Lóðaúthlutun í Úlfarsárdal

Í tíð R-listans var mikill hringlandaháttur á lóðaúthlutunum í Reykjavíkurborg. Ýmsar leiðir voru prófaðar, allar voru mikið gagnrýndar og R-listinn virtist enga stefnu hafa í þessum málum. Núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur hins vegar tekið skýra afstöðu og valið vitlausu leiðina í lóðaúthlutun, happdrættisleiðina.

Í tíð R-listans var mikill hringlandaháttur á lóðaúthlutunum í Reykjavíkurborg. Ýmsar leiðir voru prófaðar, allar voru mikið gagnrýndar og R-listinn virtist enga stefnu hafa í þessum málum. Núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur hins vegar tekið skýra afstöðu og valið vitlausu leiðina í lóðaúthlutun, happdrættisleiðina.

Nú er stutt í að frestur renni út til þess að skila inn umsóknum um lóðir í Úlfarsárdal. Alls eiga að rísa 216 íbúðir fyrir fjölbýlishús, 54 í parhúsum, 45 í raðhúsum og loks 73 einbýlishús. Fyrirkomulag úthlutana verður happdrætti, þ.e. einstaklingar og lögaðilar mega sækja um eina lóð hver, síðan verður dregið úr gildum umsóknum og þeir heppnu fá síðan að velja sér lóð í þeirri röð sem þeir eru dregnir út. Fast, fyrirfram ákveðið verð sem borgarstjórn hefur ákvarðað er síðan greitt fyrir viðkomandi lóð. Þessi leið er valin umfram uppboðsleiðina, að því er virðist eingöngu til að koma í veg fyrir brask (sem er af hinu illa, fyrir þá sem ekki vita). Andúðin á því að nokkur græði virðist yfirbuga alla aðra hugsun í þessu máli.

Þegar umframeftirspurn er eftir lóðum er það vegna þess að umsækjendur telja lóðirnar vera meira virði en verðið sem þær eru seldar á, annars myndu þeir ekki sækja um. Raunverulegt markaðsverð lóðanna er því hærra og því eru verðmæti í því fólgin að vera dreginn út. Þau nema muninum á úthlutunarverðinu og raunvirði lóðarinnar. Þegar lóðum í Lambaseli fyrir um tveimur árum var úthlutað nam eftirspurnin margföldu framboðinu, enda voru lóðirnar seldar á mjög hagstæðu verði. Fáir heppnir voru dregnir út og í kjölfarið var þó nokkuð um það að vinningshafarnir seldu lóðirnar áfram og innleystu happdrættisvinninginn sinn, nokkrar milljónir í boði borgarinnar.

Með happdrættinu ákvað Reykjavíkurborg að gefa handahófsvöldum einstaklingum verðmæti sem allir Reykvíkingar áttu. Það sama er uppi á teningnum nú. Í stað þess að velja að selja verðmæti okkar Reykvíkinga á sem hæstu verði og nota svo peningana til góðra verka í borginni hefur borgarstjórn valið að gefa nokkrum heppnum afslátt af íbúðinni sinni. Þeir borga svo brúsann sem ekki eru svo heppnir að vinna, vilja frekar búa annars staðar í Reykjavík eða hafa ekki efni á að taka þátt í happdrættinu og byggja nýtt hús. Í einkavæðingum hins opinbera gerum við kröfu um að leitað sé eftir hæsta verði, hér á hið sama við. Hver hefði sætt sig við að Síminn hefði verið seldur með happdrættisfyrirkomulagi?

Til þess að koma í veg fyrir svipað brask (muna, brask er af hinu illa) og átti sér stað í kjölfar Lambaselslóðanna hefur núverandi borgarstjórn ákveðið að neyða þá sem vinna í happdrættinu til þess að búa í nýju íbúðunum sínum í 6 ár! Þeir sem vilja selja innan 6 ára þurfa að borga refsigjald fyrir það. Þetta rýrir auðvitað verðmæti lóðanna, og sýnir aftur hversu litla virðingu borgarstjórn sýnir eignum okkar borgarbúa.

Allt er þetta gert í nafni þess að koma í veg fyrir það að einhver græði pening. En hvað er verið að koma í veg fyrir? Jú, það er verið að hindra að verktakar bjóði hæsta verð fyrir lóðirnar, byggi húsin og selji þau aftur með hagnaði. Ef verktakar bjóða hæst þá hlýtur það að vera vegna þess að þeir geta byggt á hagkvæmari hátt en einstaklingar. Þannig er verið að koma í veg fyrir að þeir sem eru bestir í verkið fái möguleika á að koma að því. Borgarstjórn kann greinilega að sóa verðmætum hratt og örugglega. Auk þess má vel ímynda sér að hverfin byggist hraðar upp ef verktakar byggja, þar sem þeir tapa á því að taka langan tíma í að byggja á meðan einstaklingar eru líklegri til að láta verkið dragast. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, núverandi borgarfulltrúi, var reyndar sammála því að vanir byggingaraðilar væru líklegri til að geta byggt á hagkvæmari hátt en einstaklingar á gömlu bloggi sínu, þegar hún var ekki komin í borgarstjórn. Hún ætti að lesa það sem hún skrifaði þá, það var hreint ekki vitlaust.

Úthlutunin á að vera gerð með uppboðsaðferð. Vel skilgreind byggingarréttindi eiga að fylgja hverri lóð, skilgreina skal lágmarksverð og hæstbjóðandi á að fá lóðina (svo fremi sem hann býður umfram lágmarksverðið) og skiptir þá engu máli hversu margar lóðir einhver kanna að fá. Þannig eru hagsmunir allra Reykvíkinga best tryggðir, en ekki bara þeirra sem vilja búa í Úlfarsárdal og hafa efni á að byggja þar. Það er réttlætismál að lóðirnar okkar séu seldar hæstbjóðanda. Bráðaofnæmi borgarstjórnar fyrir braski má ekki verða til þess að verðmætum Reykvíkinga verði sóað að óþörfu.

Þeim sem vilja kynna sér úthlutunina frekar er bent á þetta.