Verslun með áfengi verði frjáls

Stuðningsmenn ríkiseinokunar beita fyrir sig nýstárlegri röksemdafærslu á Alþingi þessa dagana. Þeir segja ótækt að svo ábatasöm verslun verði í höndum annarra en ríkisins. Þarf frekari vitnana við?

Frumvarp um frjálsa sölu áfengis hefur nú verið lagt fram á Alþingi enn eina ferðina. Flutningsmenn frumvarpsins eru sautján talsins úr þremur stjórnmálaflokkum. Sigurður Kári Kristjánsson er fyrsti flutningsmaður og tekur hann við keflinu af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, og Vilhjálmi Egilssyni, fyrrverandi þingmanni.

Með frumvarpinu er lagt til að einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með annað áfengi en sterkt áfengi verði aflögð. Í greinargerð með frumvarpinu segir að breytingin á verslun með áfengi og tóbak sem lögð er til í frumvarpinu sé að aðrir en ríkið fái að sjá um smásölu léttvíns og bjórs eins og á öðrum sviðum en ekki sé um að ræða breytingu á áfengisstefnu, áherslum í tóbaksvörnum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði. Þó sé lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sjái eitt um sölu sterks áfengis en verði áfram heimilt að dreifa öllu áfengi í heildsölu og smásölu.

Í umræðum á Alþingi síðustu daga um mál þetta hafa tekist á andstæð sjónarmið þar sem þingmenn Vinstrigrænna og Frjálslynda flokksins tala ákaft gegn þeirri frjálslyndu hugsun sem að baki frumvarpinu liggur. Mestu áhyggjurnar virðast þessir aðilar hafa af því að ríkið láti þennan ábatasama verslunarrekstur í hendur einkaaðila og verði þar með af miklum tekjum.

Þetta eru athyglisverð rök og raunar óskiljanlegt að þessir þingmenn láti staðar numið við verslun með áfengi í röksemdafærslu sinni. Dæmin sýna að margvíslegur verslunarrekstur getur gefið af sér mikinn ábata. Til dæmis væri gráupplagt að banna verslun með bleyjur og færa þau viðskipti alfarið til ríkisins. Spara mætti mikið á magninnkaupum, gera ætti langtímaætlun um innkaup og söluþróun með hliðsjón af rannsóknum Hagstofunnar um fólksfjöldaþróun og þannig mætti áfram telja. Það er auðvitað fráleitt að verslun með slíka nauðsynjavöru sé skilin á glámbekk eftir til að auðmennirnir geti grætt á henni…

Einokun ríkisins á verslun með áfengi er auðvitað algjör tímaskekkja eins og málflutningur vinstrigrænna og „frjálslyndra“ færir okkur heim sanninn um.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.