Skref aftur á bak

Við íslenskuskor Háskóla Íslands hefur verið boðið upp á kennslu í fjarnámi sem mælst hefur vel fyrir. Sú ákvörðun hefur hins vegar verið tekin að frá og með haustinu verði mest allri fjarkennslu hætt við skorina. Þrátt fyrir fögur loforð Háskólans um eflingu fjarnáms hefur ekki fengist nægjanlegt fjármagn til að halda fjarkennslunni gangandi.

Við íslenskuskor Háskóla Íslands hefur verið boðið upp á kennslu í fjarnámi sem mælst hefur vel fyrir. Sú ákvörðun hefur hins vegar verið tekin að frá og með haustinu verði mest allri fjarkennslu hætt við skorina. Þrátt fyrir fögur loforð Háskólans um eflingu fjarnáms hefur ekki fengist nægjanlegt fjármagn til að halda fjarkennslunni gangandi.

Árið 2006 samþykkti Háskólaráð stefnu Háskóla Íslands frá 2006-2011. Þar setur skólinn sér metnaðarfull markmið um að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi. Þau þrjú aðalmarkmið sem skólinn setti sér eru framúrskarandi kennsla, framúrskarandi rannsóknir og framúrskarandi stjórnun og stoðþjónusta. Þá er tekið sérstaklega fram að efla skuli fjarkennslu í völdum greinum, enda nauðsynlegt fyrir góðan háskóla að bjóða upp á almennilega fjarkennslu.

Í janúar 2007 skrifuðu svo rektor og mennntamálaráðherra undir samning um kennslu og rannsóknir. Þar koma meðal annars eftirfarandi markmið fram:
Að styrkja grundvöll kennslu, rannsókna og fræðiiðkana í landinu öllu og byggja með skipulegum hætti upp starfsemi sem miðar að því að nýta, afla og miðla þekkingu á landsbyggðinni. Efla skal sérstaklega samstarf við fræða- og þekkingarsetur á landsbyggðinni.” (2.gr.,liður 4)
Að háskólastarfsemi þjóni því markmiði að efla og rækta íslenska menningu, íslenska tungu og menningararf.” (2.gr.,liður 8)

Það var því vegna þess sem hér að ofan segir sem íslenskuskor ákvað að stórauka framboð á fjarkennslu fyrir núverandi skólaár. Það aukna fjármagn sem Háskólanum féll í hlut samkvæmt samningnum er ætlað til þess að Háskólinn geti staðið við þau markmið sín sem áður eru nefnd.

Eðli málsins samkvæmt fylgir mikil vinna því að sinna fjarkennslu almennilega. Mikill tími kennara fer í hana þar sem ólíkar þarfir fjarnemenda og staðnemenda takast á. Því er nauðsynlegt að sérstakt fjármagn sé lagt fram til að sinna fjarkennslunni sérstaklega ef vel á að gera. Á núverandi starfsári hefur íslenskuskor við Háskóla Íslands ekki fengið það fjármagn sem nauðsynlegt er til að sinna þessari kennslu.

Í fjárlögum 2007 voru settar 40 milljónir í “þjóðlegar greinar” og var íslenska sérstaklega nefnd í skýringum með fjárlögum. Því hefði mátt ætla að íslenskuskor myndi fá nægjanlegt fjármagn til að standa undir fjarkennslunni. Svo virðist samt vera að ekki hafi verið staðið nægjanlega við það þvert á ætlun löggjafans.

Íslenskuskor stendur því frammi fyrir því að annaðhvort sinni kennarar fjarkennslunni í sjálfboðavinnu eða fjarkennslunni sé hreinlega ekki sinnt nógu vel. Hvorugir þessarar kosta eru fýsilegir til lengri tíma. Því hefur sú ákvörðun verið tekin að hætta fjarkennslu að mestu leyti og verða engir nýir fjarnemar teknir inn í haust. Einnig mun framboð námskeiða verða verulega skert.

Svo mikil skerðing á fjarnámi við íslenskuskor vinnur beinlínis gegn yfirlýstum markmiðum bæði stjórnvalda og Háskólans sjálfs. Þegar markmiðin eru jafn skýr og raun ber vitni um að efla skuli þjóðleg fög á borð við íslensku og að efla beri fjarkennslu, sem eru svo sannarlega verðug markmið, er mjög undarlegt að íslenskuskor sé ekki tryggt nægjanlegt fjármagn til að sinna þeirri vinnu sem fjarkennslan krefst.

Þetta er dapurleg staðreynd fyrir íslenskuskor og Háskóla Íslands. Til að skólinn sé nálægt því að ná háleitu markmiði sínu um 100 bestu háskóla í heimi er grundvallaratriði að deildum og skorum sé tryggt það fjármagn sem nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum.

Sjá nánar:
http://hi.is/page/stefna2006-2011

http://www.hi.is/page/kennslu-og-rannsoknasamningur

http://www.althingi.is/altext/stjt/2006.179.html

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.