Kaliningrad

Við austurströnd Eystrasalts liggur borgin Kaliningrad. Héraðið í kring var áður hluti Þýskalands en tilheyrir í dag Rússlandi. Samgöngur til og frá svæðinu eru nú í brennidepli deilna milli Rússlands og tveggja tilvonandi aðildarríkja ESB.

Borgin Kaliningrad liggur við austurströnd Eystrasalts. Borgin hét áður Königsberg og svæðið umhverfis hana – Austur-Prússland. Héraðið tilheyrði eitt sinn Þýskalandi en er í dag hluti Rússneska sambandslýðveldisins. Þegar Pólland og Litháen ganga í Evrópusambandið mun héraðið verða landlyksa innan ESB og munu rússneskir borgarar þá þurfa vegabréfsáritanir til að ferðast „innanlands“.

Þetta finnst mörgum Kalingradbúum óþægilegt enda furðulegt að þurfa sækja um vegabréfsáritun til að heimsækja vini og ættingja sem búa í sama landi. Rússneskir stjórnmálamenn hafa fylgt eftir kvörtunum borgara sinna með ýmsum kröfum sem reifaðar verða síðar. Kröfurnar þarf hins vegar að skoða út frá ákveðnu samhengi.

Í fyrsta lagi þá geta Rússar sjálfir sér um kennt hvað staðsetninguna varðar. Landið tilheyrði og áður Þýskalandi en Rússarnir hirtu það sem stríðsfeng eftir styrjöldina, einmitt til að styrkja stöðu sína á svæðinu og skapa vandræði í framtíðinni. Þetta er gamalt bragð: að flytja slatta þjóðar til einhvers lands, tryggja sér þannig óbein pólitísk áhrif og grafa undan þjóðaranda hinna upprunalegu íbúa.

Í öðru lagi þá geta Rússar í dag heimsótt ættingja sína án þess að framvísa vegabréfi. Þeir geta til dæmis farið með flugi, eða skipi til St. Pétursborgar. Slíkt er hins vegar dýrt og kannski ekki á færi Meðal-Júrís og Meðal-Svetlönu.

Kröfur Rússa hafa verið margs konar:

  1. Að Rússar geti ferðast um Evrópu án vegabréfsáritunar.

  2. Að Rússar geti ferðast til og frá Kaliningrad svæðinu án vegabréfsáritunar.

  3. Að Rússar geti keyrt á hlutlausum hraðbrautum og lestarteinum gegnum Pólland án þess að sæta vegabréfsskoðun.

  4. Að rússneskar lestir geti brunað gegnum Litháen án þess að farþegar sæti vegabréfsskoðun en þó fái Litháar að vita hverjir séu í lestinni.

Ólíklegt er að ESB afnemi vegabréfsáritanir fyrir Rússa í náinni framtíð. Rússland er gríðarlega víðfemt ríki með löngum landmærum sem sum liggja að ríkjum sem vesturlandabúum þykja súr. T.d. Kína, Norður-Kórea og Finnland.

Sömuleiðis er óásættanlegt fyrir Pólverja að heimila áritanalausa flutninga til og frá svæðinu því slíkt útilokar aðild að Schengen. Ekki er hægt að tryggja að menn á ferð til Kaliningrad fari ekki bara til Berlínar í staðinn. Þjóðverjar mundu ekki sætta sig við slíkt og líklegast ekki afnema landamæraeftirlit á Oder-ánni við

slíkar aðstæður. Taka skal fram að Schengen-aðild er í augum Pólverja það eftirsóknarverðasta við ESB-aðild.

Hugmyndir um einhverja skrítna lestarteina og hraðbrautir eiga heima í kalda stríðinu. Fáranlegt er að ætla að þjóðir sem hafi í hálfa öld þurft að lifa við, því sem næst, hersetu Rússa láti þeim nú eftir land svo þeir gæti keyrt til og frá héraðinu sem var búið til til að halda þeim í heljargreipum.

Lestir með neglda glugga eru heldur ekki ýkja geðfeld hugmynd þó eflaust sú einfaldasta í framkvæmd. Þetta mundi þó aðeins eiga við um Litháen því Pólland liggur ekki (enn þá) að „aðalhluta“ Rússlands.

Í þessu máli er erfitt að samræma eðlilegar kröfur venjulegra íbúa Kaliningrad við jafneðlilegar kröfur ríkja um að stjórna því hver fari yfir landamæri þeirra. Hitt er svo annað mál að rússnesk yfirvöld ættu að horfa í sinn eigin barm áður en þau saka nágrannaþjóðir sínar um ósanngirni. Áætlaðar vegabréfsáritanir til Póllands munu kosta 5 dollara. Það kostar Pólverja 35 dali að fara til Rússlands. Eins hefur pólska hafnaborgin Elblag ekki haft aðgang að Eystrasaltinu í hálfa öld, vegna frekju Rússa. Eina opna sjóleiðin frá Elblag liggur einmitt gegnum Kaliningrad svæðið.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.