Pappírstígrar og slúðurberar IV

Að undanförnu virðist sem ritstjórnir fréttamiðla hafi í auknum mæli sætt sig við að byggja fréttaflutning nánast alfarið upp á sögusögnum og yfirlýsingum frá fólki sem neitar að koma fram undir nafni. Fréttastofur, sem vilja að tekið sé mark á þeim, leika sér að eldinum þegar þær leyfa stjórnmálamönnum að tala ábyrgðarlaust og nafnlaust í fréttum.

Í kjölfar þeirrar miklu gagnrýni sem Össur Skarpéðinsson hlaut fyrir harkaleg ummæli í garð Gísla Marteins Baldurssonar borgarfulltrúa hefur síðustu daga verið fjallað á Deiglunni um nokkur umhugsunarefni varðandi þær aðferðir sem notaðar eru til að tjá sig í pólitík á Íslandi. Í gær var sérstaklega fjallað um nafnlaus skrif á netinu og nafnlausa dálka í dagblöðum þar sem pólitískum áróðri er laumað inn í það sem á yfirborðinu mætti ætla að væri hlutlaus umfjöllun – ætluð lesendanaum til glöggvunar, en ekki til þess að villa um fyrir honum.

Enn ein birtingarmynd þeirrar nafnlausu hefðar sem virðist hafa skotið föstum rótum í pólitískri umræðu á Íslandi er tilhneiging fjölmiðla til að vísa blygðunarlaust til nafnlausra heimildarmanna. Þeir sem starfað hafa í fjölmiðlum hafa flestir lært að betra og ábyrgara sé að fá fólk til að tjá sig undir nafni, jafnvel þótt menn séu gjarnan til í að slúðra og taka stórt upp í sig ef því er lofað að ummæli séu „off record.“ Engu að síður hafa vandaðir fjölmiðlar tilhneigingu til þess að virða lesendur sína svo mikið að þeim sé sagt hver tali hverju sinni en þeir ekki látnir giska í eyðurnar eða treysta í blindni á dómgreind blaðamannsins sem metur hvort heimildarmaðurinn sé áreiðanlegur.

Þegar fréttir eru settar af stað – jafnvel búnar til – með nafnlausum skrifum á netinu og í dagblöðum – er ekki nema furða að vandaðri fjölmiðlum séu búnir nokkrir erfiðleikar. Það er ömurlegt að sitja eftir með sárt ennið á meðan aðrir skúbba stórfréttum. Freistingin er því nokkuð stór að taka þátt í þeim leik að hringja út rúnt á nokkra málglaða en feimna álitsgjafa – leyfa þeim að láta gamminn geysa gegn loforði um nafnleynd og trúnað og birta svo afraksturinn sem frétt. Svo virðist sem þetta sé orðin viðtekin venja meðal allra fjölmiðla á Íslandi.

Þetta hefur að minnsta kosti einkennt alla umfjöllun um borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hinn 4. október sl. birtist forsíðufrétt í Morgunblaðinu þar sem haft var eftir borgarfulltrúa, nafnlausum auðvitað, að aburðarásin í kringum REI málið myndi „hafa afleiðingar“ fyrir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóra. Tveim dögum seinna birtust Staksteinar þar sem því var haldið fram að „uppreisn unga fólksins“ skyldi ekki vanmetin. Sú atburðarrás fór meira og minna öll fram í fjölmiðlum þar sem nafnlaust fólk dreifði sögum og lét í ljós skoðanir sínar. Fjölmiðlar létu þetta óátalið og birtu allir þess lags fréttir dag eftir dag. Fréttirnar snérust um veika stöðu Vilhjálm en að sjáfsögðu voru fréttirnar sjálfar orkuríkasta eldsneytið undir bálinu sem þeim var ætlað að greina frá.

Hið sama hefur verið uppi á teningnum á síðustu vikum eftir að Vilhjálmur Þ. kom sér í vandræði í frægum Kastljósþætti. Morgunblaðið lét frá sér stríðsfyrirsögn á forsíðu þar sem sagt var – innan gæsalappa – að öllum væri nóg boðið. Þar var vísað í almenna stemmningu í Sjálfstæðisflokknum, en enginn þar tjáði sig með nafni. Það stoppaði þó ekki blaðamanninn í því að vitna orðrétt í niðrandi ummæli um Vilhjálm Þ. á forsíðu þessa þriðja mest lesna dagblaðs landsins.

Í þessum fréttum er slegið í og úr – hitt og þetta gefið í skyn – en fátt fullyrt annað en að stemningin sé svona eða hinsegin, og vandaðir blaðamenn reyna af veikum mætti að ráða í hina raunverulegu stöðu sem er svo óljós að enginn þorir að lýsa henni undir nafni.

Hættan við þetta er hins vegar mjög mikil. Nafnlausir heimildarmenn, sérstaklega í stjórnmálum, eru að jafnaði ekki hlutlausir áhorfendur. Þvert á móti ættu fjölmiðlamenn að tortryggja mjög tjáningarþörf þeirra í skjóli nafnleyndar. Stjórnmálamenn sem tjá sig nafnlaust við fjölmiðla hafa örugglega eitthvað markmið. Þegar fjölmiðlamenn leyfa þeim að koma skoðunum sínum á framfæri – og taka sjálfir ábyrgð á orðum þeirra – eru þeir að leika sér að eldi. Annars vegar er líklegt að verið sé að gera fjölmiðlana að beinum þátttakendum í þeim málum sem verið er að lýsa. Hins vegar veldur þessi hnignun í faglegum vinnubrögðum því að nánast ómögulegt verður fyrir stjórnmálamenn að halda sig fyrir utan þennan leik. Enginn getur leyft sér að standa óvarinn á prinsippum sínum þegar sótt er að þeim úr hverri átt af mönnum sem hylja andlit sín og nöfn.

Það er því mikilvægt að ritstjórnir, blaðamenn – og neytendur fjölmiðla taki þessari þróun ekki sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut. Vandaðir fjölmiðlar eru einhver mikilvægasta stoð lýðræðislegs samfélags – ef ekki sú allra mikilvægasta. Ef ekki er hægt að treysta því að þeir hafi metnað til þess að greina satt og rétt frá því sem gerist í samfélaginu – en breytist frekar í gjallarhorn og málpípur ósýnilegra hagsmuna – er voðinn vís.

Blaðamenn hafa venjulega mjög mikinn vara á þegar vitnað er í nafnlausa heimildarmenn. Það er einungis gert ef talið er að það steðji raunveruleg hætta að heimildinni eða aðrir slíkir hagsmunir séu í húfi. Hugmyndin er ekki sú að spara fólki þau óþægindi að koma upp um afstöðu sem getur valdið öðrum sárindum.

Stjórnendur fjölmiðla á Íslandi hljóta að velta fyrir sér þessa dagana hvort ekki sé tilefni til að endurskoða reglur um nafnlausan fréttaflutning. Kjósendur eiga heimtingu á því frá kjörnum fulltrúum að þeir gefi upp afstöðu sína til þeirra mála sem upp koma. Fjölmiðlar eru mikilvægasti bandamaður kjósenda í að tryggja að stjórnmálamenn standi við þessar skyldur sínar og komist ekki upp með að breyta stjórnmálum í barnalegan sandkassaleik þar sem illmælgi og gróusögur verða mikilvægari heldur en sannfæringarkraftur og góðar hugmyndir.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.