Djúp lægð á leiðinni

Blikur eru á lofti í íslensku efnahagskerfi og staða mála er grafalvarleg. Bankakreppa er skollin á. Húsnæðismarkaðurinn gefur eftir og hrun hefur átt sér stað á hlutabréfamarkaðnum. Meðan á þessu stendur eru vextir alltof háir en krónan veikist engu að síður. Ljósið í myrkrinu er að aðilar á vinnumarkaði hafa skrifað undir nýja kjarasamninga sem þýðir að friður mun ríkja á vinnumarkaði að svo stöddu.

Margt bendir til þess að miklir erfiðleikar séu framundan í íslensku efnahagslífi. Lausafjárkreppan er orðin áþreifanleg og bankar hafa skrúfað fyrir útlán til viðskiptavina. Fyrirtæki sem og einstaklingar eiga nú mun erfiðara um vik við að fá fjármögnun og himinháir vextir hjálpa ekki til. Komið er að skuldadögum og það ekki bara hjá almenningi heldur líka stóru bönkunum. Greiða þarf fyrir útgáfu á krónubréfunum. Skuldatryggingaálag bankanna er hins vegar það hátt um þessar mundir að erfitt mun reynast fyrir þá að fjármagna skuldbindingar sínar á næstu mánuðum og misserum. Nú reynir á stjórnendur bankanna og þá jafnframt hvort þeir eru verðugir háu launa sinna. Ummæli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um stöðu bankanna eru áhugaverð í þessu sambandi.

Ákvörðun Seðlabanka Íslands, sl. fimmtudag, um að lækka ekki vexti undirstrikar svo ekki verður um villst að vandræði eru framundan. Ákvörðun bankans ein og sér er áfall og erfitt að sjá hvenær bankinn telur tímabært að hefja vaxtalækkunarferlið ef ekki núna. Svo virðist sem vaxtastefnan hafi komið bankanum í slíka sjálfheldu að vonlaust er að ætlast til þess að það takist að brjótast út úr þessum vítahring nema löggjafinn skeri Seðlabankann niður úr snörunni, t.d. með löggjöf um annað verðbólgumarkmið. Líkja má stöðu bankans nú við hljómsveitarstjóra sem kann nóturnar á blaðinu út og inn en heyrir alls ekki og vill ekki heyra tónlistina sem hljómsveitin er að spila.

Á meðan vextir haldast áfram svona háir líða fyrirtæki og almenningur í landi fyrir það. Erfitt er að sjá hvernig atvinnulífið getur til lengri tíma búið við slíka vexti án þess að eitthvað láti undan. Þrátt fyrir háa vexti hefur krónan engu að síður gefið eftir hægt og sígandi og mun sennilega halda áfram að veikjast áfram á þessu ári. Veiking krónunnar leiðir til hækkunar verðlags sem aftur eykur verðbólguþrýsting. Vaxtastefna Seðlabankans er þannig með öllu gagnslaus í baráttunni gegn verðbólgunni. Horfast verður í augu við það að ekki mun takast að eyða verðbólgunni með háum vöxtum sem eiga að halda genginu uppi. Ráðlegast í stöðunni er sennilega að hleypa verðbólgunni í gegnum hagkerfið meðan brotist er út úr vítahringum og áður en framleiðslufyrirtæki og heimili láta undan álaginu.

Heimili landsins eru skuldug og greiðslubyrði þeirra er að þyngjast. Nýir kjarasamningar og boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu hafa áhrif og létta undir með þeim sem lægstu laun hafa og höllum fæti standa fjárhagslega. Á móti kemur að hækkun launataxta þyngir rekstur margra fyrirtækja sem munu þurfa leita leiða til að hagræða og ná niður rekstrarkostnaði. Það gætti þýtt fækkun stöðugilda og aukið þannig á atvinnuleysi. Staða útflutningsfyrirtækja er þó ekki eins slæm í ljósi veikingar krónunnar en hafa ber í huga að sjávarútvegsfyrirtækin standa nú þegar mjög höllum fæti vegna niðurskurðar aflaheimilda og skuldsetningar þannig veiking krónunnar gerir lítið annað en að bæta slæma stöðu örlítið.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í Silfri Egils í gær, að kreppa væri ekki yfirvofandi í íslensku atvinnulífi en staða mála væri alvarleg. Rétt er hjá forsætisráðherra að sennilega er ekki í vændum alvöru kreppa þar sem fólk, þúsundum saman, missir vinnuna á einu bretti og eigi ekki fyrir salti í grautinn. En samkvæmt ofansögðu þarf ekki margt að fara úrskeiðis svo lífskjör hér versni frá því sem verið hefur. Sem betur fer hafa Íslendingar búið vel í haginn undanfarin ár og verðmætaaukning í þjóðfélaginu verið mikil þannig fyrirtæki og heimili eiga að geta staðið af sér óveður og ólgusjó. En það verður ekki átakalaust og ágætt ef menn fara átta sig á því.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.