Sjálfsmorðsárásir –af hverju?

Sjálfsmorðsárásir eru fyrirbæri sem færist í aukanna með hverju árinu sem líður og er sú aðferð sem mörg hryðjuverkasamtök velja sér helst til þess að beita í baráttu sinni fyrir þeim málefnum sem þau hafa valið sér að berjast fyrir.

Sjálfsmorðsárásir eru fyrirbæri sem færist í aukanna með hverju árinu sem líður og er sú aðferð sem mörg hryðjuverkasamtök velja sér helst til þess að beita í baráttu sinni fyrir þeim málefnum sem þau hafa valið sér að berjast fyrir.

Það er því mikilvægt verkefni samtímans að rannsaka fyrirbærið í þeim tilangi að ná fram skilngi á því hvað það sé og ekki síst hvernig megi hindra frekari útbreiðslu þess. Einn liður í þeim rannsóknum er að leita ástæðna þess að hryðjuverkahópur velur sér sjálfsmorðsárásir frekar heldur en aðrar aðferðir.
Nærtækast er að líta til fræðimanna sem skoðað hafa fyrirbærið og ætla ég að notast við þá aðferð.

Í upphafi skulum við líta á rannsókn Roberts A. Pape á sjálfsmorðssprengjuárásum á tímabilinu 1980-2001 og þær ályktanir sem hann dró af þeim.

Á því árabili sem um ræðir voru 75 af þeim 188 árásum sem gerðar voru á tímabilinu framkvæmdar af Tamíltrígrunum á Sri Lanka samkvæmt Pape. Janes Information Group heldur því hins vegar fram að þær séu 168 af 271 í heildina. Tamíltígrarnir voru því stórtækastir við beitingu sjálfsmorðsárása en þær voru liður í baráttu þeirra fyrir sjálfstæðu ríki Tamíla á eyjunni.

Af öðrum samtökum sem rannsókn hans nær til mætti nefna verkamannaflokk Kúrda, Hizbollah í Líbanon, Hamas, Al Kaída, uppreisnarmenn í Téténíu og Kasmír o.s.frv.

Pape dregur helstu niðurstöður sínar saman í fimm liðum, en þær eru eftirfarandi:

1. Sjálfsmorðssprengjuárásir eru fyrst og síðast þaulskipulagðar. Þær eru sjaldan handahófskenndar eða órökrænar og standa ekki einar og sér. Þær eru oftar en ekki hluti af röð árása sem ætlað er að vinna að framgangi fyrirfram skilgreinds pólitísks markmiðs samtakanna.

2. Þetta pólitíska markmið snýr oftar en ekki að landsvæðum. Tilgangurinn er þá sá að fá þjóðríki til þess að gefa eftir hluta af landi sínu eða draga til baka hersveitir frá landsvæði sem samtökin telja til fósturjarðar sinnar.

3. Sjálfsmorðsárásir færast í aukanna vegna þess að hryðjuverkasamtök sjá þær bera árangur. Ekki er þó um fullnaðarsigur að ræða heldur hafa samtökin náð einhverjum hluta markmiða sinna í flestum tilfellum. Í öllum tilfellum hins vegar, nema í aðgerðum Kúrda í Tyrklandi, var árangurinn meiri eftir að gripið var til sjálfsmorðsárása heldur en áður.

4. Hófsamar aðgerðir eru líklegri til árangurs heldur en mjög stórar aðgerðir. Sprenging á strætisvagni er t.d. líklegri til þess að þjóna markmiði samtakanna heldur en aðgerð á borð við þá sem viðhöfð var 11. september 2001.

5. Að lokum telur Pape að ríki sem búi við viðvarandi ógn af sjálfsmorðsárásum hryðjuverkasamtaka verði að gera sér grein fyrir því að hernaðaraðgerðir gegn þeim eða eftirgjöf gagnvart markmiðum þeirra bæti ekki sérstaklega úr ástandinu. Þess í stað ættu þau að beina kröftum sínum að landamæragæslu og eflingu innra öryggis en eina leiðin til þess að draga úr hættunni af völdum sjálfsmorðsárása sé að skapa þær aðstæður að hryðjuverkasamtökum sé gert erfitt fyrir að framkvæma árásir sínar þannig að þau efist um getu sína til þess að koma þeim í framkvæmd.

Eins og sést glöggt á þessari upptalningu á helstu niðurstöðum Papes má sjá að hann beinir sjónum sínum fyrst og fremst að þeim samtökum sem að baki skipulagningu verknaðarins standa en ekki þeim einstaklingum sem fengnir eru til þess að framkvæma árásirnar. Það er að mínu viti skynsamleg nálgun enda skilar skilningur á ástæðum þess að einstaklingur samþykkir að taka þátt í aðgerðum sem fela ekki aðeins í sér morð á saklausum fórnarlömbum heldur einnig því að endi er bundinn á líf hans sjálfs okkur litlu. Þessir einstaklingar eru einfaldlega of ólíkir innbyrðis til þess að hægt sé að draga nokkrar ályktanir. Auk þess er það hugsunin sem hryðjuverkasamtökin og forsvarsmenn þeirra leggja í verknaðinn það sem mestu máli skiptir en ekki persónulegar ástæður hins mannlega vopns.

Gríðarleg aukning hefur orðið á tíðni sjálfsmorðsárása síðustu ár en þannig voru 134 slíkar framkvæmdar á árunum 2000-2005 sem er meira heldur en nokkru sinni áður. Í pistli mínum að mánuði liðnum ætla ég að beina sjónum mínum að sjálfsmorðsárásum eftir að önnur Intifada Palestínumanna hófst árið 2000 og til dagsins í dag og jafnframt reka endahnútinn á þá spurningu sem velt er upp í pistli dagsins; af hverju grípa menn til sjálfsmorðsárása?