Hvaða skyldur fylgja toppsætinu?

Við Íslendingar búum nú við bestu lífskjör allra þjóða í heiminum. Þessi staðreynd liggur nú opinberlega fyrir. En leggur þessi góða staða auknar skyldur á herðar Íslendingum og gildir þá sama hvort um sé að ræða þróunarstoð eða umhverfismál á heimsvísu?

Við Íslendingar búum nú við bestu lífskjör allra þjóða í heiminum. Þessi staðreynd liggur nú opinberlega fyrir. En leggur þessi góða staða auknar skyldur á herðar Íslendingum og gildir þá sama hvort um sé að ræða þróunarstoð eða umhverfismál á heimsvísu?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði í viðtali við nýtt sjónvarp fréttavefjar Morgunblaðsins í gær að sú staðreynd að að lífskjör á Íslandi skuli mælast þau bestu í heiminum leggi miklar skyldur á herðar á Íslendingum og nefndi sérstaklega þróunaraðstoð í því sambandi. Það er óvitlaus athugasemd hjá utanríkisráðherra að sú staðreynd að Ísland trónir á toppi lista Sameinuðu þjóðanna um bestu lífskjör meðal þjóða leiði til þess að við ættum að verja meira fé til þróunarmála en nú er gert.

Auðvitað erum við Íslendingar aflögufærir og ættum að láta meira af hendi rakna til þeirra sem búa við örbirgð. Þegar eymd fólks í þriðja heiminum er höfð í huga blasir auðvitað við hvers konar smekkleysi það er að básúna um fátækt í íslensku samfélagi, eins og gjarnan er gert.

Sú takmarkaða þróunaraðstoð sem Íslendingar veita nú er að mestu leyti á herðum ríkissjóðs. Það er raunar engin ástæða fyrir því að þróunaraðstoð sé bundinn við framlög úr ríkissjóði, eins og Jón Steinsson benti á í pistli sínum hér á Deiglunni fyrir rúmum sex árum:

„Raunar er engin ástæða fyrir okkur að treysta á stjórnvöld í þessu sambandi. Hvert og eitt okkar getur lagt sitt að mörkum með því að gefa reglulega til stofnana eins og Oxfam og Unicef. Stjórnvöld ættu að ýta undir slík framlög með því að gera þau frádráttarbær frá skatti. En stjórnvöld geta gengið lengra og gefið fólki val á skattframtalinu sínu um það hversu stór hluti af sköttum þess það vill að renni í þróunaraðstoð. Valið gæti til dæmis verið frá 0-5%.“

Þetta rímar vel við áeggjan utanríkisráðherra og slík jákvæð hvatning til skattgreiðenda myndi vafalítið auka verulega við þá fjármuni sem Íslendingar veita vanþróuðum ríkjum. Við myndum þannig deila af fúsum og frjálsum vilja okkar góðu kjörum með þeim jarðarbúum sem búa við eymd og raunverulega fátækt.

Hvað varðar auknar skyldur Íslands í umhverfismálum í ljósi þeirra góðu lífskjara sem hér eru, þá er það hæpnari fullyrðing. Ísland er eitt fárra ríkja sem stendur við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-samkomulaginu og Íslendingar standa framar flestum þjóðum heims í notkun vistvænna orkugjafa með yfir 70% af heildarorkunotkun úr endurnýjanlegum orkulindum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefur lýst þeirri skoðun sinni að hagsmunir Íslendinga ættu að víkja fyrir allsherjartakmörkunum í næstu lotu loftslagsráðstefnunnar, Íslendingar ættu ekki að skorast undan. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur aftur á móti sagt að hagsmunir Íslendinga eigi að sitja í fyrirrúmi og að minna svigrúm sé fyrir okkur að draga úr losun s.k. gróðurhúsalofttegunda en aðrar þjóðir í ljósi þess hversu hátt hlutfall af orkunotkun kemur úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Hafa verður í huga að hér ræðir um þjóðréttarlegar skyldur og skuldbindingar Íslands. Á þeim vettvangi ber þjóðarleiðtogum að gæta að hagsmunum þjóðar sinnar, þótt í því geti falist ýmis konar undanþágur eða frávik – eins og það sem sumir kalla „íslenska ákvæðið“ í Kyoto-bókuninni.

Má í því sambandi nefna að þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu báru erindrekar okkar gæfu til að semja um margvísleg „íslensk ákvæði“ sem voru frávik frá almennum reglum en mjög til hagsbóta fyrir Íslendinga. Einnig mætti nefna þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu sem ríkisstjórnin styður. Í þeim félagsskap er Ísland eina ríkið sem ekki hefur vígbúinn her til reiðu, þ.e. við Íslendingar skorumst undan því. Umhverfisráðherra vill væntanlega ekki breyta því.

Við Íslendingar höfum sem mest velmegandi þjóð heims margt fram að færa í umhverfismálum. Vegur þar þyngst þekking okkar og reynsla af nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa sem þjóðir heimsins líta í vaxandi mæli til. Umhverfisráðherra er í óskastöðu í komandi samningalotu að gera kröfu um aukna notkun slíkra orkugjafa og bjóða öðrum þjóðum jafnframt aðstoð okkar Íslendinga í því augnamiði. Með því myndum við leggja okkar lóð á vogaskálarnar í umhverfisvernd á heimsvísu með raunverulegum hætti.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.