Mis-VÍS

Vátryggingafélag Íslands stendur um þessar mundir í ströngu við að reyna ljúga að verðandi mæðrum um að sérstakur aukabúnaður sem VÍS selur auki öryggi ófæddra barna. Þetta er gert þrátt fyrir að jafnvel sú stofnun sem VÍS vísar á tiltaki að búnaðurinn sé einungis til þæginda.

Vátryggingafélag Íslands stendur um þessar mundir í ströngu við að reyna ljúga að verðandi mæðrum um að sérstakur aukabúnaður sem VÍS selur auki öryggi ófæddra barna. Þetta er gert þrátt fyrir að jafnvel sú stofnun sem VÍS vísar á tiltaki að búnaðurinn sé einungis til þæginda.

Fyrir tæplega tveimur vikum síðan (19. júlí) fór fram umræða í síðdegisútvarpinu (slóð: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4320644/3 ) um svokölluð meðgöngubílbelti sem VÍS selur meðal annars gegnum heimasíðu sína. Á heimasíðunni meðal annars:

“Meðgöngubílbeltið minnkar líkurnar á meiðslum sem verðandi móðir getur orðið fyrir ef hún er ökumaður eða faraþegi í bíl sem lendir í árekstri. Mjaðmahluti hefðbundins bílbeltis liggur yfir kvið þungaðrar konu og getur fóstrið því orðið fyrir miklum þrýstingi af völdum mjaðmahluta bílbeltisins. [..] Meðgöngubeltið er prófað af ST (Swedish National Test and Research Institute) eftir sömu stöðlum og hefðbundin bílbelti (ECEr16) BeSafe er því tvímælalaust til mikilla þæginda fyrir barnshafandi konur og eykur öryggi að því leyti að mjaðmarhluti beltisins færist niður fyrir maga hinnar verðandi móður.[ http://www.vis.is/index.aspx?GroupId=518 ]”

Í þeirri umræðu sem fram fór í síðdegisútvarpinu benti fulltrúi frá Sjóvá Forvarnarhúsi að samkvæmt sænskum rannsóknum væri umræddur aukabúnaður ekki öryggisbúnaður heldur einungis þægindabúnaður þar sem hann minnkaði ekki líkurnar á fósturskaða við árekstur. Þessu brást forvarnarfulltrúi VÍS ókvæða við og sagði að sér fyndist þetta vera algjör orðhengilsháttur. Hún sagði að ef varan fengi fleiri óléttar konur til að nota bílbelti þá væri hún að sjálfsögðu öryggistæki. Að lokum sagði hún frá konu sem hafði verið komin fimm mánaða á leið, lent í bílslysi, komið, sýnt sér myndir af bílnum og verið sannfærð um að BeSafe meðgöngubúnaðurinn hafi bjargað sínu ófædda barni.

Til að byrja skulum við koma staðreyndum málsins á hreint. Sú stofnun sem VÍS sjálft vísar á, ST, svarar spurningu um bílbeltanotkun óléttra kvenna á heimasíðu sinni:

“Á markaðnum eru ólíkar lausnir fyrir óléttar konur. Vörurnar hafa enga virkni við árekstur, sem raunar er mjög gott. Ekki er heimilt breyta viðurkenndum öryggistækjum, þar með talið öryggisbeltum bifreiðar. Vörurnar draga […] miðhluta mjaðmabeltisins burt frá maganum. Sá slaki sem við það myndast gæti hugsanlega hafa komið í veg fyrir að beltið og strekkjararnir virkuðu rétt, en rannsóknir hafa sýnt að svo er ekki. Vörurnar eru of veikburða til að hafa neikvæð áhrif á bílbeltið. Við árekstur nær beltið aftur upprunarlegri lögun sinni. Þess vegna má segja að ekki sé bannað að nota þessar vörur, sem skulu án nokkurs vafa vera flokkaðar sem þægindaaukandi. Ef þær að auki fá einstaka konur til að halda áfram að nota bílbelti má vel reikna það með sem öryggisaukandi áhrif.” [Þýðing höfundar, svarið má lesa á sænsku á http://www.vti.se/templates/Page____2648.aspx ]

Stofnunin sem VÍS sjálft vísar á tekur það fram að umrædd belti hafi enga virkni við árekstur. Enga virkni! Það hljómar dálítið öðruvísi en “eykur þægindi og öryggi móður og barns” eins og segir í auglýsingum VÍS. Það er því engin orðhengilsháttur að benda á þetta misræmi, því væntanlegir foreldrar eru auðveld féþúfa því hver vildi eiga líf ófædds barns síns á samviskunni bara því hann tímdi ekki 5 þúsundkalli í “hámarksöryggi” þess. Og hér er ekki einhver vafasöm sjónvarpsverslun á ferð, heldur tryggingarfélag!

Það að BeSafe beltið fái konur til að nota bílbeltið sem ekki hefðu gert það gerir búnaðinn ekki að öryggistæki! Sú ákvörðun þessara kvenna að nota ekki hefðbundin bílbelti byggir væntanlega á þeirri ranghugmynd að bílbelti sé óléttum konum hættuleg. Þeirri ranghugmynd á að útrýma í stað þess að festa hana í sessi sem sölu sérstaks aukabúnaðar. Ef að kona er sannfærð um að venjuleg bílbelti séu hættuleg án BeSafe búnaðarins, er hún um leið líklegri til að aka beltalaus þar sem hans nýtur ekki við. Að auki mega forvarnir ekki byggjast á lygum. Konur kaupa BeSafe til að auka öryggi sitt, EKKI til að halda að þær auki öryggi sitt.

Afi minn er búinn að reykja í 50 ár…

Bæði í umræddum útvarpsþætti sem og í blaðagrein skömmu síðar benti kynningarfulltrúi VÍS á konu sem hafði sent sér myndir af klesstum bíl sem hún hafi ekið í, sannfærð um að beltið hafi bjargað ófædda barninu hennar. Það er algengt í daglegum umræðum að vísindalegum rannsóknum sé stillt upp gegn upplifunum einstaklinga, samanber sögur af helblautum öfum sem reykja í hálfa öld og eru samt við hestaheilsu. Svona sögur hafa lítið vísindalegt vægi. Tölfræði spáir fyrir um líkindi: reykingar auka líkur á krabbameini, þær tryggja ekki að reykingamenn deyi ungir.

Þau gerast fá fyrirtækin sem hafa meiri þörf fyrir góða tölfræðiþekkingu en tryggingarfélög. Ef gróusögur eins og sú að ofan vega þyngra innan VÍS en tölfræðilegar rannsóknir virtra erlendra stofnana þá eru það mjög alvaralegar fréttir fyrir félagið og alla þá sem það tryggir. Sá aukni kraftur sem VÍS hefur sett BeSafe í auglýsingarnar að undanförnu sýnir að félaginu er meira annt um að selja auðtrúa tilvonandi mæðrum óþarfa viðbótarbúnað undir fölskum formerkjum en að standa vörð um orðspor sitt sem trausts tryggingarfélags.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.