Taktu nokkur lög og farðu svo heim

Það vekur óneitanlega upp óþægilegar minningar, þegar listamenn sem troða upp á stærstu tónlistarhátíð á Íslandi geta ekki keypt miða á sömu hátíð sem venjulegir gestir. Ungt er hið nýja svart.

Það vekur óneitanlega upp óþægilegar minningar, þegar listamenn sem troða upp á stærstu tónlistarhátíð á Íslandi geta ekki keypt miða á sömu hátíð sem venjulegir gestir. Ungt er hið nýja svart.

Hin heimskulegu lög um fáranlega háan áfengiskaupaaldur á Íslandi gera það að verkum að auðvitað vill engin heilvita skemmtistaðareigandi fá nokkurn undir tvítugu inn fyrir þröskuldinn, þrátt fyrir að lögum samkvæmt mega þeir sem eru orðnir 18 ára vera þar. En auðvitað vill enginn fylla staðinn sinn af mönnum sem annað kaupir sér bjór ólöglega og skaðar þannig staðinn eða kaupir hann ekki og skaðar staðinn enn meira.

Um þessa helgi fer fram mesta tónlistarveisla ársins á Íslandi, Iceland Airwaves. Sú hátíð er eins og margt annað gott á Íslandi, bönnuð þeim sem eru yngri en 20 ára. Ég held að það sé torfundið þjóðfélag í Evrópu þar sem einhverjum gæti dottið í hug að hafa tónleika með svona fáranlega háu aldurstakmarki. Aldurstakmarkið á Hróaskeldu er þannig 15 ár.

Enda er varla til sá tími sem fólk spáir meira í tónlist en menntaskólaár. Það sést líka best á því að flestir listamenn byrja sinn tónlistarferil einmitt þá. Og það er í raun einmitt slíkir listamenn sem hátíðir eins og Iceland Airwaves að ganga út á. Enda eru alltaf heilmörg menntaskólabönd sem troða upp á Hátíðinni. Til dæmis Retro Stefson, <3Svanhvít eða hinar bandarísku telpur í Smoosh, sem eru einungis 15 ára. Þetta fólk er nógu gamalt til að syngja fyrir okkur, en bara ekki nógu gamalt til að horfa á aðra syngja. Almennt séð mætti summa upp framboð af skemmtun fyrir ungt fólk á Íslandi með orðunum “étiði öll skít”. Og það sem verra er, hefur þeirri hugmyndafræði vaxið ásmegin að undanförnu. Nú má hálfþrítugt fólk ekki lengur tjalda á mörgum tjaldsvæðum til að hálffertugt fólk geti drukkið fernuvínið sitt í friði. Fyrir “ólatunum”. Auðvitað mun einhver segja að ungt fólk í framhaldsskóla ætti bara að vera að læra heima og fara snemma að sofa í stað þess að þvælast á tónleikum fram á nótt. En það á raunar við okkur öll. Við ættum auðvitað öll að skipta pöbbarölti út fyrir útiskokk og drykkju út fyrir jóga. En við höfum leyft fólki að ráðstafa sínum frítíma að mestu sjálf, því annars væri þetta nú ekki mikill frítími. Ungt fólk, allavega þeir sem eru orðnir 18 ára, ætti líka að fá að ráðstafa sínum frítíma í tónleika ef það kýs. Við treystum þeim jú fyrir flestu öðru.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.