Fullkomið fullveldi

Síðastliðinn föstudag kynnti George W. Bush, Bandaríkjaforseti, nýja herfræðikenningu stjórnar sinnar. Er hún þáttur í nýrri stefnu sem felur það meðal annars í sér að Bandaríkin taki í auknum mæli ákvarðanir án samráðs við önnur ríki og framkvæmi þær einhliða. Í þessari grein eru færð fyrir því rök að neikvæðar afleiðingar slíkrar stefnu verði meiri en þær jákvæðu.

Síðastliðinn föstudag kynnti George W. Bush, Bandaríkjaforseti, með formlegum hætti nýja herfræðikenningu stjórnar sinnar. Kenning þessi kveður meðal annars á um réttmæti hernaðaraðgerða í forvarnarskyni (e. preemptive action) á spennu- og hættutímum. Er hér um að ræða brotthvarf frá fyrri stefnu bandarískra stjórnvalda, sem byggði á fælingarmætti bandaríska hersins – óvinaríki vissu að hart yrði brugðist við árásum á Bandaríkin og héldu því að sér höndum.

Þessi nýja stefna er sögð svar við þeirri hryðjuverkaógn sem að Vesturlöndum steðjar, en hún er einnig hluti af nýrri sýn á hvernig Bandaríkin eigi að beita valdi sínu á alþjóðavettvangi. Bandaríkin eigi ekki að vera eins háð öðrum ríkjum og alþjóðastofnunum og þau eru nú, og eigi í auknum mæli að taka einhliða ákvarðanir um málefni svo sem hugsanlega árás á Írak.

Rök þau sem stefnan byggir á eru í megindráttum tvenns eðlis.

Annars vegar er um að ræða hugmyndafræðileg rök sem eiga upptök sín meðal íhaldsarms Repúplikanaflokksins. Samkvæmt þeim er fullveldi ríkisins nánast heilagt og allar aðgerðir og stofnanir sem takmarka það af hinu illa. Málsvarar þessara hugmynda eru t.d. á því að alþjóðasáttmálar, svo sem sáttmálarnir um stofnun Alþjóða sakamáladómstólsins og bann við kjarnorkutilraunum, hefti um of fullveldi Bandaríkjanna og stefni öryggi þegna og þjóðar í hættu.

Í öðru lagi eru sumir ráðamenn í Washington á þeirri skoðun að alþjóðlegar skuldbindingar og sáttmálar, sem takmarki athafnafrelsi Bandaríkjanna, séu til trafala í stríðinu gegn hryðjuverkum. Eru þeir á því að Bandaríkin séu svo valdamikil, bæði á sviði efnahags- og varnarmála, að ekki sé lengur nauðsynlegt að taka tillit til bandamanna meðal annarra ríkja.

Þótt ofangreindir menn hafi nokkuð til síns máls verður ekki fallist á þá niðurstöðu að Bandaríkjamenn eigi að láta alþjóðasamfélagið lönd og leið. Burtséð frá því að „forvarnarstefna” Bush getur trauðla fallið undir 51. grein stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt ríkja til sjálfsvarnar, getur það hreinlega komið Bandaríkjamönnum í koll falli þeir ekki frá hinni nýju stefnu um einhliða ákvarðanatöku og valdbeitingu á alþjóðavettvangi.

Helst er þar að nefna að „forvarnarstefnan” getur haft gríðarleg óæskileg áhrif á stöðugleika í heiminum. Ef Bandaríkjamenn halda því fram að þeir geti, einhliða, metið hvort þeim muni stafa hætta af tilteknu ríki þegar fram líða stundir og hvort grípa skuli til vopna gegn því, er ekkert sem kemur í veg fyrir að önnur ríki taki sér sama rétt. Er æskilegt að Pakistan eða Kína taki sér það vald að vera dómari og böðull á alþjóðavettvangi? Treystum við stjórnvöldum þessara ríkja til að beita því valdi á hlutlausan hátt?

Bandaríkjastjórn ætti heldur ekki vanmeta gagnsemi þess að viðhalda góðum tengslum við aðrar þjóðir. Í baráttunni við hryðjuverkamenn þurfa bandarísk stjórnvöld upplýsingar frá erlendum lögreglu- og leyniþjónustustofnunum. Til að geta háð þau stríð sem hugsanlegt er að heyja þurfi, munu þau þurfa aðgang að flugvöllum víðs vegar um heiminn og samvinnu þeirra ríkja sem eiga landamæri að óvinaríkjum Bandaríkjanna. Þau þurfa samvinnufús stjórnvöld í öðrum ríkjum til að víkka og viðhalda alþjóðlegu samstarfi á sviði efnahags- og umhverfismála og í baráttunni við alþjóðleg glæpasamtök og peningaþvætti.

Það er í hæsta máta ólíklegt að erlend stjórnvöld sætti sig við að gengið sé framhjá þeim við ákvarðanatöku á sviði öryggis- og varnarmála og haldi svo áfram „business as usual” á öðrum sviðum.

Hafa verður í huga að þrátt fyrir að herir fæstra, ef nokkurra, ríkja eiga roð í þann bandaríska, geta erlend stjórnvöld látið óánægju sína í ljósi með efnahagslegum aðgerðum, svo sem hækkun tolla á bandaríska framleiðslu. Bandaríkjamenn hafa hagnast mikið eftir að frelsi á alþjóðlegum viðskipta- og fjármálamörkuðum var aukið og ættu þeir ekki að stefna þeim ávinningi í hættu í nafni fullkomins fullveldis.

Fullkomið fullveldi, sé slíkt fyrirbæri yfirhöfuð til, kemur til með að kosta Bandaríkjamenn aukið ójafnvægi og óstöðugleika á alþjóðavettvangi og minni samvinnu ríkja á sviðum viðskipta og fjármála.

Bandaríkjamenn, og heimurinn allur, mega ekki við slíkum kostnaði.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)