Ríkið, ESB og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi

Á Íslandi tíðkast talsvert samráð milli stjórnvalda og hagsmunaaðila eins og annars staðar á Norðurlöndunum. Í þeim efnum eru sjávarútvegsmál engin undantekning.

Á Íslandi tíðkast talsvert samráð milli stjórnvalda og hagsmunaaðila eins og annars staðar á Norðurlöndunum. Í þeim efnum eru sjávarútvegsmál engin undantekning. Í skýrslunni -Fiskveiðiauðlindin, Ísland og Evrópusambandið- frá 2004 sem unnin var af starfshópi á vegum utanríkis- og sjávarútvegsráðuneytsins og hagsmunasamtaka í íslenskum sjávarútvegi er að finna áhugaverða lýsingu á tengslum hagsmunaaðila og stjórnvalda:

„[A]ð málum koma yfirleitt ríkisvald og hagsmunaaðilar og hægt [er] að ljúka málum skilvirkt og á skömmum tíma […] Óformlegt samband stjórnvalda og hagsmunaaðila er einnig stundum virkt, og unnt er að taka ákvarðanir um tæknilegar verndaraðgerðir hratt, í samvinnu stjórnvalda, vísindamanna, útgerðar og sjómanna.“

Jafnframt kemur fram í skýrslunni að það sé grundvallaratriði að allar ákvarðanir séu teknar í svo miklu samráði við atvinnugreinina sem unnt er. Íslenskt samfélag sé þannig að boðleiðir milli atvinnugreina og stjórnvalda séu stuttar. Það gefi einstakt tækifæri til að gera ákvarðanir þannig úr garði að þær mæti skilningi þeirra sem þeim fylgja og þar með náist frekar það markmið sem að sé stefnt með reglusetningunni.

Segja verður að samstarf íslenska ríkisins og LÍÚ hafi verið það náið að oft á tíðum hafi mörkin á milli LÍÚ og ríkisvaldsins verið ógreinileg. Taka má nokkur dæmi þessu til stuðnings. Í samningsnefnd Íslands sem náði samkomulagi um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í janúar 2007 sátu þrír menn, fulltrúar utanríkis-, og sjávarútvegsráðuneytisins og svo framkvæmdastjóri LÍÚ. Á fyrsta fundi aðila strandríkjasamnings um stjórnun kolmunnaveiða sem fór fram í október 2006 var annar þeirra er skipaði sendinefnd Íslands stofnvistfræðingur LÍÚ. Á 27. fundi fiskimálanefndar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem fram fór í byrjun mars 2007 var stofnvistfræðingur LÍÚ einn af sjö nefndarmönnum. Á síðasta ári tók sami stofnvistfræðingur þátt í fyrri viðræðulotunni um fiskveiðiályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóri LÍÚ, í síðari viðræðulotunni. Það hafa þeir varla gert með öðru móti en að vera í sendinefnd Íslands. Í ljósi þessara upplýsinga þarf engar málalengingar til að sýna fram á að LÍÚ hafi mjög mikil áhrif á málefni hafsins og þá einkum þau er lúta að auðlindanýtingu þess.

Málum er öðruvísi hagað hjá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Bent hefur verið á að hlutur hagsmunaaðila í sjávarútvegi í ákvarðanatökuferlinu innan Evrópubandalagsins sé rýr. Í núgildandi reglugerð um vernd og sjálfbæra nýtingu fiskiauðlinda innan hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu nr. 2371/2002 er komið til móts við þessa gagnrýni að nokkru leyti. Í 31. gr. reglugerðarinnar er t.a.m. kveðið á um svæðisbundin ráðgjafarráð er gegna því hlutverki að vera framkvæmdastjórninni til ráðgjafar um fiskveiðistjórnun á ákveðnum haf – eða fiskveiðisvæðum. Þrátt fyrir að hagsmunaaðilar séu nú í meira mæli hafðir með í ráðum við ákvarðanatökuna hjá framkvæmdastjórninni verður að telja að langt sé í land að þeir séu jafn nátengdir ákvarðanatökuferlinu eins og á Íslandi. Það verður því að telja líklegt að áhrif LÍÚ myndu minnka ef Ísland gengi í ESB. Af skýrslunni Fiskveiðiauðlindin, Ísland og Evrópusambandið virðist sem íslenskum hagsmunaaðilum sé kunnugt um þetta. Hlýtur sú vitneskja að hafa neikvæð áhrif á afstöðu öflugasta hagsmunahóps á sviði sjávarútvegs á Íslandi til aðildar Íslands að ESB.