Frá framtíðinni, blómvöndurinn á hinum koddanum?

Sé farið of nálægt svartholum gerist margt skrýtið; hið sama á við um kosningar. Í því sambandi hefur höfundur áhuga á afmyndun hvers konar, þó sérstaklega á afmyndun hugtaka.

Baráttan um traust kjósenda harðnar. Sú einasta eign stjórnmálaflokks sem þjónar tilvist hans er traust; margir eru öreigar með tilliti til þess. En það er allt í lagi, hugsa frambjóðendur þeirra flokka, og taka til við að gera út á ótta kjósenda við framtíðina; framreiða stórgerðar tillögur um það sem bíður okkar fái þeir ekki stuðning. Þær tillögur eru gjarnan mun ýtarlegri en lýsingin á framtíðinni sem þeir bjóða upp á. „En það er allt í lagi”, hvísla þeir og hugsa svo: „Traust er munaður sem ekki er hægt að leyfa sér í kosningabaráttunni; þetta snýst um að koma til móts við spurn eftir skilgreindri framtíð.”

Svo, nei – það er baráttan um atkvæði kjósenda sem harðnar.

Að ofan ber aðeins á afmyndun framtíðarhugtaksins. Það hættir allt í einu að vera þetta óskilgreinda tímabil óliðins tíma, sem hörfar undan hverju andartaki, og verður að markaðsvöru; stjórnmálaflokkar framleiða tillögur sem kosta eitt X.

En hverju veldur það, meðal annars, þegar farið er með framtíðina sem markaðsvöru og hún gerð því sem næst áþreifanleg?

Stjórnmálamenn, sumir hverjir, og ýmsir aðrir reyna að stöðva skoðanamyndun í samfélaginu eða beina henni í skilgreindan og þröngan farveg; þeir þurfa enda að geta áttað sig á óskum kjósenda, greint eftirspurnina vandlega svo þeir geti mætt henni með markvissri vöruþróun: Einhvers konar hugmynd um framtíð sem fellur vel að.

En varan er gjarnan gölluð. Hún snýst meira um áfangastaði – og þeir eru oft á öðrum hnöttum eða djúpt í Grimsævintýri – en leiðir. En það er allt í lagi, hugsa sömu frambjóðendur og fyrr, því þetta snýst ekki um að gera hugmynd sína um framtíð að veruleika allra, bara að gera hugmynd sína að ósk kjósenda fram yfir kosningar – og fá að vera með í fjögur ár. Þeir virðast sannfærðir um að framtíðin láti aldrei sjá sig, og björt framtíð sé alltaf gulrót en aldrei máltíð.

En hvað má segja um þá sem gefast upp og einbeita sér að því að fanga „traust” kjósenda, leggjast í lýðskrum og annan skæruhernað gegn eðlilegri skoðanamyndun: Þeir líta svo á að birtingarmynd lýðvaldsins sé grafít-x á kjörseðli annað slagið (punktur) Þeim er sama þótt skoðanamyndun í samfélaginu þurfi að vera eðlileg, eiga sér stað allfjarri pólitískum litaperum og hinum frumstæðustu eðlistilhneigingum, svo vald almennings verði framselt eðlilega og stjórnmálamenn geti beitt því markvisst. Þeir sem einbeita sér að því að fanga „traust” kjósenda eru skammlíf nagdýr á rótum lýðveldisasksins.

En hvað um höfund, af hverjum vill hann kaupa framtíð? Sjálfsagt verður fyrir valinu hópur óstjórnlyndra einstaklinga sem telur sig bera ábyrgð á að skapa aðstæður fyrir einstaklinginn til að finna hæfni sinni og afli mótstöðu í þeirri viðleitni að vaxa og lifa með hamingju.

Að gamni skulum við taka mínus út fyrir yfirlýsinguna, því stærðfræðin gerir allt skemmtilegra: -(Örugglega verður ekki fyrir valinu stjórnlyndishjörð sem telur sig bera beina ábyrgð á hamingju einstaklingsins og beitir ríkisvaldinu mjög til að bæla óyfirvegað frumkvæði þegna og valda í þeim skilyrtri hamingju.)

Latest posts by Guðmundur Jóhann Óskarsson (see all)