Ókeypis strætó

Nú í haust geta framhalds- og háskólanemar í fyrsta skipti farið í skólann með strætó án þess að greiða krónu fyrir. Nemarnir hafa að sjálfsögðu fagnað þessum breytingum en aðrir kunna að hafa áhyggjur af því að hið opinbera sé ekki að passa upp á sameiginlegu peningabudduna okkar. En hversu mikil er breytingin raunverulega og hvað er eðlilegt að hið opinbera taki mikinn þátt í kostnaði af almenningssamgöngum?

Nú í haust geta framhalds- og háskólanemar í fyrsta skipti farið í skólann með strætó án þess að greiða krónu fyrir. Nemarnir hafa að sjálfsögðu fagnað þessum breytingum en aðrir kunna að hafa áhyggjur af því að hið opinbera sé ekki að passa upp á sameiginlegu peningabudduna okkar. En hversu mikil er breytingin raunverulega og hvað er eðlilegt að hið opinbera taki mikinn þátt í kostnaði af almenningssamgöngum?

Árið 2006 voru heildartekjur Strætó bs. um 3 milljarðar króna. Þar af voru fargjaldatekjur um 800 milljónir króna eða rúmur fjórðungur. Afgangurinn er meira og minna greiðslur frá sveitafélögunum sem að Strætó standa. Þannig er ljóst að hið opinbera greiddi um ¾ af kostnaði vegna strætóferða almennings.

Til þess að reyna að sjá hversu mikil þessi niðurgreiðsla er á mann má sem dæmi taka einstakling sem fer allra sinna ferða í strætó og þarf á strætó að halda allan ársins hring. Ódýrasta leiðin til þess kostar hann rúmar 40 þúsund krónur á ári. Þar sem farþegar greiða aðeins um fjórðung af heildarkostnaði við strætó mætti því áætla að raunverulegur kostnaður vegna strætóferða þessa manns væri um 160 þúsund krónur og því stuðningur hins opinbera við hann um 120 þúsund krónur á ári. Til samanburðar má benda á að miðað við útreikninga annars pistlahöfundar hér á Deiglunni er hver bíll í umferðinni niðurgreiddur um 450 þúsund krónur á ári í formi ókeypis bílastæðum. Þá sparar strætófarþeginn líka þann samfélagslega kostnað sem felst í meiri útblæstri einkabíla á mann (sem bráðlega verður væntanlega auðreiknanlegur yfir í krónur) og meiri umferð sem annars myndi bitna á öðrum í umferðinni.

Nú fá nemendur sinn fjórðungshlut í kostnaðinum líka niðurgreiddan. Lauslega er talið að hlutur þess hóps sé um 40% af fargjaldatekjum, eða um 320 milljónir. Eftir standa þá um 480 milljónir af fargjaldatekjum strætó. Ef ákveðið yrði að gefa öllum frítt myndu þessar tekjur hverfa en kostnaður við fargjaldasölu, um 30 milljónir, myndi sparast svo að viðbótarkostnaður héðan í frá væri um 450 milljónir til að gera strætó alveg ókeypis.

Ljóst má vera að Strætó lifir seint á eigin fargjaldatekjum eingöngu. Fáum myndi detta í hug að borga um 1000 krónur fyrir eina ferð frekar en að taka leigubíl. Þetta á líka við annars staðar, jafnvel í einni þéttbýlustu borg heims, New York, standa tekjur af farþegum aðeins undir um helmingi rekstrarkostnaðar. Því er ljóst að niðurgreiðslur munu vera til staðar á meðan við viljum hafa strætisvagna á götunum. Það er svo alltaf spurning hversu miklar niðurgreiðslurnar eiga að vera og hvernig þeim fjármunum sem veitt er í almenningssamgöngur er best varið. Líklega gæti einhver fært rök fyrir því að þeim væri betur varið í því að fjölga ferðum frekar en að gefa fargjaldið alveg. Hvað sem því líður er sú ákvörðun að gera strætóferðir ókeypis langt í frá stefnubreyting opinberra yfirvalda, heldur aukning á niðurgreiðslum sem þegar voru til staðar.