Spilltasta ríki í heimi

Það getur verið erfitt að ímynda sér hvernig það er að búa við aðstæður þar sem að lýðræði er fótum troðið ásamt málfrelsi og öðrum grunndvallarréttindum borgaranna þegar að maður býr í velsældarsamfélagi á borð við Ísland. Þessa dagana beinast augu alls heimsins að einu ríki öðrum fremur þar sem þegnarnir lifa skilyrtri tilveru upp á náð og miskunn yfirvalda sem ríkja í krafti vopnavalds í stað lýðræðis.

Augu alls heimsins beinast þessa dagana að einu ríki öðrum fremur þar sem þegnarnir lifa skilyrtri tilveru upp á náð og miskunn yfirvalda sem ríkja í krafti vopnavalds í stað lýðræðis. Asíuríkið Búrma, einnig nefnt Mjanmar, er lögregluríki þar sem herforingjastjórn fer með völdin í stað þeirra stjórnmálaafla sem íbúar Búrma kusu sér í lýðræðislegum kosningum fyrir sautján árum. Þegar niðurstöður kosninganna voru ljósar sá herforingjastjórnin sitt óvænna og ógilti kosningarnar.

Af öllum ríkjum heimsins er Búrma það spilltasta að því er fram kemur í skýrslu stofnunarinnar Transparency International sem kom út í síðustu viku. Búrma deilir þeim vafasama heiðri með Afríkuríkinu Sómalíu í árlegri skýrslu stofnunarinnar þar sem mat er lagt á spillingu í ríkjum heims. Búrma hefur undanfarin ár verið metin með spilltustu ríkjum heims en lendir í ár á botni listans.

Undanfarið hafa fréttir borist af fjöldamótmælum í Búrma undir forystu friðsamra Búddamunka. Fyrst um sinn hélt herforingjastjórnin að sér höndum en lét að lokum sverfa til stáls. Talið er að um tvöhundruð manns liggi í valnum eftir aðgerðirnar síðustu daga, þar af fjöldi Búddamunka. Þó er erfitt að staðfesta fregnir frá Búrma þar sem að herforingjastjórnin hefur gert sitt besta til að kæfa fréttaflutning af atburðunum. Eins og kemur fram í öðrum Deiglupistli um ástandið í Búrma er mjög þrengt að fjölmiðlastarfsemi í landinu og hefur einungis lítill hluti þeirra 50 milljón manna sem búa í Búrma aðgang að nokkurs konar fjarskiptatækni. Auk þess hefur herforingjastjórnin gripið til þess ráðs að rjúfa internetsamband og símasamband er stopult.

Þetta eldfima ástand í Búrma ber upp á sama tíma og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Það hefur án efa valdið auknu alþjóðlegu kastljósi á atburðina þar sem þjóðarleiðtogar á allsherjarþinginu hafa hver af öðrum lýst yfir áhyggjum og vandlætingu á ástandinu í Búrma. Þrátt fyrir það eru ekki horfur á því að alþjóðasamfélagið muni gera mikið til að rétta mótmælendum í Búrma hjálparhönd. Bandaríkin hafa sett viðskiptabann á Búrma en stór ríki í nágrenni við Búrma draga lappirnar hvað varðar aðgerðir. Kína og Rússland hafa beitt neitunarvaldi sínu gegn samþykkt ályktunar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um að herforingjastjórnin í Búrma láti af ofsóknum á hendur borgurum. Indland, sem áður fyrr gagnrýndi herforingjastjórnina opinskátt, hefur snúið við blaðinu og hefur hægt um sig. Og jafnvel þótt að japanskur fjölmiðlamaður hafi verið myrtur í aðgerðum herforingjastjórnarinnar neitar Japan að beita Búrma refsiaðgerðum. Þess má geta í algjöru framhjáhlaupi að Búrma er auðugt af gas- og olíuauðlindum.

Það getur verið erfitt að ímynda sér hvernig það er að búa við aðstæður þar sem að lýðræði er fótum troðið ásamt málfrelsi og öðrum grunndvallarréttindum borgaranna þegar að maður býr í velsældarsamfélagi á borð við Ísland. En meðan við prísum okkur sæl er mikilvægt að vera meðvituð um hvers konar óréttlæti viðgengst enn víða um heim. Og þó að aðstæður séu engan veginn sambærilegar milli þess sem best og verst gerist í heiminum hvað varðar borgaraleg réttindi þá er ávallt og alls staðar jafn mikilvægt að fólk haldi vöku sinni gagnvart öllum tilraunum sem snúa að því að skerða eitt það dýrmætasta sem að fólk getur átt – frelsið.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.