankans

Helsta umhugsunarefni Seðlabanka Bandaríkjanna í öllum þessum viðskiptum er að viðhalda stöðugleika fjármálakerfisins. Óvissa um Bear Stearns eða mögulegt gjaldþrot bankans er til þess fallið að auka ólgu og óstöðugleika mikið og því vilja þeir sjá yfirtökuna ganga í gegn, fljótt og þrautalítið. Seðlabankinn mun því ekki líta tilraunir hluthafa til að tefja samrunann björtum augum.

Það eru miklir og margvíslegir hagsmunir á bakvið Bear Stearns og forvitnilegt að sjá hvernig sagan endar. Líklegasta niðurstaðan er þó sú að yfirtakan gangi fljótt og örugglega fyrir sig og JP Morgan bindi endi á 85 ára sögu Bear Stearns með því að innlima hann í sína samstæðu.

Það er líka kaldhæðni örlaganna að, þegar Rússlandskreppan olli falli risavogunarsjóðsins Long Term Capital Management árið 1998 og allir helstu bankar Bandaríkjanna hlupu til undir handleiðslu Seðlabankans til að koma í veg fyrir gjaldþrot sjóðsins og afleiðingar þess, þá sat Bear Stearns hjá og neitaði að hjálpa til. Sýpur þá kannski Björninn seyðið af hinu fornkveðna að það gerir enginn neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn.