Umhverfisvernd að sjó

Áhugi er á umhverfisvernd um þessar mundir. Náttúran á að vera ósnortin og laus við rusl eins og virkjanir og verksmiðjur. Allt á að vera fallegt og grænt. Athyglisvert er að þeir sem mest tala um náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu virðast halda að umhverfið nái aðeins að sjávarmálinu. Lítill áhugi er á því sem viðkemur lífríki sjávar þótt þar sé að finna dýrmætustu auðlind Íslendinga.

Bráðabirgðaniðurstöður Hafrannsóknastofnunnar (Hafró) úr svokölluðu vorralli stofnunarinnar birtust 12. apríl sl. Í stuttu máli segir í fréttatilkynningu frá stofnuninni að ástand helstu fiskistofna sé ekki gott. Áhyggjuefni ef rétt er. Tilkynningin stangast nokkuð á við fréttir af gríðarlegri þorskgengd og veiði því samfara undanfarnar vikur á helstu miðum kringum landið. Reyndir skipstjórnarmenn segja að sjaldan hafi miðin verið svo gjöful. Hvernig má það vera að á sama tíma og varað er við slöku ástandi fiskistofna þá sé allt fullt af fiski? Svarið er ekki augljóst enda tækin til að svara þeirri spurningu fá.

Fiskarnir í sjónum eru mikilvæg auðlind. Það sem gerir auðlindina sérstaka og verðmæta til lengri tíma litið eru sú staðreynd að hún er endurnýjanleg. Það má jafnvel segja að hún sé svona sjálfbær ef rétt er haldið á spilunum. Eðlilega hefur regluverkið í kringum stjórn fiskveiða miðast að því að vernda lífríki sjávar og tryggja skynsamlega nýtingu. Lög um stjórn fiskveiða gera ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun rannsaki og mæli stofnstærð fiskistofna og sendi ráðherra tillögur um hver leyfilegur heildarafli skuli vera. Ráðherra er ekki bundinn af tillögunum en ákvörðun hans tekur fyrst og fremst mið af ráðgjöf stofnunarinnar enda á litlu öðru að byggja.

Áhrif Hafró eru samkvæmt þessu gríðarleg. Rannsóknir stofnunarinnar eru í raun einu rannsóknirnar sem lagðar eru til grundvallar ákvörðun um nýtingu og verndun lífríkis hafsins. Hér er ekki verið að halda því fram að stofnunin hafi rangt fyrir sér og standi rangt að ráðgjöf um nýtingu auðlindarinnar. En það eru heldur engar forsendur til staðar til að fullyrða að rétt sé staðið að rannsóknum og ráðgjöf. Vísindarannsóknir á lífríki sjávar eru í eðli sínu mjög ónákvæm vísindi. Ef út í það er farið þá er allt vísindastarf óvissu háð. Tilgátur, kenningar og niðurstöður fá ekki þrifist nema fram komi gagnrýni. Kenning telst þannig vera rétt þar til sýnt sé fram á annað. Hver er bær til þess að gagnrýna kenningar og niðurstöður Hafró?

Undanfarin ár hafa komið fram aðilar sem gagnrýnt hafa rannsóknir og niðurstöður stofnunarinnar. Því hefur verið haldið m.a. fram að hnignun þorsksstofnsins stafi ekki af ofveiði heldur að erfðabreytingar þorskstofnsins eða þorskstofnanna hafi leitt til þess að þorskurinn sé að verða smærri og fyrr kynþroska sem þýði að þorskurinn muni sjálfur stuðla að hruni sínu jafnvel þó svo algjört bann yrði lagt við veiðum næsta áratuginn. Ein afleiðing af ráðgjöf Hafró er sú að stór þorskur er veiddur á meðan litlum afturkreistingum er hlíft. Það leiði til þess að afkvæmi stóra þorskins verða aldrei til meðan smátitturinn fjölgi smátittum sem verða að engu. Í stuttu máli séu erfðavísar aumingjans að taka yfir erfðavísa golþorsksins. Fleira mætti tína til. Lítið mark er tekið á þessum athugasemdum þar sem ekki er um lögbundna ráðgjöf vísindamanna ríkisins að ræða!

Það er áhyggjuefni að ríkisstofnun, eins og Hafró, sitji ein að rannsóknum og ráðgjöf varðandi veiðar og verndun fiskistofnanna. Sérstaklega þegar fram hafa komið vísbendingar um að ráðgjöf Hafró síðustu áratugi gæti verið röng. Starfsmenn Hafró eru færir og snjallir vísindamenn. En það er ekki trúverðugt að fáir vísindamenn á vegum hins opinberra séu í einu og öllu handhafar sannleikans í jafn flóknu vísindastarfi og rannsókn lífríkis sjávar er. Slakur árangur af ráðgjöf stofnunarinnar síðustu áratugina bendir eindregið til þess að kanna verður aðra möguleika í stöðunni.

Efla verður rannsóknarstarf á lífríki sjávar kringum Ísland og tryggja að fleiri snjallir og klárir vísindamenn geti lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Þannig mun samkeppni og samstarf vísindamanna leiða til traustari og áreiðanlegri rannsókna sem aftur skili sér í upplýstari og vandaðri ráðgjöf um veiðar til ráðherra. Vel færi á því að háskólar landsins og aðrar vísindastofnanir innanlands sem utanlands kæmu jafnframt að ráðgjöf um nýtingu fiskistofnanna sem taka yrði tillit til við ákvörðun á leyfilegum heildarafla.

Athyglisvert er að lítill áhugi er á slíkri fjölbreytni meðal umhverfissinnaðra stjórnmálamanna og þá sérstaklega á vinstri vængnum. Ástæðan fyrir því gæti verið sú að samkvæmt þeirra hugmyndafræði færi bara vel á því að fámennur hópur vísindamanna á vegum hins opinbera útilokaði alla aðra frá því að leggja sitt af mörkum. Samkeppni og fjölbreytni virðist ekki vera til orðabókum vinstri manna. Það er miður því eitt stærsta og mikilvægasta umhverfismál Íslendinga er að viðhalda fiskistofnunum í sjónum kringum landið. Það verður ekki gert nema með traustri og áreiðanlegri ráðgjöf ólíkra vísindamanna í samkeppni, en í senn samstarfi um skynsamlega nýtingu auðlindar sjávar.
<%image(cod_fish.jpg|200|157|cod_fish.jpg)%>

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.