Hver tapaði stærst í New Hampshire?

Enginn vafi leikur á því að John McCain og Hillary Clinton eru sigurvegarar forvalsins sem fram fór í New Hampshire í gær. Mitt Romney tapaði illa, aftur, og Obama náði ekki að reiða Hillary náðarhöggið. En hvorugur þeirra beið þó stærsta ósigurinn, því hann féll í hlut sjónvarpstöðvarinnar ógeðfelldu, Fox News.

John McCain og Hillary Clinton sigruðu óvænt og glæsilega í forvali stóru flokkanna tveggja í New Hampshire í gær. Hillary þurfti nauðsynlega á sigri eftir slæman skell fyrir Barak Obama í Iowa í síðustu viku, ósigur í New Hampshire hefði svo gott sem gert út um vonir hennar um að hljóta útnefningu demókrata. Sigur Johns McCain var ámóta kærkominn. Fyrir hálfu ári var kallinn staurblankur og rúinn fylgi en á nú góða möguleika á að hljóta útnefningu repúblikana í algjörri vanþökk flokkseigendafélagsins sem styður Mitt Romney með ráðum og dáð.

Mitt Romney var sá úr frambjóðanda beggja flokka sem fékk mestan skell í gær. Kannanir höfðu bent til þess að mjótt yrði á munum hjá repúblikönum en fljótlega eftir að fyrstu tölur bárust lýstu talnaspekingar yfir sigri McCains og stuðningsmenn hans fögnuðu hinu aldurhnigna forsetaefna með slagorðinu „Mac is back“. Barak Obama mátti sætta sig við ósigur þrátt fyrir skoðanakannanir og útgönguspár bentu til stórsigurs hans yfir Hillary. Engu að síður er Obama enn mjög sigurstranglegur í flokki demókrata og gera má ráð fyrir að aðrir frambjóðendur en Hillary og Obama dragi sig fljótlega í hlé, þ.á m. John Edwards sem beið afroð í New Hampshire í gær.

En Romney, Obama og Edwards voru ekki þeir einu sem þola máttu ósigur í gær. Úrslitin urðu sjónvarpsstöðinni Fox News eflaust mikið áfall. Útsendingar stöðvarinnar eiga ekkert skylt við fréttaflutning heldur eru þær samfelldur áróður fyrir þá sem stöðinni eru þóknanlegir og um leið og kannski frekar linnulausar árásir á þá sem stöðinni geðjast ekki að. Fremst í flokki þeirra síðarnefndu eru einmitt sigurvegarar gærkvöldsins, þau John McCain og Hillary Clinton. Fox News er nátengd innsta valdakjarna Repúblikanaflokksins, eða flokkseigendafélaginu, og gerir ekki minnstu tilraun til að dylja þá staðreynd – sem er virðingarvert á fremur súrrealískan hátt.

Þegar ljóst var að McCain hafði unnið og hann hafði haldið ræðu fyrir stuðningsmenn sína voru fyrstu viðbrögð þáttastjórnanda Fox á þá leið að McCain hefði reynt að koma fram með göfugum hætti (noble) í ræðunni gagnvart mótherjum sínum í repúblikanaflokknum og bætti svo við: „McCain will probably benefit from the perception that he is noble.“ Sigur McCains var hins vegar of afgerandi til að þátttastjórnendur gætu fundið á honum frekari höggstað. Ljóst er að ef Mitt Romney fellur úr leik, sem gæti gerst nái hann ekki sigra í næsta forvali sem fram fer í Michigan (leiðrétt), þá er flokkseigendafélaginu vandi á höndum, því enginn af líklegum kandídötum sem þá væru eftir er því þóknanlegur.

Viðbrögð Fox við sigri Hillary Clinton einkenndust af sömu fyrirlitningu og í tilviki McCains. Mest var gert úr því af hálfu þáttastjórnenda að Hillary hefði mánuðum saman haft mikla yfirburði í New Hampshire og því væru úrslitin ekkert gleðiefni fyrir hana, munurinn hefði verið það lítill. Ekki er þó lengra síðan en í gær að skoðanakannanir sýndu Obama með verulegt forskot á Hillary í ríkinu, rúmlega 10 prósent í sumum könnunum. Fox flutti enda af því ítrekaðar fréttir í allan gærdag að kosningateymi Hillary væri að liðast í sundur og þreyttist stöðin ekki á því að sýna áhorfendum myndskeið af því er Hillary beygði af í samræðum við kjósendur á opnum fundi. Það þótti þáttastjórnendum Fox mikið veikleikamerki og töldu uppákomunu mundu endanlega gera út af við vonir Hillary, allt þar til úrslitin lágu fyrir í gær en þá gáfu þeir í skyn að þessi uppákoma hefði verið úthugsað sjónarspil af hálfu Hillary og hennar manna til að ná í fylgi meðal kvenna. Það er sumsé bæði sleppt og haldið á Fox – eftir þörfum.

Það er auðvitað algjörlega fráleitt að halda því fram að sigur Hillary í New Hampshire í gær hafi verið neitt annað en glæsilegur. Endurkoma Liverpool í bikarúrslitaleiknum við West Ham sl. vor, þar sem þeir rauðu lentu tveimur mörkum undir en náðu að jafna á lokamínútunum og sigra í vítaspyrnukeppni, var glæsilegt afrek, þrátt fyrir að Liverpool hefði verið talið sigurstranglegra liðið áður en flautað var til leiks. Sama máli gegnir um Hillary, Obama og forvalið í New Hampshire.

Það er fyllsta ástæða til að gefa Fox áróðursmaskínunni gaum. Stöðin mótar þankagang og heimsmynd milljóna Bandaríkjamanna, einkum (eða öllur heldur eingöngu) stuðningsmanna Repúblikanaflokksins og getur haft veruleg áhrif á það hvaða frambjóðandi verður tilnefndur forsetaefni flokksins fyrir forsetakosningarnar næstkomandi nóvember. Eins og áður hefur verið bent á hér á Deiglunni, í pistlinum Skítkast sem virkaði, réði áróðursmaskína flokkseigendafélagsins í Repúblikanaflokknum miklu um það að John McCain laut í lægra haldi fyrir George W. Bush í forvali flokksins fyrir forsetakjörið árið 2000. Fox News er hornsteinn þeirrar maskínu og gera má ráð fyrir að nú verði spjótunum beint að McCain á næstu vikum og mánuðum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir útnefningu hans.

Íslenskir stjórnmálamenn telja á köflum að einstakir fjölmiðlar halli á þá í fréttaflutningi sínum og eflaust er eitt og annað til í þeim kenningum. Hlutlausi blaðamaðurinn sem skrifar af fullkominni hlutlægni, óháð eigin skoðunum og gildismati, er auðvitað ekki minni firra en hamingjusama hóran. En sem betur fer hefur íslensk fjölmiðlun ekki enn sokkið í það fúafen sem er kjörlendi Fox News vestan hafs.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.