Kolefnisskattar og kolefnistollar

Gróðurhúsaáhrif af völdum kolefnisútblásturs eru klassískt dæmi um það sem hagfræðingar kalla ytri áhrif. Hin klassíska lausn við ytri áhrifum í hagfræði er að leggja skatt á þann sem veldur þeim sem er jafn hár kostnaðinum sem aðrir aðilar bera af athæfi hans. Eitt vandamál við slíka skatta þegar kemur að kolefnisútblæstri er að þeir geta leitt til þess að útblásturinn er fluttur úr landi.

Gróðurhúsaáhrif af völdum kolefnisútblásturs eru klassískt dæmi um það sem hagfræðingar kalla ytri áhrif. Kolefnisútblásur er sagður hafa í för með sér ytri áhrif þar sem hann veldur öðrum aðilum kostnaði en þeim sem til hans stofnar. Kolefnisútblástur veldur hlýnun jarðar sem veldur ursla um allan heim. Þar sem mengarinn ber ekki allan kostnaðinn af útblæstri sínum velur hann að menga meira en er þjóðhagslega hagkvæmt.

Hin klassíska lausn við ytri áhrifum í hagfræði er að leggja skatt á þann sem veldur þeim sem er jafn hár kostnaðinum sem aðrir aðilar bera af athæfi hans. Slíkur skattur veitir þeim sem er t.d. að menga rétta hvata varðandi það að velja að menga þar til heildarjaðarkostnaðurinn af því að menga er jafn jaðarábatanum. Skatturinn tryggir þannig þjóðhagslega hagvæma notkun þeirra auðlinda sem um ræðir. Skattar af þessu tagi eru oft kallaðir grænir skattar.

Eitt vandamál við græna skatta þegar kemur að kolefnisútblæstri er að þeir geta leitt til þess að útblásturinn er fluttur úr landi. Ef eitt land leggur skatt á kolefnisútblástur á meðan önnur lönd gera það ekki getur skatturinn leitt til þess að framleiðsla varnings sem notar mikla orku er einfaldlega fluttur úr landi og varan síðan flutt inn. Þar sem hlýnun jarðar er alþjóðlegt vandamál sem hefur með heildarútblástur á jörðinni að gera grefur slíkur flutningur undan áhrifum skattsins. Skatturinn skekkir einnig ákvarðanir um staðarval fyrirtækja á óhagkvæman hátt.

Þetta vandamál er hins vegar unnt að leysa með því að leggja kolefnistoll á vörur sem fluttar eru inn frá löndum sem ekki leggja á kolefnisskatt. Hér á ég við að tollur væri lagður á vörur eftir því hversu mikið óskattlagt kolefni var brennt við framleiðslu þeirra. Slíkur tollur myndi tryggja að kolefnisskatturinn hefði einungis þau áhrif að hækka verð á vörum í réttu hlutfalli við það kolefni sem brent er við framleiðslu þeirra og þannig tryggja hagkvæma notkun kolefnis. Hann myndi tryggja að kolefnisskatturinn ylli ekki óhagkvæmum flutninum fyrirtækja til landa sem ekki skattleggja kolefni.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.